24.02.1958
Efri deild: 55. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

97. mál, réttur verkafólks

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. V-Sk. spyrst fyrir um það, hvað hæft sé í því, ef þetta frv. verði samþykkt, að þá séu brostnar forsendur fyrir gildandi samningum milli atvinnurekenda og launþega.

Þessi skoðun mun koma fram í álitsgerð Vinnuveitendasambandsins, og að sjálfsögðu höfum við í n. veitt henni athygli. Ég get ekki svarað fsp. þessari f.h. nefndarinnar, en ég vil aðeins svara henni fyrir mína hönd persónulega á þann veg, að ég skil ekki almennilega, hvað felst í þessari fullyrðingu, sem fram kemur í álitsgerð þessa aðila. Vitanlega haldast allir samningar á milli verkalýðsfélaga og vinnuveitenda eftir sem áður, þó með þeim breytingum, sem leiðir af samþykkt þessa frv., enda er það tekið fram í frv. Ákvæði samnings milli atvinnurekenda og launþega, sem brjóta í bága við lög þessi, eru ógild, ef þau rýra rétt launþegans. Að öllu öðru leyti haldast gerðir samningar milli atvinnurekenda og launþega, og samningar og samningagerðir milli þessara aðila munu halda áfram hér eftir sem hingað til þrátt fyrir ákvæði þessara laga.

Ég tók fram áðan, að það er ekki neitt nýtt í því, að löggjafinn lögfesti viss atriði, sem varða bæði atvinnurekendur og launþega, og þetta er því ekki neitt nýtt, en auðvitað verða allir samningar, sem í gildi eru og gerðir verða, að vera í samræmi við gildandi lög.