24.03.1958
Efri deild: 72. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

100. mál, skattur á stóreignir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þessar umræður, enda hef ég ekki ástæðu til þess, því að ég hef aldrei verið með þessum lögum, sem um er að ræða og hér á að breyta. En það voru ummæli, sem féllu hér síðast, bæði frá þm. Vestm. og þm. V-Sk., sem ég ekki skildi, bókstaflega ekki skildi, og langar til að fá frekari útskýringu á.

Ég veit ekki annað og skil ekki annað, en allir skattar, sem á öllum landsmönnum hvíla, að undanteknum nokkrum fáum mönnum, líklega 2.1% eða eitthvað svoleiðis, sem lifa á eignum sínum í landinu, allir aðrir skattar hvíla á atvinnunni. Ég veit ekki annað. Ég er t.d. fastlaunamaður og hef laun frá ríkissjóði. Hvaðan hefur ríkissjóður sína peninga, sem ég þarf svo að borga skatt af sem útborguðum launum? Auðvitað er það frá atvinnulífinu. Það er ekkert annað, sem tekjur gefur, sem ríkissjóður fær, heldur en atvinnulífið. Þm. V-Sk. er sýslumaður og hefur sín laun frá ríkissjóði líka. Hvernig á að líða það í sundur, á hvaða atvinnugreinum þeir skattar hvíli, sem hann þarf að borga? Ég skil það ekki. Mér er það gersamlega óskiljanlegt. Stóreignamaður hér í Reykjavík kemst í skatt t.d. Hann rekur búskap, hann rekur verzlun, og hann rekur iðnað, og hvernig á að liða það í sundur, á hvaða atvinnugreinum skatturinn hvílir? Ég skil þetta ekki. Og mig langar til að fá annan hvorn þessara hv. þm. — það er nú ekki nema annar hér í d. — til að nefna mér einhverja skatta, sem ég eða einhver annar greiðir, sem hvíli ekki raunverulega á atvinnulífinu. Það eru til í landinu nokkrir menn, sem lifa bara á eignum sínum, hafa engar tekjur nema þær, sem eignir, sem þeir hafa safnað á liðnum árum og áratugum af ágóða, sem þeir hafa haft af atvinnulífinu, gefa af sér. Það má segja, að þeir skattar hvíli ekki á atvinnulífinu í dag. En allir aðrir skattar undantekningarlaust hvíla á atvinnulífinu. Hvort sem maðurinn hefur sínar tekjur af landbúnaði, sjávarútvegi, verzlun, af launum frá því opinbera eða launum frá einhverjum öðrum mönnum, þá hvíla þeir allir saman á atvinnulífinu, og það koma engir peningar til að borga þá með nema frá framleiðslunni sjálfri, atvinnulífinu. Og hvernig er t.d. skatturinn minn, sem með útsvarinu er um 60 þús. kr.? Ég hefði gaman af að heyra þá liða í sundur, hvernig það hvíldi á atvinnulífinu, hvað af því kæmi á hverja grein atvinnulífsins.

Ég veit ekki, hvernig þetta er hugsað, þegar verið er að heimta af einstökum mönnum, eiðsvörnum mönnum, sem ekki mega segja frá neinu, sem við kemur sköttum einstakra manna, svo að það skiljist, við hverja er átt, — þegar er verið að heimta af þeim að líða í sundur, hvernig stóreignaskatturinn hvíli á atvinnulífinu, þá skil ég það ekki, því að ég held það sé alveg ómögulegt að gera það.