03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

97. mál, réttur verkafólks

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það var einungis út af aths. hæstv. félmrh. við orð mín áðan, sem ég vildi svara honum, vegna þess að það er ekki alveg einskisvert, að menn rifji upp fyrir sér, hvernig lögformleg meðferð mála á að vera á Alþ.

Það er að vísu svo sem hann segir, að það er síður varhugavert að hraða 1. umr., ef ætlunin er, að síðar gefist nægur tími til þess að athuga málið. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt. En hins vegar er á það að líta, að ætlazt er til, að hvert mál fái þrjár umræður í hvorri deild, og 1. umr. kemur ekki að gagni, nema því aðeins að málinu hafi verið útbýtt hæfilegum tíma áður en 7. umr. verður, til þess að menn hafi átt kost á því að lesa málið, kynna sér það og átta sig á, hvaða nýmæli séu í því fólgin. Þetta er augljóst, og ég hef bent á það áður á þessu þingi, að það er verið með þessum eilífu afbrigðum frá þingsköpum að gera þau ákvæði þeirra að engu, að það eigi að vera þrjár umræður um hvert mál í hvorri deild a.m.k.

Nú játa ég, að um þetta mál stendur sérstaklega á og öðruvísi en flest önnur mál, að það er alveg rétt, sem hæstv. félmrh. sagði, að þetta mál hefur mikið verið rætt í blöðum. Frá því var skýrt löngu fyrir áramót, að löggjöf í stórum dráttum þessa efnis stæði til. Síðan hefur verið rætt um það, erindi hafa verið skrifuð Alþ, og málið sem sagt skýrt meira, en flest önnur mál. Þess vegna hef ég út af fyrir sig ekkert við það að athuga, að þetta mál nái nú fram að ganga. En það var einungis vegna þess, að ég hef hvað eftir annað hreyft því, hvort forseti vildi ekki láta af þessum eilífu tilgangslausu afbrigðum frá þingsköpum, að ég vildi ekki hleypa þessu máli athugasemdalaust fram hjá mér, vegna þess að ég tel, að þetta sé meginregla, sem eigi að fylgja, þó að ég játi, að þannig standi á með þetta mál, að það sé engin ástæða til þess að leggja stein í götu þess, enda hef ég ekki hugsað mér það og lýsi því yfir, að ég mun verða því fylgjandi. Hvort einhverjar breytingar koma fram, er annað mál, eins og við vitum, og er ekki hægt að segja um það, fyrr en það liggur fyrir. En málið í heild er gott mál, sem er stuðnings vert.