10.03.1958
Efri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

148. mál, ríkisreikningar

Jóhann Jósefsson:

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið, en verð því miður að álita, að þær muni ekki vera alveg tæmandi, ef þær fréttir, sem ég hef haft um umframgreiðslur þess árs, sem um er að ræða, eru réttar. Hæstv. ráðh. sagði, að það væru 56 millj., og tengdi það við rekstrarreikninginn og fór ekki frekar út í það mál, en kom svo aftur með upplýsingar um, hvað prósentvís umframgreiðslur hefðu verið á undanförnum árum á ýmsum sviðum.

Þetta skýrist nú allt betur, þegar málið verður athugað í n., og ég þarf ekki að vera að toga neitt meira út úr hæstv. ráðh. um þetta efni endilega núna, vegna þess að í n. mun vera hægt að fá skýringar á því. En mínar upplýsingar, sem ég hef eftir góðum heimildum, eru þær, að það ár, sem um er að ræða, hafi umframgreiðslur, þ.e.a.s. greiðslur, er orðið hafa utan fjárl., numið 146 millj. og nærri því 800 þús., en ekki einungis 56 millj., eins og hæstv. ráðh. vildi vera láta. — Sem sagt, eins og ég tók fram, þá ætlast ég ekki til að fá frá ráðh. við þetta tækifæri nánari skilgreiningu á þessu, af því að ég á sæti í þeirri n., sem málið fær til meðferðar, en það ber nokkuð mikið á milli um fjárupphæðirnar, á milli þeirra upplýsinga, sem ég hef um þetta annars staðar frá, og þeirrar tölu, sem hæstv. ráðh. nefndi.