21.03.1958
Efri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

100. mál, skattur á stóreignir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef nú heyrt bæði hv. frsm. n., hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ), og hv. formann n., sem er hæstv. forseti sjálfur, tala um minnisleysi mitt frá fjhn.-fundi. (Gripið fram í: Rangminni.) Rangminni, jæja, en ég skal nú ekki pexa við þessa hv. þm. um það, en ég hafði ekki eftir annað af fundinum en það, sem ég sjálfur heyrði, að það kom ekki fram nein rökstudd mótbára á móti neinni af okkar brtt., annað en það, sem formaður sagði, að þetta væri stjórnarsamningur, og hann minntist á, að það hefði verið talað um þetta í Framsfl. Á hinn bóginn hefur hv. frsm., 4. þm. Reykv., bætt því við, að þetta mál hafi verið rætt í ríkisstj. Það sagði nú formaður fjhn. aldrei, en hv. frsm. upplýsti það núna, að það hefði verið, og ég held, að hann hafi bætt því við, að ríkisstj. í heild sinni hafi ekki viljað fallast á neinar brtt. (Forseti: Um þetta veit ég ekkert.) Nei, það var ekki frá hv. form. fjhn., það var í ræðu hv. 4. þm. Reykv., svo að það er líklegt, að þessir báðir hv. þm. hafi fengið sitt „stikkorð“ og leiki sína „rullu“ eftir því.

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) var hér að ræða um stjórnarskrána að vissu leyti, og m.a. gat hann þess, að það hafi aldrei verið krafizt forsetaúrskurðar, þegar þessi löggjöf, sem ég vil gera breytingar á, var hér á ferðinni. Ég held, að ég hafi verið utanlands, þegar það frv. fór í gegnum þessa hv. d., svo að ég vissi ekki vel, hvað gerðist hér. En að því er snertir lagaskýringar á sjálfri stjórnarskránni, þá býst ég við, að við séum svipað staddir, hv. 1. þm. Eyf. og ég, með það, að við skiljum það eins og leikmaður skilur mælt mál, og maður veit, að jafnvel þótt skýrar greinar séu í lögum, þá geta lögfræðingar gert sér það að deiluefni. Eftir mínu viti og viti margra mér miklu skynsamari og fjöllesnari og lögfróðari manna hef ég sagt það og fullyrt, að lögin frá 1956, — ég á ekki við frv. það, sem hér liggur fyrir, — lögin um stóreignaskattinn hafi verið stjórnarskrárbrot og séu það; hvort nokkur hefur mótmælt því í þinginu á þeim grundvelli eða krafizt úrskurðar forseta, það breytir ekki stjórnarskránni, og það breytir ekki heldur lögunum, eins og þau standa skrifuð í dag.

Hv. þm. taldi mig hafa verið stórorðan. Það er nú erfitt að tala hér um mál án þess að fá þá aths. frá hans flokki. Ég held, að ég geti ekki undirgengizt neinar kárínur frá hv. þm. í því efni, því þó að ég hafi sagt hér sitthvað um lögin og brtt., þá hef ég ekki gert annað, en reyna að undirbyggja það, að þær ættu að milda slæm áhrif laganna á atvinnuvegina, en um lögin sjálf er ekki hægt að segja, ef maður vill segja eitthvað, annað en að þau eru eignarnám og ólík öðrum skattalögum. Þó að hv. þm. væri að reyna að færa þau í flokk við önnur skattalög, sem frá öndverðu hafa verið í gildi og verið sett á smátt og smátt, þá eru þessi stóreignaskattslög með sérstökum hætti, og samanburður á þeim og lögunum frá 1950 verður alltaf til óhagræðis fyrir þessa síðari löggjöf, því að lagaákvæðin um stóreignaskattinn frá 1950 voru í beinu framhaldi af skerðingu gengisins og sett í gengisbreytingarlögunum sjálfum meira að segja.

Þá vék hæstv. forseti að því, að í brtt. mínum og hv. 6. þm. Reykv. fælist viðurkenning á því, að stóreignaskattslögin væru réttmæt. Ég mótmæli því, að í þeim felist nokkur viðurkenning. Það er ekkert verið að fara fram á annað, en milda ákvæði, sem sett eru með ofbeldi á Alþingi af ríkisstj., sem ekki hefur hingað til ráðið við neitt annað, en að ráðast á skattborgarana á þennan hátt, og það er verið að mælast til þess, að þetta ofbeldi sé gert vægara, en ekki annað.

Hins vegar getur það vel komið til álita, að út af þessum ummælum hæstv. forseta, hv. 1. þm. Eyf., spinnist umr. aftur á móti við 3. umr. þessa máls, en ég mótmæli því, að flutningur brtt. feli í sér nokkra viðurkenningu á réttmæti stóreignaskattslaganna. Það skeður á öllum stundum um allan heim, þar sem beitt er ofbeldi, að þá rísa borgararnir upp með ýmiss konar móti og reyna að afnema það eða draga úr því, og þessar brtt. eru ekkert annað, en tilraun til að draga úr áhrifum þeirra ofbeldiskenndu skattaálagna, sem þingið síðasta samþykkti og voru kallaðar stóreignaskattslög.

Annars hafði ég lofað að tala ekki meira eða tala ekki lengi og fara ekki út fyrir það, sem hæstv. forseti minntist á, með því að það er enn eftir 3. umr. af þessu máli. En ég vil taka undir það, sem hv. þm. V-Sk. skoraði á hæstv. forseta gagnvart þessu svokallaða svari frá skattstofunni. Hann minntist á það, hæstv. forseti, þegar hann var í ræðustól sem hv. 1. þm. Eyf., að það væri ekki hægt að skylda skattstjórann til þess að gefa okkur upplýsingar, ef hann ekki vildi. Hann segir nú hvergi í þessu skjali sínu, skattstjórinn, að hann vilji ekki gefa það upp, en hann er með ýmiss konar vífilengjur og vafninga og fer fram á það að síðustu, að við föllum frá að vera að spyrja sig um þetta. Það er allt annað mál. Hann hefur ekki neitað því. Og ég vil styðja tilmæli hv. þm. V-Sk. og skora á hæstv. forseta, að hann ekki okkar vegna, heldur vegna sóma sinnar deildar fari fram á það enn við skattstjórann, að hann svari okkur við þeim spurningum, sem fyrir hann voru lagðar, gefi svör við því skýrt og greinilega fyrir 3. umr., ef hæstv. forseti álitur ekki réttara að fara þá leið, sem hv. þm. V-Sk. lagði til, að fresta þessari umr., þangað til skýr svör lægju fyrir frá skattstjóra.