24.02.1958
Efri deild: 55. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

97. mál, réttur verkafólks

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Mér finnst þetta svar hv. frsm. ekki fullnægjandi, því að ef það er tilfellið, sem þessir aðilar segja, bæði Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Vinnuveitendasamband Íslands, að lög um þetta efni mundu raska gildandi samningum milli atvinnurekenda og launþega og að brostnar yrðu forsendur fyrir þeim gildandi kjarasamningum, sem lögunum er ætlað að taka til, þá kynni það að hafa slæmar afleiðingar.

Mig satt að segja furðar á því, að hv. nefnd skyldi ekki hafa kynnt sér þetta. Ætlast hún til, að ef þessir aðilar vilja ekki una þessu, þá fari þeir að leita til dómstólanna, væntanlega félagsdóms? Og þá kemur að því, eins og ég segi, að það getur orðið hlutur verkamannsins, sem bíður halla við þetta í lokin.

Það er ákaflega misráðið að reyna ekki við svona löggjöf að ná fullu samkomulagi milli þeirra aðila, er hér um ræðir. Það er misráðið og getur bitnað illa á þeim aðila, sem löggjafinn er að hugsa sér að vernda.