29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

168. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Eins og um getur í nál. sjútvn. um mál þetta, áliti, sem gefið var út fyrir 2. umr. þess, er málinu þann veg háttað að, að óbreyttu hefur það eingöngu verkanir eða getur haft til aukningar á útgjöldum sjóðsins, en breytir engu um tekjur hans. Þetta var svo látið fara af þeirri ástæðu, að heildarendurskoðun á lögum um hlutatryggingasjóð stendur yfir. En eins og um getur í nál., taldi n. ástæðu til að líta yfir málið aftur fyrir 3. umr. og hefur nú gert það og orðið sammála um að flytja við það þá brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 448. Ég segi: nefndin varð sammála. Það voru að vísu ekki allir nm, mættir á þeim fundi, þar sem málið var afgreitt, en ég hef ekki ástæðu til að ætla, að um það sé ágreiningur í nefndinni, enda sammála allir þeir, sem á fundi voru, um að flytja brtt. við frv. á þá lund, að útflutningsgjald af síldarafurðum verði hækkað úr 1/2% í 3/4% .

Það var frá því greint við 2. umr. málsins, að síldardeild hlutatryggingasjóðs er mjög fjárvana. Hún á minna, en ekki neitt, hún skuldar almennu deildinni nokkuð á þriðju millj. kr., sem hún á ekki eignir fyrir. Það er þess vegna sýnilegt, að síldveiðideild sjóðsins hefur til þessa illa staðizt, og er þess ekki að vænta, að hún standist betur, þótt hún taki á sig meiri ábyrgðir, nema síður sé, og þykir því rétt að flytja hér þá till., sem fyrir liggur. Útflutningur síldarafurða mun hafa verið á síðasta ári eitthvað nálægt 200 millj. kr. að verðmæti. Gjaldið, sem til sjóðsins rennur af því, 1/2 af hundraði, gerir þess vegna 1 millj. kr. og mundi með þessari breytingu hækka um 1/2 millj. kr. En með því að ríkissjóður er samkvæmt lögum skyldur til að leggja sjóðnum til jafnmikið fé og tekjur hans af útflutningsgjaldi nema, mundi þessi breyting, sem hér er gerð till. um, hækka tekjur sjóðsins um 1 millj. kr.

Nú er það hins vegar upplýst, að ef um hlutatryggingu hefði verið að ræða á reknetasíldveiðunum s.l. haust, mundu útgjöld sjóðsins af þeim ástæðum hafa numið því sem næst 3.6 millj. kr. Það er þess vegna sýnilegt, að sjóðnum mundi sízt af þessum tekjum veita, sem honum eru ætlaðar með þessari brtt. En að sjálfsögðu standa vonir manna til, að reknetasíldveiðin verði ekki að jafnaði eins arðlítil og hún varð á s.l. hausti, enda var það óvenju aflatregt haust á reknetaveiðunum.

Það er sem sagt till. sjútvn., að gjaldið af útflutningi síldar verði hækkað úr 1/2% í 3/4%, og mundi það þýða til handa sjóðnum 1/2 millj. kr. tekjur að auki af því gjaldi og aðra 1/2 millj. kr. sem ríkissjóður legði honum til samkv. lögum, þannig að tekjur hans mundu aukast um 1 millj., miðað við álíka síldarmagn og veiðzt hefur á undanförnum árum.