25.03.1958
Efri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

100. mál, skattur á stóreignir

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Lögin um svokallaðan skatt á stóreignir voru samþykkt á Alþingi 24. maí 1957, og samkvæmt þeim hefur nú skattálagning eða útreikningur verið framkvæmdur. Hins vegar er eftir að úrskurða þær kærur, sem kunna að berast, og því hugsanlegt, að einhverjar breytingar verði á upphæð skatts hjá einstökum skattgreiðendum, áður en lýkur.

Þó er þegar komið í ljós við álagningu þessa skatts, að áætlanir og spár hæstv. ríkisstj. um heildarupphæð hans hafa ekki staðizt og eru í rauninni fjarri öllu lagi.

Hæstv. ríkisstj. gaf þær upplýsingar hér á síðasta þingi, og því var óspart á lofti haldið, að líkur væru til, að þessi skattur mundi nema nærri 80 millj. kr. í heild. Reynslan hefur orðið sú, að það nálgast, að hann verði tvöfalt hærri. Þetta sýnir m.a., hvernig háttað hefur verið undirbúningi þessa máls. En þó eiga fleiri kurl eftir að koma til grafar, sem sýna, hversu þessi löggjöf hefur verið undirbúin og sett af handahófi, án þess að menn virðist hafa haft raunverulega nokkra hugmynd um, hver heildarupphæð mundi verða eða hver áhrif þessarar skattlagningar yrðu. En þó að þetta sé kallaður skattur á stóreignir, þá eru margir þeirrar skoðunar, að í rauninni sé hér ekki um skattlagningu að ræða, heldur eignarnám án bóta, og þeir, sem eru þeirrar skoðunar, telja, að þessi löggjöf höggvi mjög nærri stjórnarskránni, þannig að eigi hafi verið fyrr sett á Íslandi skattalöggjöf, sem stappi jafnnærri stjórnarskrárbroti sem þessi lög.

Nú er það svo, að það, hvort skattalög teljast heimil samkvæmt stjórnarskránni eða hvort þau fela í sér hreint eignarnám, sem er stjórnarskrárbrot, er matsatriði og vitanlega ógerningur fyrir nokkurn mann að fullyrða fyrir fram, hvernig dómstólar landsins, m.a. hæstiréttur, líti á það mál. Það er því furðuleg röksemd, þegar hv. 1. þm. Eyf. heldur því fram, að vegna þess að hv. þm. Vestm. telji, að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða, þá eigi hann ekki að vera að bera fram brtt., því að þá hljóti lögin að verða felld úr gildi og brtt. séu tilgangslausar. Þó að þessi sé skoðun hv. þm. Vestm. og skoðun margra ágætra lögfræðinga í þessu landi, að þessi lög séu stjórnarskrárbrot, er vitanlega á þessu stigi ógerningur að fullyrða um, hvernig hæstiréttur landsins lítur á það mál. Ef svo færi, að hæstiréttur teldi hér ekki höggvið svo nærri stjórnarskránni, að hægt væri að ógilda þessa skattálagningu, þá er vitanlega eðlilegt, að hv. þm. og við fleiri gerum tilraun til að ráða einhverja bót á verstu agnúum þessara laga. Og ég vil taka undir það með hv. þm. Vestm., að því fer fjarri, að í flutningi slíkra brtt. felist nokkur minnsta viðurkenning á gildi laganna.

En það er fleira, en þessar röngu áætlanir um heildarupphæð skattsins, sem í rauninni vekur athygli í sambandi við þessi lög.

Það er talað um, að ef skatturinn leggist þungt á útgerðina, t.d. þannig, að það sé raunverulega um 30 millj. kr., sem sjávarútvegurinn þurfi að greiða, þá sýni það aðeins, hvað útvegurinn eða einstök útgerðarfyrirtæki séu vel stæð.

Þó að sum útgerðarfyrirtæki hér á landi kynnu að eiga miklar eignir, þá er vitanlegt, að togaraútgerðin hefur á undanförnum árum og nú upp á siðkastið alveg sérstaklega barizt í bökkum, verið rekin með verulegum halla, þannig að sérstakan styrk hefur þurft úr ríkissjóði til að jafna hallann, og hefur þó hvergi nærri hrokkið til. Þess vegna má vel vera, að þó að útgerðarfyrirtæki sé a.m.k. á pappírnum vel stætt efnahagslega, skorti það algerlega fé til að standa undir rekstrinum og berjist þannig í bökkum, að jafnvel séu miklir erfiðleikar á að halda skipunum úti. Hitt er svo annað mál í þessu sambandi, að stóreignaskattslögin hafa að geyma ákvæði, sem ég vil segja að eru alger einsdæmi í löggjöf hér á landi í sambandi við skattálagningu.

Vitanlega væri æskilegast, að svo væri yfirleitt, að skattálagning væri miðuð við raunveruleg verðmæti. En í lögunum um skatt á stóreignir er viða beinlínis bannað að miða skattálagninguna við raunveruleg verðmæti, heldur ákveða lögin að búa til einhverjar tölur, sem enga stoð hafa í veruleikanum.

Sem dæmi má nefna 2. gr. laganna, 1. tölulið. Þar er talað um, með hvaða verði fasteignir skuli metnar, og það er ekki svo ákveðið, að þær skuli metnar eftir því, sem þær ganga kaupum og sölum. Það hefur verið meginregla, sem gildir t.d. í sambandi við eignarnám, að matsmenn eiga að meta eignir eftir því, sem þær ganga kaupum og sölum. En í þessum 1. tölulið 2. gr. segir m.a. svo, að ef landsnefndinni svokölluðu finnist gildandi fasteignamat á einstökum lóðum ekki nógu hátt, þá eigi að meta það að nýju, miðað við áætlað söluverð, en það er ekki nóg, heldur segir í sömu grein, að við matsverð fasteignanna, eins og það er ákveðið samkvæmt framansögðu, skuli bæta 200% álagi. Það er ekki verið að finna út raunverulegt verðmæti eignanna eða hversu mikið eitt fyrirtæki eða einstaklingar eiga að raunverulegum verðmætum. Nei, lögin ákveða, að það eigi að búa til vissar tölur, sem eiga að vera grundvöllur skattálagningarinnar.

Alveg sama kemur t.d. fram í sambandi við mat á hlutabréfum, sem mér er kunnugt um að í sumum tilfellum er svo fjarri öllu lagi, að hlutabréf, sem ekki er einu sinni hægt að selja á nafnverði, eru metin með mörg hundruð prósent álagi. Þannig er grundvöllur stóreignaskattslaganna í mörgum tilfellum svo fráleitur, að það er verið að búa til einhverjar eignatölur og skatturinn svo lagður á þær.

Ekki er þó öll sagan sögð með þessu, því að þegar stóreignaskattslögin voru hér til meðferðar á síðasta þingi, bar það m.a. á góma, hvort þessi lög mundu verða til þess að íþyngja atvinnuvegum landsmanna, og var þá sérstaklega rætt um sjávarútveginn í því sambandi. Þá var það fullyrt af aðstandendum þessa frv. og fyrst og fremst af hæstv. ríkisstj, og fjmrh., að lögin mundu ekki bitna á sjávarútveginum.

Við 1. og 2. umr. þessa máls hér voru svo gerðar fyrirspurnir um það, hvernig skatturinn skiptist á atvinnuvegina, og alveg sérstaklega óskað upplýsinga um, hversu mikið sjávarútvegurinn þyrfti að greiða.

Nú er það svo, að hæstv. fjmrh., sem var hér viðstaddur á fyrra stigi þessa máls, þegar slík fyrirspurn var gerð, lýsti því yfir, að hann hefði ekki gögn við höndina. En þrátt fyrir þessar fsp. virðist hann ekki hafa gert neina gangskör að því að útvega þær upplýsingar og sýnir ekki einu sinni hv. Ed. þá virðingu eða tillit að mæta hér á fundum, þegar málið er á síðari stigum, til þess að svara fyrirspurnum eða gefa upplýsingar. Ég vil taka það fram, að mér virðist hæstv. ráðh. sýna d. algert virðingarleysi með þessu framferði. Ef til vill skýrist þessi fjarvera hæstv. ráðh. af því, að hann annaðhvort treysti sér ekki til að gefa þessar upplýsingar eða vill ekki gefa þær.

Þegar svo fjhn. þessarar deildar fer fram á, að skattstofan í Reykjavík gefi þessar upplýsingar, þá biðst skattstjórinn fyrst undan því að gefa þær. Þegar það er ítrekað, að nefndin óski eftir að fá þær, þá kemur þetta plagg, sem hér var lesið af hv. frsm. og náttúrlega er hvorki fugl né fiskur og segir ekki nokkurn skapaðan hlut annan, en að staðfesta það, sem haldið hefur verið fram, að semjendur og flutningsmenn þessara laga höfðu sjálfir ekki hugmynd um, hvað þeir voru að gera. Þeir höfðu ekki hugmynd um, hvernig þessi skattur mundi lenda á atvinnuvegum þjóðarinnar.

Ég benti á það áðan, hversu þeir hafa gefið upp algerlega rangar áætlunartölur um heildarupphæð skattsins, að það yrði um 30 millj., þegar hann verður líklega 130–140 millj. kr. Í öðru lagi var því lýst yfir af ríkisstj. við setningu laganna, að þessi skattur lenti ekki á atvinnuvegunum og fyrst og fremst ekki á sjávarútveginum.

Nú segir skattstjórinn í Reykjavík: „Af þessu leiðir, að það er algerlega útilokað að skipta eignarskatti eftir atvinnugreinum, svo að nokkurt vit sé í.“

Skattstjórinn segir: Það er ekki hægt að skipta þessu milli atvinnugreina þannig, að nokkurt vit sé í. — M.ö.o.: þeir, sem stóðu að þessu frv., hæstv. ríkisstj. og semjendur þessa frv., hafa þá ekki haft hugmynd um, hvað er búið að gera og hvað er búið að segja, því að ég vil ekki ætla þeim, að þeir hafi gefið hér vísvitandi rangar upplýsingar. M.ö.o.: það er ekki hægt að fá upplýsingar um það, svo að nokkurt vit sé í, segir skattstjórinn í Reykjavík, að hve miklu leyti skatturinn lendir á sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum.

Ef svo er, fer það náttúrlega að skýrast betur, hvers vegna hæstv. fjmrh. kemur ekki á fund hér í þessari hv. d., þegar þetta stórmál er til umræðu, og forðast að svara fyrirspurnum, sem til hans hafa verið gerðar.

Nú er það svo, að svar skattstjóra er að sjálfsögðu algerlega út í hött. Hann tekur eitt dæmi um einn gjaldanda, um einn ákveðinn gjaldanda, sem á eignir, sem snerta ýmiss konar starfsemi og atvinnugreinar. Hins vegar er öllum vitanlegt, að um allan þorra af þeim, sem lenda í þessum skatti, gildir það, að þeir stunda mestmegnis eða eingöngu eina atvinnugrein. Þess vegna má segja: Það er útúrsnúningur og út í hött svarað, þegar tekinn er einn gjaldandi, sem hefur svona viðtækan atvinnurekstur eða margvíslegar eignir og erfitt að greina það sundur.

Eins og hv. þm. Vestm. hefur hér skýrt frá, hafa fulltrúar sjávarútvegsins reynt að gera sér nokkra grein fyrir því, hversu mikið af skattinum lendi á útveginum, og eftir þá útreikninga hafa þeir talið, að það muni vera í kringum 30 millj. kr., eins og hv. þm. upplýsti, sem á sjávarútveginum lendi.

Það er svo að skilja á sumum hv. stjórnarliðum, að þetta sé auðvitað allt í lagi; það sýni bara, hvað sjávarútvegurinn og útvegsmenn og útgerðarfélög séu auðug og vel stæð.

Ég svaraði þessu að nokkru leyti áðan, að jafnvel þó að um miklar eignir sé að ræða, getur útvegurinn barizt í bökkum og verið rekinn með tapi. En spurningin er þá: Hver áhrif hefur þessi stóreignaskattur, við skulum segja þessar 30 millj. kr., á útveginn? Ég býst við, að óhjákvæmilega verði það þannig í flestum tilfellum, að þau útgerðarfyrirtæki, sem í skattinum lenda, verði að draga úr rekstri sínum. Þau hafa vafalaust flest eða öll oflítið rekstrarfé fyrir, en fyrst og fremst verður það af handbærum tekjum og rekstri, sem verður að taka fé til að greiða þennan skatt.

Ég held, að fyrsta afleiðing þessa skatts hljóti að verða sú, að útgerðin hjá þeim fyrirtækjum, sem í skattinum lenda, dregst saman. Það er auðvitað áfall fyrir þessi útgerðarfyrirtæki, en það er fyrst og fremst áfall fyrir þá, sem hafa atvinnu við þessi útgerðarfyrirtæki, bæði sjómenn og landmenn, og jafnframt fyrir þjóðfélagið í heild.

Þess vegna er það raunverulega svo, að þó að það liti fallega út á pappírnum og gangi kannske vel í ýmsa landsmenn, að vera að þykjast leggja skatt á stóreignamenn og auðkýfinga, þá lendir þessi skattur í mörgum tilfellum, — ég segi ekki öllum, en í mörgum tilfellum lendir hann beinlínis á atvinnurekstrinum, verður til að draga saman atvinnufyrirtækin og þar með draga úr atvinnunni og skapa hættu á atvinnuleysi.

Því mun niðurstaðan verða sú, eins og margsinnis hefur verið bent á varðandi slíka skattálagningu sem þessa, sem á marga lund er alveg með eindæmum og endemum í þessu þjóðfélagi, að í mörgum tilfellum verður það til þess að draga úr atvinnulífinu og verður þjóðfélaginu í heild til ógagns.

Ég vildi láta þessi orð falla hér til viðbótar þeim ýtarlegu athugasemdum og gagnrýni, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Vestm. En ég vil aðeins benda að lokum á þetta tvennt: annars vegar, hversu hrapallega hafa reynzt rangar upplýsingar og áætlanir hæstv. ríkisstj. um heildarupphæð skattsins, og hins vegar, að allar líkur benda til þess, að þær upplýsingar og spár, sem fram voru bornar hér í fyrra af hæstv. ríkisstj.; að sjávarútvegurinn og iðnaðurinn eða framleiðslugreinarnar slyppu við skattinn, reynast líka algerlega rangar og skatturinn lendi með verulegum þunga á atvinnuvegum þjóðarinnar.