12.05.1958
Efri deild: 92. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

75. mál, einkaleyfi til útgáfu almanaks

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 25 frá 1921 var Háskóla Íslands veitt einkaleyfi til útgáfu almanaks og dagatala. Síðan hefur háskólinn fengið nokkrar tekjur af innfluttum almanökum svo og prentuðum almanökum hér innanlands. Þessar tekjur auk vaxta af höfuðstól, sem myndazt hefur, hafa runnið í svokallaðan almanakssjóð. Samkvæmt þessum lögum frá 1921 má verja vaxtatekjum sjóðsins til eflingar stærðfræðivísindum í landinu.

Sá skilningur hefur verið ríkjandi hjá háskólanum, að ekki væri heimilt að geyma vaxtatekjur milli ára og verja þannig á næsta ári meiri vaxtatekjum, en eins árs vöxtum. Hafi eitthvert ár ekki þurft að úthluta öllum vaxtatekjunum, hefur afgangurinn verið lagður við höfuðstól í almanakssjóði. Þó að næsta ár kynni að verða þörf fyrir að veita meira fé, hefur háskólinn ekki talið sér heimilt að nota þær vaxtatekjur, sem á annað borð höfðu verið lagðar við höfuðstól.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 126, er farið fram á tvenns konar breytingar á lögunum.

Fyrri breytingin samkvæmt þessu frv. er um sektarákvæðin. Samkvæmt núv, lögum eru sektir fyrir brot á þeim frá 100 til 2000 kr., en samkv, frv. er ætlazt til, að sektarféð nemi allt að 20 þús. kr., en lágmark sekta er ekki talið nauðsynlegt að tilgreina. Að vísu var breytt l. 1948 um sektarfé, þannig að án sérstakra lagabreytinga hækkar sektarfé samkvæmt þeim lögum, svo þó að þetta sektarfé hefði ekki verið hækkað samkv. þessu frv., mundi það samt hækka samkvæmt þeim lögum, en þó aldrei ná hærri upphæð en 6 þús. kr. En hér er ætlazt til, að hámarkið verði 20 þús. kr.

Önnur breyt. samkvæmt þessu frv. og aðalbreytingin er sú, að ætlazt er til að heimila háskólanum að verja öllu fé sínu til þeirra vísindaiðkana, sem lögin segja fyrir um, í stað þess að verja aðeins vöxtunum. Menntmn. hefur ekki getað fallizt á þetta sjónarmið. Hún vill ekki mæla með því, að höfuðstóllinn sé skertur, en ef frv. væri samþykkt óbreytt, hefði háskólinn óbundnar hendur um að verja ekki aðeins tekjum sínum, heldur líka öllum höfuðstólnum, en höfuðstóllinn er nú orðinn um 256 þús. kr. Menntmn. vill hins vegar heimila úthlutun á öllum árlegum tekjum sjóðsins, og það er allmikil breyting frá því, sem nú er í lögum, því að nú má ekki verja nema vaxtatekjunum einum, en þær nema ekki nema um 12 þús. kr., eins og nú er.

Nefndin flytur því brtt. á þskj. 485 við 2. gr.

frv., þannig, að í stað orðsins „fé“ komi: tekjum. — Þetta þýðir að sjálfsögðu það, að verja má öllum tekjum sjóðsins í þessu skyni, sem lögin segja fyrir um, en ekki höfuðstólnum. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá háskólanum, mun þetta nema því, að til úthlutunar verða kringum 52 þús. kr. í þessu skyni í staðinn fyrir aðeins um 12 þús. kr., ef lögunum væri ekki breytt, svo að hér er um mjög mikla hækkun að ræða, þótt ekki sé fallizt á það sjónarmið háskólans að gefa allan stofnsjóðinn lausan í þessu skyni.

Það er líka á það að líta, að á s.l. vetri, - ég hygg að það hafi verið í desember — var hækkað allverulega það gjald, sem háskólinn fær af almanökum. Upphaflega var þetta gjald 1921 5/12 eyrir af hverju almanaki. Gjaldið var fyrir um það bil 10 árum þrefaldað, en nú hefur það verið hækkað upp í 55 aura, svo að áætlaðar tekjur af þessu eina gjaldi eru um 40 þús. kr. á ári. Þetta er sú viðbót, sem háskólinn fær þá til árlegrar notkunar, við þær ca. 12 þús. kr., sem vaxtatekjurnar eru.

Loks er smávægileg orðalagsbreyting í 2. gr. frv. frá því, sem nú stendur í lögunum. Í lögunum stendur nú, að verja skuli vöxtum sjóðsins til eflingar stærðfræðivísindum á Íslandi. Háskólinn óskar eftir, að þessu verði breytt þannig, að verja megi fénu til stærðfræðilegra vísinda. Þetta er svipað orðalag, en þó telur háskólinn, að þetta sé rýmra en áður og með þessu orðalagi sé hægt að styrkja ekki aðeins hrein stærðfræðileg vísindi, heldur megi einnig styrkja rannsóknir í vísindagreinum, sem reistar eru á niðurstöðum stærðfræði, svo sem eðlisfræði, stjörnufræði, efnafræði, tölfræði og verkfræði. Nefndin sér ekkert að athuga við það, að þessi breyting verði samþykkt.

Menntmn. leggur því til, að frv. verði samþykkt með þessari einu breyt. á þskj. 485, að í stað orðsins „fé“ í 2. gr. frv. komi: tekjum.