02.12.1957
Neðri deild: 31. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

62. mál, fyrningarafskriftir

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Nú um nokkur ár hafa verið í gildi þau lagaákvæði, að afskrifa mætti með sérstökum hætti tilteknar eignir, þ. á m. skip og frystihús. Þessi ákvæði hafa reynzt mjög þýðingarmikil við uppbyggingu atvinnulífsins. Þau hafa gilt tvö ár í senn. Nú stendur þannig, að ef ekki á að breyta til, verður að ákveða að nýju að framlengja þessi ákvæði.

Ríkisstj. þykir rétt að leggja til, að þessi ákvæði verði framlengd, og því er í þessu frv. gert ráð fyrir, að svo verði og að þau gildi þá áfram um þær eignir, sem koma til fyrstu notkunar á árunum 1957–1959.

Þetta mál var lagt fyrir hv. Ed., var afgreitt þar ágreiningslaust og fjallað um það í fjhn. Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn, að lokinni þessari 1. umr.