29.04.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

168. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessari tölu, sem hv. þm. A-Húnv. hélt hér, þykir mér aðeins vert að benda á fáein atriði.

Ég fagna því út af fyrir sig, að við skulum eiga góða og gegna íhaldsmenn hérna hjá okkur, sem vilja gjarnan hamla gegn því, að ákveðin séu mjög mikil útgjöld. Hins vegar hef ég ekki alveg séð samræmið í því. Mér heyrðist á hv. síðasta ræðumanni, að hann hefði ekki verið frá því að samþykkja frv., ef ekki hefði komið til þessi breyting, þ.e.a.s. hann hefði verið til með að ákveða auknar útborganir úr hlutatryggingasjóði, en hinu sé hann alveg á móti, að sjá honum fyrir einhverjum tekjum til þess að standa undir þeim útgjöldum. Það verður að vera eitthvert samræmi í hlutunum, og það gefst ekki vel að greiða miklu meira út, en inn er tekið, til langframa.

En varðandi það, að hér sé um að ræða einhverja fásinnu í að hækka útflutningsgjöld eða leggja á útflutningsgjöld til ákveðinna þarfa, eins og hér er gert, þá er þetta mál nokkuð óskylt ýmsum öðrum, því að hér er beinlínis um að ræða tryggingarmál fyrir sjávarútveginn sjálfan. Það má kannske taka til samanburðar, að það þýði lítið að vera að efna til almannatrygginga, því að menn verði auðvitað að borga það allt saman sjálfir, sem þeir fá þaðan. Almannatryggingarnar hafa sínar tekjur ýmist beint í iðgjöldum af hinu tryggða fólki eða þá opinberir aðilar, svo sem bæjarfélög og ríkissjóður, leggja þetta til, og menn verða auðvitað að standa undir þessu öllu saman sjálfir. Samt sem áður þykir það ómaksins vert að tryggja menn fyrir elli og örorku, og ég er ekki enn þá farinn að sjá framan í þann mann, sem vill halda því fram, að slík starfsemi sé alger vitleysa og byggist ekki á neinu öðru, en einhvers konar gamalli hringavitleysu.

Hér er í rauninni um sams konar atriði að ræða. Útgerðin leggur á sjálfa sig ákveðin gjöld til þess að tryggja sig fyrir ákveðnum skakkaföllum, sem hún getur orðið fyrir, og ég skal taka það fram, að hér er ekki um neinn hlut að ræða, sem ríkisvaldið ætlar að troða upp á útgerðina nauðuga. Þetta var einmitt till. útgerðarmannanna sjálfra, þegar ræddur var rekstrargrundvöllur útvegsins nálægt síðustu áramótum. Þá sáu útvegsmenn að sjálfsögðu fram á, að þeir yrðu fyrir verulegu tjóni með því að verða að borga tryggingu sínum hlutráðnu sjómönnum fyrir veiðitímabilið, sem þá var rétt nýliðið, reknetasíldveiðina að hausti og fram eftir vetri, og höfðu mjög mikinn áhuga fyrir því, að hlutatryggingasjóður tæki einmitt til þeirra veiða, og vænti ég þess, að hvorki hv. þm. A-Húnv. né aðrir geti láð útgerðarmönnum það, þó að þeir vildu tryggja sig fyrir þessu, og sem iðgjaldagreiðslu í þessa tryggingu munu þeir ekki hafa neitt á móti því, að þannig verði farið að, sem hér er lagt til.

Mér er sömuleiðis kunnugt um það, að stjórn hlutatryggingasjóðs hefur rætt þessi mál og telur þetta vera eðlilega og sanngjarna leið til tekjuöflunar í þessu skyni. Og þrátt fyrir það að þm. A-Húnv. bendi okkur á það, bæði sjútvn. og öðrum, sem þessa þingdeild skipa, að vert sé að fara með allri varfærni í að leggja á frekari útflutningsgjöld, og get ég verið sammála honum um það að vissu marki, þá hefur hann ekki enn sannfært míg um, að hér sé um að ræða fráleita leið, og mun ég að sjálfsögðu telja eftir sem áður, að hér sé einmitt farin eðlileg leið til þess að tryggja útveginn fyrir aflabresti. Eða hver mundi vilja halda því fram, að hin leiðin væri heppilegri, að halda þessum veiðum utan hlutatryggingasjóðs áfram, eiga það á hættu, að útgerð dragist saman? Það má kannske segja, að þá yrði minna um greiðslur á útflutningsgjöldum, en þá yrði líka minna um útflutning, og ég held að öllu samanlögðu, að þá hljóti allir þm. að geta glöggvað sig á því og þurft ekki til þess mjög langan tíma, að hér er einmitt um að ræða leið, sem er eðlilegt að farin sé, þegar eins stendur á og hér er um að ræða.