18.03.1958
Neðri deild: 68. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

125. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð, sem ég vildi segja í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Hv. frsm. sjútvn, hefur nú gert grein fyrir afstöðu n. til málsins, eins og hún liggur fyrir á þskj. 313, og hef ég ekki neinu við það að bæta, sem hann sagði um það efni.

Ég vildi aðeins í sambandi við brtt. meiri hl. n, á þskj. 314 segja það, að mér og hv. þm. Snæf. þótti ekki ástæða til að kveða nánar að um þetta efni, en gert er í 5. gr. frv., þar sem sagt er, að meðan leita þurfi endurtryggingar hjá ríkissjóði, skuli hafa samráð við fjmrn. um ákvörðun iðgjalda. Þar sem þetta frv. er stjórnarfrv., sem flutt er eftir ósk ríkisstj., lítum við svo á, að það mundi vera samkomulag um það innan ríkisstj. að kveða ekki ákveðnar á um þetta efni, heldur en gert er í 5. gr. frv., en ég geri hins vegar alveg ráð fyrir því, að það muni bera að sama brunni um þetta, hvort ákvæði þessi standa óbreytt eða samþykkt verður brtt. á þskj, 314, því að samkomulag verður að sjálfsögðu að fást um þetta milli þeirra ráðuneyta, sem þetta mál tekur til í ríkisstj.

Þá vildi ég aðeins drepa á, að það var nokkuð um það rætt í sjútvn., að nauðsynlegt mundi verða, meðan núverandi ástand helzt að því er snertir efnahagsmálin og í sambandi við útgerðina, að sú iðgjaldagreiðsla, sem allþungbær verður fyrir útgerðina og fellur á hennar herðar í sambandi við þetta frv., mundi verða að sæta sömu meðferð og er um aðrar iðgjaldagreiðslur útvegsins, og ég geri ráð fyrir því, að ef þetta mál hefði legið þannig fyrir, fyrir áramótin, þegar verið var að semja um útgerðina, að þá hefði þannig verið að farið, að um hvort tveggja þetta hefði gilt hið sama.

Ég vildi láta það koma hér fram, sem um þetta var rætt, og ég fyrir mitt leyti verð að telja eðlilegt, að um hvorar tveggja þessar iðgjaldagreiðslur giltu hvað þetta snertir sömu ákvæði.