11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

5. mál, tollskrá o. fl

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Við tveir nm. fjhn., hv. 5. þm. Reykv. og ég, höfum haft fyrirvara um þetta nál. Það ákvæði í þessu frv., sem okkur þótti dálítið hæpið, er ákvæði 1. gr. um það að heimila á árinu 1958 að greiða í sérstakan sjóð 1% af vörumagnstolli og verðtolli í því skyni að verja þessu gjaldi til byggingar tollbúða. Ég álít fyrir mitt leyti, að sú regla sé dálítið hæpin, nema alveg sérstaklega standi þá á, að fara mikið inn á þá braut að ráðstafa ákveðnum tekjustofnum til ákveðinna hluta. Ég dreg það ekki í efa, að á því sé í sjálfu sér þörf að byggja tollbúðir. En það eðlilegasta væri að mínu áliti það, að veitt væri þá fé til þess á fjárl., eins og almennt gerist um slíkar framkvæmdir. Og að því leyti sem rétt þætti að verja vörumagnstollinum til þess, finnst mér hæpið að hækka vörumagnstollinn af þessum ástæðum. Eðlilegra væri þá, ef sú leið væri farin, að heimila að taka 1% af vörumagnstollinum, án þess að hann væri hækkaður. — Það var af þessu, sem okkar fyrirvari var sprottinn, og áskiljum við okkur rétt til þess að flytja brtt. um þetta atriði við 3. umr., en höfum ekki enn gengið frá henni eða tekið um það endanlega ákvörðun.