14.03.1958
Efri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

100. mál, skattur á stóreignir

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Eftir að farið var að leggja á menn stóreignaskatt þann, sem samþykktur var með l. frá Alþingi í maí s.l., hafði komið í ljós, að fresturinn til að leggja skattinn á hafði verið ákveðinn of skammur, og að beiðni fjmrh. staðfesti forseti Íslands brbl., meðan á þingfrestun stóð, að þessi frestur yrði lengdur nokkuð og að í staðinn fyrir að hann yrði lagður á, á árinu 1957, þá yrði hann lagður á fyrir febrúarlok 1958. Hér er því aðeins um að ræða staðfestingu á þessum brbl.

Fjhn. hefur yfirfarið frv. og er sammála um að mæla með því, eins og um getur á þskj. 302. Tveir nm., hv. þm. Vestm. (JJós) og hv. 6. þm. Reykv. (GTh), áskildu sér rétt, eins og fram kemur í nál., til þess að fylgja brtt. eða flytja brtt. við 2. umr. málsins. Að öðru leyti, eins og ég sagði, er n. einróma um að mæla með þeirri breytingu, sem frv. felur í sér, sem er í þessu atriði einu fólgin að lengja frestinn til að leggja skattinn á.

Síðan nál. var útbýtt, hafa verið lagðar fram brtt. frá þessum tveimur hv. þm. á þskj. 310. Ég vil aðeins taka fram í sambandi við þessar brtt., að n. átti þess ekki kost að ræða þær, og er þess vegna ekki hægt að tala um álit n. í sambandi við þær. Ég vil þó aðeins geta þess, að við fljóta yfirsýn sýnist mér, að brtt. fari mjög í þá átt að hækka afskriftamöguleika og að aðalbrtt. sé kannske fólgin í því, að flm. fara fram á, að sá skattur, sem á hvern einstakling verður lagður, verði frádráttarbær. Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á það, að þegar stóreignaskatturinn var síðast ákveðinn, árið 1950, var svo beinum orðum fyrir mælt, að hann væri ekki frádráttarbær, frekar en aðrir beinir skattar yfirleitt.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þessar brtt. Flm. munu að sjálfsögðu gera grein fyrir þeim. En ég vil ítreka það, að n. hefur ekki átt þess kost að taka afstöðu til þeirra.