03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

97. mál, réttur verkafólks

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það kom fram nú, þegar hv. 1. þm. Reykv. (BBen) gerði grein fyrir atkv. sínu, að hann taldi varhugavert að veita afbrigði, ekki sérstaklega vegna þessa máls, heldur almennt. En ég fæ ekki séð, þegar afbrigða er leitað í sambandi við mál, sem er til 1. umr., og er þannig eingöngu um það að koma því til rækilegrar athugunar í þingnefnd, að þá geti það verið athugavert, því að því fyrr sem það kemst til athugunar í nefnd, því betra tóm gefst til þess að athuga það til hlítar. En hér er þar að auki um mál að ræða, sem tekið var fram af hv. 1. þm. Reykv. að hann hefði ekki neitt við að athuga og mundi greiða atkv., þegar þar að kæmi. Ég hygg því, að það sé ekki mjög varhugavert, ekki einu sinni frá hans sjónarmiði, að því er þetta mál snertir að hraða því, að það fari til n. og athugunar.

Þetta mál er komið frá Ed. og var þar afgr. með shlj. atkv., að ég hygg. Í félmn. Ed. voru gerðar nokkrar minni háttar breytingar á frv., og skilaði n. samhljóða áliti um þær breytingar.

Aðalefni frv. er, eins og kunnugt er, það, að tímakaups- og vikukaupsmenn, sem að staðaldri, þ.e.a.s. eitt ár eða lengur, vinna hjá sama atvinnurekanda, skuli eiga rétt til eins mánaðar uppsagnarfrests, enda sé verkamönnum þá aftur skylt að segja upp atvinnu sinni með sama fyrirvara.

Einnig felst það í þessu frv., að tímakaups- og vikukaupsmenn öðlist sama rétt til launagreiðslna í slysa- og veikindaforföllum og fastir starfsmenn hafa að undanförnu notið samkv. lögum um almannatryggingar, en það er alveg orðrétt ákvæði 86. gr. laganna um almannatryggingar, sem er tekið hér upp í 4. gr. að því er snertir tíma- og vikukaupsmenn.

Þetta er meginefni frv. En þar sem málið hefur hingað til verið ágreiningslaust og mikið rætt í blöðum, frá því verið skýrt þar, þá tel ég ástæðulaust að fjölyrða meira um minni háttar efnisatriði þess, en þetta eru aðalefnisatriði málsins.

Ég legg að sjálfsögðu til, að málið fari að lokinni þessari umr. til hv. heilbr.- og félmn.