21.03.1958
Efri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

100. mál, skattur á stóreignir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál í heild sinni, heldur gefa aðeins örstutta skýringu á mínum gerðum viðvíkjandi meðferð málsins í fjhn. deildarinnar.

Hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ) hefur nú að mestu leiðrétt misminni hv. þm. Vestm. (JJós) um það, hvað ég hafi sagt, eftir að n. tók sér frest til að athuga brtt. hans og hv. 6. þm. Reykv. (GTh). Það, sem ég sagði, var það, að þegar lögin voru sett, hefði það verið samkvæmt samningi, sem gerður var milli stjórnarflokkanna um það mál, alveg á sama hátt og stóreignaskatturinn frá 1950 var settur eða lögin um hann voru sett samkvæmt samningi milli þáverandi stjórnarflokka. Ég sagði aldrei, að það mætti ekki róta við þessu, vegna þess að það hvíldi einhver helgi yfir þessum samningi, heldur hitt, að það væri ekki hægt, vegna þess að þetta var samningur, fyrir einn flokk að fallast á breytingar, nema með því móti að ræða það við hina flokkana og að það yrði samkomulag um það, og það er töluverður munur á því.

Hv. þm. Vestm. var óánægður með svar, sem hefur borizt frá skattstjóranum, og þá var hv. þm. V-Sk. (JK) enn meira óánægður, og hann skoraði á fjhn. að láta ekki við svo búið sitja, heldur heimta skýr svör við þeim spurningum, sem fjhn. eða ég í hennar nafni bar upp við skattstjórann bréflega.

Við þessu er það að segja, að fjhn. eða aðrar n. þingsins hafa ekki beinlínis vald til þess að krefja menn sagna, ef þeir vilja ekki gefa svör. Til þess að þingnefnd geti krafið menn sagna, þarf að skipa sérstaka nefnd samkvæmt ákveðinni grein stjórnarskrárinnar. Nefnd þannig kosin hefur ein vald til þess að krefja um skýrslur frá opinberum starfsmönnum eða öðrum. Náttúrlega gæti komið til mála, að fjhn. tilkynnti skattstjóranum, að hún teldi ekki svör hans fullnægjandi, og óskaði, að hann svaraði þeirri spurningu, sem borin var upp við hann, en hún hefur ekkert vald til að krefja hann sagna eins og dómari gerir. Það má kannske láta skattstjórann vita það, að n. telji þetta ekki fullnægjandi svör. En ég verð nú að segja, að mér finnst hans svör ekki eins fráleit og hv. þm. Vestm. og hv. þm. V-Sk., m.a. það atriði, að það er alls ekki endanlega gengið frá skattinum, meðan kærufrestur er ekki útrunninn, eins og skattstjórinn segir. Hv. þm. Vestm. sagði að vísu, að það væri frumskatturinn eða frumálagningin, sem n. hefði spurt um, en vitanlega kemur það mest málinu við, hver skatturinn verður, ekki hvernig hann hefur verið hugsaður í fyrstunni, heldur hver hann verður úrskurðaður endanlega.

Eins og ég sagði, ætla ég ekki að fara út í málið. En ég verð þó að geta þess, að mér finnst hv. þm. Vestm. hafa verið nokkuð stórorður um stóreignaskattinn, sem lagður var á í fyrra, miðað við það, að hann sjálfur stóð að því að leggja á stóreignaskatt árið 1950 og hans flokkur. Mér er ómögulegt að skilja, ef skatturinn nú er stjórnarskrárbrot og rán, eins og hann orðaði það, að þá hafi ekki svo verið einnig um stóreignaskattinn 1950, og mér finnst töluvert vafasöm hans kenning um, að gengisfallið sérstaklega réttlæti stóreignaskattinn 1950 fram yfir það, sem atburðir síðustu ára gera nú. Ég held, að gengisfallið hafi ekki beinlínis skapað neinn gróða t.d. þeirra manna, sem áttu verðmæti önnur en peninga, — ekki beinlínis skapað gróða. Vitanlega hafa kannske fasteignir hækkað í verði að krónutali, en notagildi þeirra hefur ekki hækkað, þó að gengið væri lækkað. Mér finnst þessi kenning töluvert vafasöm.

Samkvæmt þessum kenningum, að það komi í bága við stjórnarskrána að leggja á stóreignaskatt, er ákaflega vafasamt, að það sé þá frekar leyfilegt að leggja á eignarskatt. Mér finnst, að það geti ekki verið um það að ræða, hvað þetta snertir, hvort skatturinn er lágur eða hár. Annaðhvort er leyfilegt að leggja skatt á eignir ellegar það er ekki leyfilegt. (Gripið fram í: Hvað segir stjórnarskráin?) Stjórnarskráin segir, að eignarrétturinn sé friðhelgur og ekki megi taka eignir einstakra manna, nema almenningsþörf krefji og komi fullt gjald fyrir. Ég þykist muna það alveg rétt, þó að ég hafi hana nú ekki fyrir framan mig. En aftur segir stjórnarskráin á öðrum stað, að skattar og gjöld skuli á lögð samkvæmt lögum, og það hefur alltaf verið skilið svo, að hvers konar skattar væru leyfilegir samkvæmt stjórnarskránni. Það er tvímælalaust, að það má ekki setja lög um það, að hv. þm. Vestm. skuli láta eignir sínar af hendi, ef þau lög ganga ekki jafnt yfir þá, sem svipaðar eignir eiga. En það hefur alltaf verið talið leyfilegt að leggja skatt á eignir. Meira að segja sá fyrsti skattur, sem lögleiddur er á Íslandi, fyrir utan kannske þingfararkaupsgjaldið í fornöld, sem var nefskattur, en að öðru leyti elzti skattur, sem lögleiddur var á Íslandi fyrir nærri 900 árum, sem sé tíundargjaldið, var eignarskattur; það hefur alltaf verið eignarskattur, en það hefur ekki verið sérstaklega stóreignaskattur.

Mér finnst það liggja alveg eins nærri samkvæmt þessari kenningu að halda því fram, að stighækkandi skattar séu ekki leyfilegir, t.d. stighækkandi tekjuskattur.

Ég ætla ekki að fara frekar út í málið. Þetta er nánast að gera grein fyrir mínum gerðum sem formanns fjhn., og að nokkru leyti fannst mér rétt af mér sem forseta að víkja að þessu, en þó ekki frá forsetastóli, þar sem það liggur engin krafa fyrir til mín um að úrskurða um þetta, enda ekki hægt að bera þá kröfu fram viðvíkjandi því frv., sem fyrir liggur. Það væri frekar hægt að bera þá kröfu fram viðvíkjandi þeim brtt., sem fyrir liggja, því að það er ekki hægt að skilja þær öðruvísi en svo, að í þeim felist viðurkenning þó á því, að einhver stóreignaskattur sé leyfilegur, því að annars hefðu hv. flm. tillagnanna borið fram þá einföldu brtt. að nema lögin um stóreignaskatt úr gildi.