07.02.1958
Efri deild: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

97. mál, réttur verkafólks

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd út af því, sem ég hafði eftir hv. þm. V-Sk., en það tel ég mig hafa haft réttilega eftir, og ég veit, að hann er sá drengskaparmaður að kannast við það, að hann taldi, að með flutningi þessa frv. og annarra slíkra væri gripið inn í samningsrétt atvinnurekenda og verkamanna.

Ég sagði hins vegar, að sum af þeim málum, sem eru togstreituatriði milli verkafólks og atvinnurekenda, séu þannig vaxin, að þau eigi ekki að vera togstreituatriði á milli þessara aðila. Þau eru mannúðar- og mannréttindamál, eins og efni þessa frv. bendir til, og eiga þess vegna heima í sérstakri löggjöf. Hitt er rétt, og ég skal ítreka það aftur, að að sjálfsögðu geta flestir verið sammála um það, að nauðsynlegt sé að endurskoða vinnulöggjöfina, þó að ég geri hins vegar ráð fyrir því, að þar verði menn ekki á eitt sáttir um, hvaða atriði þyrftu endurskoðunar við.