21.03.1958
Efri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

100. mál, skattur á stóreignir

Forseti (BSt):

Út af ummælum hv. þm. Vestm. um, að þau lög, sem hér er verið að ræða um breytingu á, væru stjórnarskrárbrot, er það að segja í fyrsta lagi, að ég man ekki eftir, að það kæmi fram nein krafa í hvorugri deildinni í fyrra um, að forseti úrskurðaði það, hvort frv. kæmi í bága við stjórnarskrána.

Í öðru lagi er það, að hvort sem lögin eru stjórnarskrárbrot eða ekki, sem ég legg engan dóm á, fyrr en um það kynni að koma krafa, sem ekki getur eiginlega komið fram í þessu sambandi, þá vil ég benda á, að það frv., sem hér er til umr., getur ekki undir neinum kringumstæðum verið stjórnarskrárbrot, þar sem frv., eins og það liggur fyrir, er eingöngu um að lengja frest um einn mánuð til skattálagningarinnar.