25.03.1958
Efri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

100. mál, skattur á stóreignir

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Þess hefur æði oft í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál, verið óskað, að fyllri upplýsingar lægju fyrir um það, hvernig skatturinn kæmi niður á einstaka atvinnuvegi, og hefur form. n., hv. þm. Eyf., gert tilraun til þess að fá fyllri svör, en þegar hafa borizt um þetta efni, og vil ég nota þetta tækifæri til þess, sem mun vera síðasta tækifæri mitt í þessum umr., að lesa hér nýkomið bréf frá skattstjóranum um þetta efni, ef það gæti á einhvern hátt uppfyllt þær óskir, sem hv. flm. brtt. hafa viljað ná hér fram ásamt þm. V-Sk.

Með leyfi forseta, vildi ég þá lesa þetta bréf skattstjórans, sem er dags. 24/3 1958 og er á þessa leið:

„Með tilvísun til símtals við yður í dag, þar sem þér óskuðuð eftir, að skattstofan í Reykjavík reyndi að áætla um, hvernig skattur á stóreignir samkvæmt lögum nr. 44 1957 muni skiptast til greiðslu milli tiltekinna atvinnugreina, vil ég taka fram eftirfarandi til viðbótar því, sem segir í bréfi skattstofunnar, dags. 19. þ. m.:

Yfirgnæfandi meiri hluti einstakra gjaldenda skattsins á eignir, sem flokka verður undir fleiri, en eina atvinnugrein. Sem dæmi má nefna, að ákveðinn gjaldandi í Reykjavík á þessar eignir:

1) Fasteignir, en þær mundu aftur skiptast eftir notkun í fasteignir tilheyrandi verzlun, veitingasölu, leigustarfsemi og eigin persónulegum afnotum.

2) Vélar og áhöld tilheyrandi verzlun og veitingasölu, svo og vörubirgðir.

3) Hlutabréf í verzlunar- og útgerðarfélögum.

4) Ýmsar eignir vegna persónulegra þarfa, svo sem innbú og einkabifreið.

Þannig yrði að sundurliða eignir hvers eins gjaldanda, og getur hver maður séð, hversu erfitt verk það væri, jafnvel þótt skattstofan hefði á að skipa mönnum með staðarþekkingu á öllu landinu. Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Svo að tekið sé aftur dæmið af sama gjaldandanum í Reykjavík, þá skuldar hann nokkrar milljónir, og hvernig eigi að skipta þeim skuldum á hina einstöku eignarliði skv. áður sögðu, veit enginn, nema e.t.v. gjaldandinn sjálfur, ef hann þá veit það. Af þessu leiðir, að það er algerlega útilokað að skipta eignarskatti eftir atvinnugreinum, svo að nokkurt vit sé í, jafnvel þótt vitað væri, hverjir yrðu hinir endanlegu gjaldendur skattsins, en það er ekki vitað í þessu tilfelli, þar sem allt er á huldu með, hvaða félög muni notfæra sér endurkröfurétt, skv. 7. gr. laganna.

Virðingarfyllst,

Halldór Sigfússon.

Til formanns fjárhagsnefndar efri deildar Alþingis.“

Ég taldi rétt að lesa þetta nýkomna bréf, ef það mætti verða eitthvert innlegg í frekari umræður um málið.