25.02.1958
Neðri deild: 56. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

131. mál, samvinnufélög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það hefur lengi verið í lögum, að samvinnufélögunum væri skylt að leggja í varasjóð vissan hundraðshluta af viðskiptum. Fyrir þessu lágu eðlileg rök, þegar það var í lög sett, en nú sýnist ekki vera ástæða til þess að hafa þetta ákvæði lengur í lögum. Ekki er meiri ástæða til þess að skylda samvinnufélög til að leggja þannig í varasjóð, en hver önnur félög í landinu. Er því lagt til, að þetta ákvæði verði fellt niður. Á hinn bóginn er lagt til, að áfram standi það ákvæði, að þeim sé skylt að leggja í varasjóð allan hagnað af utanfélagsmannaviðskiptum.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessu máli verði vísað til hv. allshn. að lokinni 1. umr.