28.04.1958
Neðri deild: 84. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

131. mál, samvinnufélög

Frsm. minni hl. (Björn Ólafason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. og ég, sem sæti eigum í þeirri n., sem um þetta frv. hefur fjallað, gátum ekki átt samleið með öðrum nm. hvað frv. snertir, og höfum við lagt fram álit okkar á þskj. 437 og gert þar grein fyrir þeim ástæðum, sem við teljum fram fyrir því, að við getum ekki lagt til, að frv. verði samþykkt.

Ekki verður annað skilið af ræðu hv. frsm. meiri hl., hv. þm. N–Þ., en það, að varasjóðsákvæðið í samvinnulögunum hafi í upphafi verið sett til þess að gera traustan fjárhag samvinnufélaganna. Þetta er vafalaust rétt, svo langt sem það nær, vegna þess að varasjóðsákvæði fara alltaf í þá átt að gera traustari fjárhag þeirra félaga, sem hlut eiga að máli. En svo segir hann: Þetta ákvæði hefur ekki þýðingu lengur. — Og mér skildist það væri vegna þess, að félögin væru nú orðin svo fjárhagslega vel stæð, að þetta ákvæði um tryggingarsjóði ætti ekki lengur við og þess vegna bæri að fella það niður.

Einhverjum gæti nú dottið í hug að spyrja, hvort skilja ætti orð hv. þm. svo, að fjárhagur samvinnufélaganna væri nú orðinn svo sterkur, að tími væri kominn til að gera þau skattfrjáls. En þó að þessi rök stangist að miklu leyti við veruleikann, þá eru þetta þó einu rökin, sem ég hef heyrt borin fram hér á þingi með þessu frv., sem hér liggur fyrir, m.ö.o. þau rök, að samvinnufélögunum eigi ekki lengur að vera skylt að leggja í varasjóð, vegna þess að þau séu orðin svo fjárhagslega vel stæð, að því sé engin ástæða til að gera það. En hv. þm. lét undir höfuð leggjast að geta þess, að varasjóður samvinnufélaganna er grundvöllurinn fyrir skattlagningu þeirra til ríkissjóðs. Það er meginatriði þessa máls. Hann sagði enn fremur, að samvinnufélögin eigi að hafa fullt frjálsræði eins og önnur félög til þess að ákveða, hvort þau leggi í varasjóð eða ekki.

Ég vil benda á, að það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að halda því fram, að þetta sé nokkuð sambærilegt við önnur félög, vegna þess að varasjóðsákvæðið er sett til þess að tryggja ríkissjóði grundvöll til þess að skattleggja samvinnufélögin eins og aðra skattgreiðendur. Með því að kippa þessu ákvæði burt á þeim forsendum, sem hv. þm. lagði nú fram, að félögin væru orðin svo fjársterk, að ekki væri þörf á að hafa þetta ákvæði lengur, þá er jafnframt kippt í burtu grundvellinum fyrir skattlagningu þeirra.

Um leið og þetta frv. var lagt fram hér í d., — þetta er 131. mál, — var lagt fram annað frv., einnig hér í þessari d., sem var 130. mál. Það var um skattgreiðslu félaga, eins og þm. er kunnugt. Þar er lagt til, að skattgreiðslu félaga sé breytt í þá átt, að öll félög, samvinnufélög sem önnur félög, greiði sama skatt af tekjum sínum, eða einn skatt, 25%. Þegar þessi frv. voru bæði lögð fram og komu bæði samtímis til 1. umr., höfðu menn ekki áttað sig á því, hvað litla frv., sem er 131. mál, þýddi. En þegar menn fóru að athuga það ofan í kjölinn, komust þeir að raun um, hvað fólst í frv. Það, sem í því felst, er, að með því eru samvinnufélögin gerð því nær skattfrjáls til ríkissjóðs.

Ég ber mikla virðingu fyrir og traust til hæstv. fjmrh., en hann er flm. þessa frv. Ég verð þó að láta nokkra undrun í ljós yfir því, að hann sem fjmrh. og jafnframt varaformaður Sambands íslenzkra samvinnufélaga ætlar með þessu frv. að gera samvinnufélögin að mestu leyti skattfrjáls, á sama tíma sem hann ætlast til, að skattalögunum sé breytt þannig, að öll félög greiði sama skatt.

Menn héldu, þegar þessi frv. voru lögð fram, að nú væri loksins upp runnin sú stund, er allar félagsheildir í landinu, sem störfuðu á svipuðum grundvelli, ættu að greiða sama skatt. Við vitum, að samvinnufélögin greiða nú 8% skatt af tekjum sínum, meðan önnur félög greiða eftir hækkandi stiga miklu hærri skatt. Að vísu greiða samvinnufélögin, eins og lögin eru nú, einnig stríðsgróðaskatt. En það er líka eini skatturinn, sem þau greiða að jöfnu við önnur félög, En það er nú sýnilegt, að ekki átti fyrir mönnum að liggja að sjá þá stund renna upp, að samvinnufélögin tækju sama þátt í greiðslu til almenningsþarfa og önnur félög. En ég vil í þessu sambandi taka fram, að skattafrv., sem nú liggur hjá hv. fjhn., virðist ekki hafa fengið neina afgreiðslu eða jafnvel ekki athugun og ekki útlit til, að það sjái dagsins ljós á næstunni.

Ég vil nú spyrja hv. þingmenn úr stjórnarflokkunum, sem þessum málum sinna: Vakir það fyrir þeim að samþykkja þetta frv., sem er skattfrelsi fyrir samvinnufélögin, en láta hitt frv. sofna í n., sem veitir einhverja linkind öðrum félagsheildum í landinu?

Samvinnufélög greiða nú skatt til ríkissjóðs af því, sem þau greiða af rekstrarhagnaði í varasjóð. Að vísu hafa þau frádráttarheimild, sem nemur 1/3, eins og útgerðarfyrirtæki, og skattur kemur því ekki á þann hagnað, sem lagður er í varasjóð, nema að 2/3 hlutum. En samkv. núgildandi lögum ber samvinnufélögum að greiða 1% í varasjóðinn af seldum vörum og afurðum hvers árs. Önnur ráðstöfun á ársarðinum, svo sem tillag í stofnsjóð og útborgun tekjuafgangs félagsmanna, er hvort tveggja skattfrjálst, enda er ekki um það deilt. Það, sem þess vegna kemur til skatts, — það, sem ríkissjóður leggur á skatt, er tillagið, sem félögin leggja til varasjóðs á hverju ári. Enn fremur er allur hagnaður af viðskiptum utanfélagsmanna skattskyldur og leggst því allur í varasjóð. Á þennan hátt er, eins og nú mæla lög, fundinn grundvöllur fyrir skattgreiðslu samvinnufélaganna til ríkissjóðs. Þeim er sem sagt eftir lögunum frá 1937 gert að skyldu að leggja ákveðinn hluta af tekjum sínum í varasjóð. Hitt er ekki skattskylt.

Svo að ég víki aftur að ræðu hv. þm. N-Þ., þá vil ég benda á það, að fyrir samvinnufélögin er ekki varasjóðstillagið hlunnindi eins og hjá hlutafélögum, heldur er það kvöð, sem löggjafinn hefur sett til þess að mynda grundvöll fyrir skattgreiðslu þeirra. Þetta er tvennt ólíkt, og því er það hrein fjarstæða að tala um, að samvinnufélögin eigi að hafa sama rétt og hlutafélögin til þess að ákveða, hvað mikið þau leggi í varasjóð. Það væri sama og að segja við hlutafélögin, að þau eigi sjálf að hafa rétt til að ákveða, hversu mikið þau greiða í skatt. Ég geri ráð fyrir, að hv. samvinnumönnum mundi finnast það hart aðgöngu, ef gerð væri tillaga um slíkt athafnafrelsi.

Af þessu ætti að vera ljóst, að möguleiki ríkissjóðs til þess að innheimta skatt hjá samvinnufélögum fer algerlega eftir þeim fjárhæðum, sem lagðar eru í varasjóð félaganna. Samkvæmt frv. á félögunum að vera það í sjálfsvald sett, hvað þau leggja í varasjóð af hagnaði, þegar frá er tekinn hagnaður af viðskiptum utanfélagsmanna. Það hlýtur öllum að vera ljóst, hvaða afleiðingar það ákvörðunarfrelsi hefur. Þeim er að vísu skylt að leggja hagnaðinn af viðskiptum utanfélagsmanna í varasjóð, en þá fylgir sá böggull skammrifi, að þau mega fyrst draga frá alla skatta og opinber gjöld, sem lögð eru á þennan hagnað. Alla skattgreiðendur í landinu hefur í mörg ár hungrað og þyrst eftir slíkum fríðindum, að mega draga skatta frá tekjum. Nú eiga þessi fríðindi aðeins að falla í skaut samvinnufélögum, meðan skattarnir taka eignirnar af öðrum skattgreiðendum. Það mætti einnig geta þess hér, að harðsnúnasti andstæðingur hér í þinginu þess, að skattgreiðendur fengju að draga skatta frá tekjum, hefur verið, síðan þetta ákvæði kom í lög, hæstv. fjmrh., svo að ég verð að segja, að mér finnst hann vera æði ósamkvæmur sjálfum sér í þessu efni. Ef samvinnufélögum er nauðsynlegt að fá þessi skattfríðindi, verð ég að segja, að þá er öðrum ekki síður nauðsynlegt að fá þau, sem hafa orðið meira fyrir barðinu á skattabrjálæðinu í landinu, en samvinnufélögin. Ef félögin mega ráða því sjálf, hvað þau leggja í varasjóð, og varasjóðurinn er eini sjóðurinn, sem kemur til skatts hjá félögunum, kemur þá nokkrum í hug, að þau fari sjálf að gera sig skattskyld, ef þau ekki þurfa þess?

Eftir að þetta frv. hefur verið gert að lögum, geta félögin lagt — og þau munu leggja í framtíðinni allan afgangshagnað í stofnsjóð, og stofnsjóður er skattfrjáls. En stofnsjóðurinn er talinn í lögum um samvinnufélög aðalrekstrarfé félaganna, svo að á þann hátt kemur hagnaðurinn af rekstrinum félögunum til góða í stofnsjóði eins og í varasjóði. En munurinn er aðeins sá, að stofnsjóðurinn er skattfrjáls. Þá er ekki annað, sem fer í varasjóð, en hagnaður af utanfélagsviðskiptum, eftir að búið er að draga skattana frá þeim hagnaði.

Því hefur lengi verið haldið fram, að skattskýrslum félaganna að því er snertir viðskipti utanfélagsmanna hafi á undanförnum árum og sé enn mjög ábótavant. Og því er enn fremur haldið fram, að skattayfirvöldin gangi mjög slælega eftir því, að sannanir séu færðar fram fyrir því, að allur hagnaður af utanfélagsviðskiptum sé talinn fram. En í lögum stendur, að ef ekki er gerð fullnægjandi grein fyrir utanfélagsviðskiptum og hagnaði af þeim, þá er allur hagnaður félaganna skattskyldur. Svo stranglega var nú tekið til orða, þegar samvinnulögin voru fyrst sett. Þá var litið svo á, að félögunum bæri svo rík skylda til að standa skil á fullum skatti af þeim hagnaði, að það mætti ekki láta undir höfuð leggjast og þess vegna yrði að setja ströng viðurlög, ef ekki væri að gert.

Ég skal engan dóm leggja á, hvort þessar sögusagnir eru réttar, en þeim er þráfaldlega haldið á loft. Hitt er svo annað mál, sem hver maður getur vel sagt sér sjálfur, að það er mjög miklum erfiðleikum bundið oft og tíðum fyrir félögin að gera fullnægjandi grein fyrir viðskiptum utanfélagsmanna. En ef þetta er nú svo, að lítill afrakstur verður reikningslega á skattaframtölum félaganna af utanfélagsviðskiptum, þá fer að verða létt á metunum það, sem félögin hér eftir eiga að greiða í skatt til ríkissjóðs, til almannaþarfa.

Ef þetta frv. verður gert að lögum, verður það aldrei burtu skafið, hversu lengi sem um þetta mál verður rætt, að samvinnufélögin verða á eftir að mestu leyti skattfrjáls til ríkissjóðs. Sá, sem heldur öðru fram, gerir það annaðhvort af ókunnugleika eða á móti betri vitund. Ákvæðið, sem nú er í skattalagafrv., er liggur fyrir fjhn. d. um sömu skattgreiðslu samvinnufélaganna og annarra félaga, verður því í framtíðinni ekki annað, en napurt háðsmerki í huga almennings yfir núverandi tilraunum samvinnumanna til að láta líta svo út í gegnum það frv., að þeir greiði sama skatt og önnur félög í landinu, á meðan þeir samkvæmt samvinnulögunum eru því nær gerðir skattfrjálsir.

Þjóðfélagið er byggt upp á þeirri meginreglu, að allir leggi fram fé til almenningsþarfa, hver eftir sinni getu. Ef einhver er undanþeginn skatti, eins og t.d. samvinnufélögin verða, hlýtur skattabyrðin að leggjast því þyngra á hina, á allan almenning og aðra félagsstarfsemi í landinu. Almenningur og félagsstarfsemi í landinu önnur verður að taka á sig þá byrði, sem létt verður af samvinnufélögunum með þessu frv. Þess vegna vil ég nú spyrja að síðustu: Hafa samvinnumenn skap til að taka við slíku skattfrelsi, meðan allur annar rekstur í landinu stynur undan brjálsemi skattheimtunnar?