01.05.1958
Neðri deild: 85. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

168. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég get verið hv. þm. A-Húnv. (JPálm) sammála um, að það er ákaflega leitt að þurfa að afla tekna með því að leggja útflutningsgjöld á útflutningsvörurnar. En við stöndum víst bráðlega frammi fyrir því hér á hinu háa Alþ. að verða að leggja miklu hærri skatta — ég vil segja beinlínis á útflutningsvörurnar í sambandi við þær aðgerðir, sem í vændum eru hér á Alþ. með að leggja mjög háa skatta á allar rekstrarvörur sjávarútvegsins.

Það gætir nokkurs misskilnings hjá hv. þm. A-Húnv. í þessu máli. Það einkennilega hefur skeð, að síðan þessi lög voru samþ. 1949, hafa þeir útvegsmenn, sem gert hafa út á reknet, orðið að greiða 1/2% útflutningsgjöld af útfluttum síldarafurðum, sem þeir hafa veitt í reknet, án þess þó að njóta þeirra hlunninda að komast undir það að fá greidda hlutatryggingu, eins og gert er bæði í sambandi við þorskveiðar og eins síldveiðar fyrir Norðurlandi. Það er fyrst núna með þessari breytingu á hlutatryggingasjóði bátaútvegsins, sem gert er ráð fyrir, að hún eigi einnig að ná til reknetaveiðanna, og ég fullyrði, að allir útvegsmenn muni fúslega ganga undir það að taka á sig þá byrði, sem brtt. sjútvn. gerir ráð fyrir, að hækka útflutningsgjaldið úr 1/2% í 3/4%. Ég tel, að með þessari breytingu á hlutatryggingasjóðslögunum sé svo miklum hlunnindum náð fyrir útvegsmenn, að þeir geri sig alveg ánægða með að sæta því að verða að borga þetta hærra útflutningsgjald.

Eins og ég tók fram í byrjun minnar ræðu, er ég sammála hv. þm. A-Húnv., að bezt færi á því, að ekki þyrfti að leggja útflutningsgjöld á útfluttar sjávarafurðir, enda eru ekki lögð útflutningsgjöld á sumar aðrar tegundir sjávarafurða og ekki á neinar afurðir landbúnaðarins.

Það væri eðlilegra, að útflutningsframleiðslan, hvort heldur um landbúnaðarafurðir er að ræða eða sjávarafurðir, væri verðlaunuð með útflutningsverðlaunum, en ekki tekin af henni útflutningsgjöld, eins og við neyðumst til að gera, eins og nú standa sakir.