21.03.1958
Efri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

100. mál, skattur á stóreignir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt, að ég skyldi ekki koma um leið og fundur var settur. Ég átti smáerindi í bankann, þegar ég kom hér að dyrunum, og hitti annan skrifara þessarar hv. d. og bað hann að tjá forseta, að ég mundi aðeins þurfa að bregða mér frá, hélt, að sá tími yrði ekki eins langur og varð, svo að fyrstu málin á dagskránni hafa verið afgreidd á skemmri tíma, en ég ætlaði. Ég kom þó nægjanlega snemma fyrir tilhliðrun hæstv. forseta og hv. frsm. fjhn., að ég gæti heyrt álit skattstofu Reykjavíkur eða svar við bréfi hæstv. forseta deildarinnar frá 18. marz, sem sent var að tilhlutun hv. n. og þar sem spurzt var fyrir um það, hvernig stóreignaskatturinn hefði komið niður á einstaka atvinnuvegi, og sérstaklega það, hvað fyrirtækjum sjávarútvegsins væri gert að greiða.

Mér virtist á því, sem ég nam af svari hv. skattstjóra, að hann færi þarna líkt og köttur í kringum heitan graut og vildi sem sagt „snakka sig“ frá að láta nokkurt álit í ljós á forsendum, sem eru að mínu áliti litið haldgóðar.

Hann byrjar á því, eins og hæstv. forseti hefur heyrt, í fyrsta lið svarsins að bera í vænginn á þann hátt, að það sé ekki vitað, hvort eða hvernig hin einstöku félög notfæri sér heimildina til að endurkrefja meðlimi sína um skattinn, og það er ein ástæðan til þess, að honum virðist ógerningur að gefa nokkur skýr svör. Þá segir hann enn fremur, að jafnvel þó að þessi hængur væri eigi á málinu, sé það eitt til, að margir stundi ýmiss konar atvinnu, þannig að ógerningur sé að ákveða, hvernig flokka beri eftir atvinnugreinum skattgjöld einstakra skattgreiðenda, og bætir því við, að þessi sundurliðun, sem við höfum gjarnan óskað að fá fram, yrði alltaf handahófskennd, þó að jafnvel væri lögð í hana mikil vinna, En það virðist ekki vera, að hann hafi reynt að leggja mikla vinnu í að svara þessu. Hitt, að skattálagningin taki breytingum við kærur, kemur þessu máli í rauninni ekki við, því að það er vitaskuld frumskattálagningin, sem átt er við, þegar spurt er um, hvernig þetta skiptist niður á stofnanir og atvinnugreinar.

Í fjórða lagi skýtur hv. skattstjóri sér á bak við þá almennu leynd, sem eigi að vera yfir efnahag einstaklinga og félaga, og segir: „Eins og kunnugt er, eru reglurnar við álagningu skattsins á þá lund, að upplýsingar um skattgreiðslur og skiptingu skattsins geta gefið nánari eða víðtækari upplýsingar um efnahag einstaklinga og félaga heldur en nokkur önnur skattaálagning. Hefur því skattstofan tekið þá afstöðu að hliðra sér hjá að gefa upplýsingar um þessi mál, enda vandséð, hvar eigi að draga mörkin, hverjar upplýsingar eigi að gefa og hverjar ekki.“

Þarna játar skattstjórinn, að hér sé um að ræða skattálagningu í algerlega óvanalegu formi, og er það viðurkenning á því, sem ég og margir aðrir hafa haldið fram, að hér væri ekki um eiginlega skattálagningu að ræða skv. lögum, enda hafði ég í frumræðu minni haldið því fram, að hér væri að margra manna dómi um freklegt stjórnarskrárbrot að ræða, og það hef ég kynnt mér töluvert síðan og fullyrði, að þetta liggur nú fyrir, að hér er um freklegt stjórnarskrárbrot að ræða. Þessi skattálagning er ekki í sama anda eða af sama tagi og venjuleg skattálagning hjá ríkinu, og mun ég leiða að því nokkur rök, ef mér gefst færi á, áður en þetta mál fer út úr deildinni, þ.e.a.s. frekari rök, en ég hef hingað til gert. Það er í því sambandi talsvert gott fyrir þann málstað, sem ég flyt, að það liggur hér skriflega fyrir frá sjálfum skattstjóranum, að reglurnar við álagningu skattsins séu á þá lund, að við það að rannsaka, hvernig skattálagningin verði til, komi fram miklu nánari skilgreining um efnahag einstaklinga og félaga, heldur en við nokkra aðra skattálagningu. Og af því segir hann, að skattstofan hafi tekið þá afstöðu að neita um slíkar upplýsingar. Hér játar þess vegna skattstjórinn sjálfur, að þessi skattur eigi ekki samstöðu við aðra skattálagningu til ríkissjóðs, sem er lögmæt, af því að hann finnur það sjálfur sýnilega, að hér er ekki um venjulega skattálagningu að ræða, heldur, eins og ég hef haldið fram, um eignarnám, sem er á móti bókstaf og anda stjórnarskrár þeirrar, sem við búum við.

Hv. skattstjóri endar svo sinn málavafning í þessu að biðja fjhn. að falla frá sinni beiðni eða a.m.k. að fresta henni, á þessu stigi málsins. Ég get skilið það, að hann þykist eiga óhæga aðstöðu, þar sem á honum liggur „pressa“ auðvitað frá ríkisstj. um að gera enga tilhliðrun í þessu máli, og að hann þess vegna biðjist vægðar frá Alþingi um að leggja fram þær upplýsingar, sem hann gæti lagt fram, ef hann vildi leggja í það vinnu. Og ég fyrir mitt leyti lýsi yfir því, að ég mun sem fjárhagsnefndarmaður halda fast við það, að fjhn. gangi eftir svari, sem getur heitið svar við þeim spurningum, sem fyrir hann voru lagðar, og að það liggi þá fyrir við 3. umr. málsins, þó að ekki sé um annað plagg að ræða, hér núna, en hefur sýnt sig.

Ég var fyrr við þessa umr. eftir megni búinn að rökstyðja þær brtt., sem við hv. 6. þm. Reykv. höfðum þá lagt fram. Um það mætti að vísu margt enn segja. En ég vil taka það fram, að ég tók þá til baka brtt. 3 á þskj. 310 og bað hæstv. forseta að fresta henni til 3. umr., en ég vil nú mælast til þess við hæstv. forseta, að hún gangi hér einnig undir atkv. við þessa umr. Það getur orðið nóg að tala um við 3. umr. fyrir því.

Við flm. að þessum brtt. höfum veitt því athygli, sem raunar er eðlilegt, að þær eru einkum miðaðar við tvo aðalatvinnuvegi landsins, landbúnað og sjávarútveg, En við höfðum ekki eins ríkt í huga, þegar við sömdum þær, þriðja atvinnuveginn, sem er engu þýðingarminni, sem sagt iðnaðarstarfsemina í landinu, en vissum að vísu, þegar við sömdum þessar brtt., að þær voru engan veginn tæmandi og margt fleira mundi geta komið til greina, ef nokkur áhugi væri fyrir að lagfæra þessa löggjöf.

Þó að við höfum nú horft framan í það, svo sem kom fram í ræðu hv. frsm. n., að n. muni ekki leggja til að fallast á brtt. á þskj. 310, leyfum við hv. 6. þm. Reykv. og ég, okkur að koma enn fram með brtt. í sambandi við þetta þskj. og hana skriflega í þetta sinn, og ég vona, að hún komist líka að við atkvgr. Brtt. er við brtt. á þskj. 310, að á eftir a-lið 1. tölul. komi nýr stafliður, svo hljóðandi:

„Á eftir 2. málsgr. 1. tölul. komi ný málsgr., þannig: Frá matsverði dráttarbrauta, verksmiðja og annarra húseigna, sem notaðar eru við iðnaðarframleiðslu, skal draga 30% — þrjátíu af hundraði.“

Vil ég leyfa mér, áður en ég fer lengra í þessu máli, að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.

Ég kom að því stuttlega á dögunum, þegar ég flutti fyrri part ræðu minnar um brtt. okkar, sem prentaðar eru á þskj. 310, að hvað sjávarútveginn snertir virtist vera, að framkvæmd á þeim ákvæðum, sem hann snerta, sé þannig, að mikill hluti af því, sem á að teljast að heyra undir sjávarútveginn, sé ekki tekinn með í reglum þeirra manna, sem fara með skattálagninguna fyrir hæstv. fjmrh. Ég taldi þá upp nokkuð í þessu sambandi og veit, að ég er í fullu samræmi við þá, sem vit hafa á, þegar ég læt í ljós, að undir sjávarútvegsfyrirtæki heyra náttúrlega togaraútgerð og vélbátaútgerð og hraðfrystistofnanir fyrir fiskafurðir, enn fremur saltfiskverkun og allt, sem í kringum hana er, skreiðarverkun á sama hátt, síldar- og fiskimjölsframleiðsla, síldarsöltun, lifrarbræðsla og lýsisvinnsla, hvalveiðar og vinnsla hvalafurða, niðursuða og reyking fiskafurða. Allar þessar greinar atvinnuvegarins, sem í kringum sjávarútveginn eru, tel ég að eigi hiklaust að telja til sjávarútvegs landsmanna og láta þær undanþágur eða frádráttarreglur, sem gilda ýmist um togara eða önnur fiskiskip eða vélbáta eða hraðfrystistöðvar, gilda jafnt fyrir þær verkunarstöðvar, sem ég nú taldi upp. Vitaskuld ætti hið sama að gilda hvað landbúnaðinn snertir. Það er ekki á mínu færi í fljótu bili að telja upp, hve margar greinar iðnaðar eða atvinnu á landi eru beint tengdar landbúnaðinum, ég get ímyndað mér, að það sé nokkuð löng upptalning, ef út í það er farið. En ég tel skattayfirvöldunum og ríkisstj. skylt að gera þessum atvinnuvegum jafnt undir höfði og láta það, sem kynni að verða gert til hagsbóta fyrir sjávarútveg og landbúnað, ná jafnt til þeirra greina, sem heita öðrum nöfnum, en hafa þessa atvinnuvegi fyrir undirstöðu.

Ég gat þess hér um daginn, að skatturinn, sem hefði átt að verða 80 millj., og í mörgum ræðum hæstv. fjmrh. á sínum tíma hefði verið orðuð einmitt talan 80 millj. og sums staðar alveg án aths., þó að sums staðar væru aths. við í hans ræðu, hefur nú reynzt í álagningu 135 millj., svo að skattkrafan eða þetta eignanám hefur orðið miklu grófara í höndum hæstv. ráðh. en sú löggjöf gerir ráð fyrir, sem hún á að vera byggð á.

Eftir þeim upplýsingum, sem hægt hefur verið að ná þrátt fyrir alla mótspyrnu skattayfirvaldanna, hafa fróðir menn komizt að því, að það er ekkert óverulegur hluti af þessari skattálagningu, sem lendir á sjávarútveginum.a.m.k. má telja, að 30 millj. kr. lendi beint á sjávarútveginum og hans fyrirtækjum, og það gæti sennilega komið betur í ljós, ef ekki væri haldið þeirri leynd yfir framkvæmd skattálagningarinnar, sem hv. skattstjóri játar í þessu sínu bréfi.

Sá atvinnuvegur, sjávarútvegurinn, berst, eins og allir vita, mjög í bökkum, og ríkið verður að neyta ýmissa bragða til þess að halda honum, ef svo mætti segja, gangandi. Verður þess vegna enn undarlegra, hvernig það sama ríkisvald, sem verður að vera að skattleggja borgarana almennt til að halda sjávarútveginum gangandi, getur leikið sér að því að ræna hann þarna 30 millj. kr. með nýjum svokölluðum skatti, sem ekki er annað en eignanám, en væri réttara að nefna eignarán.

Það er stór mótsögn í því hjá ríkisvaldinu að taka þannig með annarri hendinni það, sem hún réttir að þessum mjög svo nauðsynlega atvinnuvegi með hinni, og ég hygg, að það sama muni gilda um aðra atvinnuvegi, bæði landbúnað og iðnað, ef ofan í kjölinn væri nokkuð leitað eða fengist leitað.

Það er kunnugt af ótal athugunum og rannsóknum, sem hafa farið fram undanfarin ár, að sjávarútvegurinn og þeir, sem að honum standa, eru í miklum fjárhagsörðugleikum, og mundi það enn auka á vandræðin, ef þeim yrði gert að greiða milljónatugi í stóreignaskatt, sem byggist á því, að ýmsar eignir, sem reknar hafa verið með tapi mörg undanfarin ár, eru reiknaðar með sérstöku áætlunarverði, sem ekki er í neinu samræmi við afkomu og hag fyrirtækjanna.

Það er sem sé vitað, að stóreignirnar hjá mörgum aðilum, ef ekki öllum, eru fengnar fram með því að meta eignirnar langt fyrir ofan sannvirði og láta menn svo gjalda skatt af því eða reikna skattinn þar út frá. Það var þetta, sem mér þótti vera réttast á dögunum að nefna falsaðar tölur, sem fengjust þannig út, og hæstv. ráðh. fyrtist svo mjög af sem kunnugt er. Ég veit ekki, hvaða nafngift á betur við það athæfi ríkisvaldsins, sem hér liggur fyrir til grundvallar, að láta fyrst meta eignirnar langt yfir sannvirði, hvort heldur það eru hús eða hlutabréf, og segja svo við viðkomandi: Ja, þetta mikið áttu, og svo reiknum við skattinn út frá því. Ég held, að það hafi verið réttnefni, sem ég valdi þessu athæfi á dögunum.

Hv. frsm. lýsti því hér yfir, að hv. meiri hl. n. sæi sér ekki annað fært, en að leggja á móti samþykkt á brtt. okkar hv. 6. þm. Reykv. Á þeim eina fundi, sem haldinn var um þetta mál eða þessar till., virtist mér það koma helzt fram í ræðu formanns n., að Framsfl. væri sérstaklega mótfallinn öllum breytingum á þessu, vegna þess að fyrir lægi svokallaður stjórnarsamningur um að koma lögunum fram, og ég skildi hann þannig, að hv. samflokksmönnum hans og þá kannske líka fleirum fyndist það brjóta í bága við stjórnarsamkomulagið, ef nokkur breyting væri gerð á stóreignaskattslögunum. Ef ég fer rangt með það mál, þá veit ég, að hv. form. fjhn. mundi gera við það aths., en ég tel mig ekki muna það skakkt. Önnur ástæða var ekki tilgreind.

Á þessum sama fundi var samþ. að spyrja skattstjórann spurninga, sem við höfum nú fengið svar upp á, sem er ekkert svar.

Stjórnarsamningar geta verið og eru sjálfsagt mjög mikils virði fyrir þá, sem að þeim standa, en stjórnarsamningar geta ekki verið neinn grundvöllur undir því, að rofin séu lög á landsins þegnum, að brotin sé stjórnarskrá ríkisins og farið ránshendi um eignir þegnanna þvert á móti öllum venjum áður og lögum.

Hæstv. fjmrh. vitnaði hér á dögunum í löggjöf, sem hann taldi Sjálfstfl. og Framsfl. hafa staðið að 1950 um stóreignaskatt. Það er satt, að hann var þá lagður á, að vísu í miklu minna mæli, heldur en nú og í sambandi við það stórfellda fall á peningunum, sem fór fram við gengisbreytinguna, þar sem krónan var skorin niður um 74%. Það þótti sýnt, að ýmsir mundu við þann niðurskurð fá eiginlega afslátt á sínum eignum og skuldum, og þá þótti réttlætanlegt að ná inn einhverju af þessum mismun með stóreignaskattinum, sem þá var samþykktur.

Það nær engri átt að bera þann verknað, sem ég vil hvorki lofa né lasta, a.m.k. ekki lofa, saman við það rán, sem hér er verið að ræða um. Þetta var þá gert til þess að mæta þeim gengisgróða, sem sýnilegt var að margir mundu fá, þegar krónan var skorin niður um 74%, en stóreignaskatturinn, sem samþ. var á þinginu 1956, styðst ekki við neitt annað en það, sem hv. form. fjhn. nefndi á fundinum stjórnarsamkomulag eða stjórnarsamning. Hann styðst ekki við neitt annað en það, að þeir aðilar, sem að stjórninni standa, hafa pínt það fram, sem skilyrði sjálfsagt fyrir sinni þátttöku, og þá helzt kommúnistarnir, að farið væri þannig þessari ránshendi um eignir þegnanna og þannig stýrt að því að gera sem flesta atvinnurekendur ósjálfbjarga og að vinna að atvinnuleysi í landinu, sem vitaskuld kemur fram við það, þegar þessir menn eru lagðir í hlekki óréttmætrar fjárheimtu af hálfu þess opinbera, að þeir verða ekki eins burðugir til að halda uppi áhættusömum atvinnuvegi eftir á og áður var.

Við höfum hér, flm. þessarar brtt., flutt þær í því skyni að milda að nokkru leyti áhrif þessarar óréttmætu löggjafar. Við höfum samt sem áður verið mjög hógværir í okkar till. og höfum sumir hverjir sætt aðfinnslum utan þessara veggja fyrir það, að við værum of hógværir. En það gerðum við með það fyrir augum, að þá ættu hv. alþm. hægra með að sinna þessum breytingum, sem horfa til bóta fyrir þegnana, ef þær væru ekki gerðar of stórtækar eða látnar gripa yfir of mikið eða margt eða of langt inn í málið.

Ég sé ekki ástæðu til að tilefnislausu að ræða öllu meira um brtt. sjálfar, en ég hef gert. Þær voru fram fluttar, eins og ég hef þegar lýst, til þess að milda nokkuð það högg, sem vissir atvinnurekendur sérstaklega verða fyrir og vissir borgarar þjóðfélagsins. Sé það ráðið af hv. stjórnarflokkum að fella þessar brtt., þá er ekkert við því að segja af okkar hendi, þeir verða að bera þá ábyrgð, sem af því leiðir að hafa komið þessari löggjöf á og vilja á engan hátt milda hana, þótt fram á sé farið, jafnvel ekki verið léð máls á lengri gjaldfresti, en er í lögunum, sem er vitaskuld allt of stuttur fyrir stórar fjárhæðir, og vaxtakrafan af hálfu ríkisins þar sýnir ekkert annað en það, hvaða ránshugur hefur verið í þeim mönnum, sem áttu frumkvæðið að þessari löggjöf og stóðu að því, að hún var samþykkt. Þar er sagt, að ef menn fái 10 ára gjaldfrest, þá skuli þeir borga 6% vexti. Þess eru þó dæmi í mörgum greinum atvinnulífsins, ekki hvað sízt hvað snertir sjávarútveg, að um venjulega bankavexti er að ræða, þar sem undanþágur eru gerðar til að létta undir með mönnum. En hér gengur ríkisvaldið svo langt, að það fer eins freklega í vaxtakröfum og ef um væri að ræða réttmæta skuld, sem sá, er af hendi greiddi, hefði fengið eitthvað í aðra hönd fyrir að stofna til, en það er ekki hér. Hér er um einfalt ofbeldi og eignarán að ræða, sem þessir hv. stjórnarflokkar standa allir að og bera ábyrgð á fyrir guði og mönnum og hafa sér ekkert annað til afsökunar, en að stjórnarherrarnir hafi komið sér saman um, að þetta væri svona. En ég vil minna þá á, þessa hv. þm., að jafnvel þótt stjórnarherrarnir séu voldugir, þá eru þeir ekki þjóðin öll.