28.04.1958
Neðri deild: 84. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

131. mál, samvinnufélög

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er með nokkuð sérstökum hætti bæði meðferð þessa máls hér í þinginu og svo einnig efni þess. Eins og fram hefur komið hér í umræðunum, þá er næsta þskj. á undan því, sem hér er nú á dagskrá, frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, og því frv. var vísað til fjhn. d. á sínum tíma, en þessu frv. er hins vegar vísað til allshn. Að sjálfsögðu var eðlilegt, að þessi mál, sem svo nátengd eru hvort öðru og einmitt í sambandi í skattalegu tilliti, hefðu farið til sömu nefndarinnar.

Mér finnst út af fyrir sig, að menn geti deilt eða greint á um það, hversu mikill eða lítill skattur á samvinnufélög eða önnur félög í landinu skuli vera. En það er fyrir neðan virðingu hv. þingmanna að koma hér og segja: Það á ekki að tala um skattamál í sambandi við þetta, og þetta er í eðli sínu ekkert skattamál. — En efni frv. er að setja samvinnufélögunum það í sjálfsvald, hvort þau greiði nokkra skatta eða ekki.

Það er kunnugt, að sum samvinnufélög hafa ætlað að fara í kringum þau ákvæði núgildandi laga, að þeim beri að greiða í varasjóð tiltekinn hluta af veltu sinni, og ég held, að það sé rétt, að það liggi dellumál fyrir ríkisskattanefnd um þetta atriði, varðandi skattlagningu á Samband ísl. samvinnufélaga, sem aðeins á einu ári munar milli 2 og 3 millj. kr. í skattgreiðslum Sambandsins eins. Þetta frv. sker alveg úr um það, að sú deila, sem þar er háð, hlýtur auðvitað að ganga á móti Sambandi ísl. samvinnufélaga og það er að koma, a.m.k. þangað til þetta frv. er orðið að lögum, í stórkostlega miklu meiri skattaálagningu, en hefur verið fram að þessu, En við sjáum það, að bara þarna er um að vísu samband samvinnufélaganna að ræða, en bara skattlagningin á einu ári getur munað milljónum króna, miðað við það, hvort þetta ákvæði, sem hér er gert ráð fyrir að heimila í lögum, er fyrir hendi eða er ekki fyrir hendi.

Ég spurðist fyrir í fjhn. í sambandi við það skattamál, sem þar er, um nokkur atriði, sem ég óskaði eftir að við fengjum svör við frá skattstjóra, og ein af þeim spurningum, sem ég bar þar fram, var þessi: Hvaða áhrif má ætla, að ákvæði frv. til l. um breyt. á l. nr. 46 13. júní 1937, um samvinnufélög, eða þetta frv., sem nú er hér til umr., geti haft á skattgreiðslu þeirra? Þessari einu spurningu af mörgum var hins vegar ekki svarað af skattstjóranum. Hins vegar átti honum að vera mjög auðvelt að svara þessari spurningu, því að hún getur haft þau áhrif að gera samvinnufélögin algerlega skattfrjáls. Ég hef fengið um þetta umsögn sérfræðings í skattamálum, sem hefur unnið um margra ára skeið á skattstofunni, og segir hann m.a. um þetta atriði, áhrif þessa frv. á skattgreiðslur samvinnufélaganna:

„Erfitt er að gera sér grein tölulega fyrir áhrifum frv. á samvinnufélögin“, — það er hérna átt við skattaframvarpsins, — „en með hliðsjón af frv. til l. um breyt. á l. um samvinnufélög“, — því, sem nú er á dagskrá hér, — „sem lagt hefur verið fram, er hægt að segja þetta með fullri vissu:

1) Samvinnufélög, sem eingöngu hafa viðskipti við félagsmenn, urðu áður að svara skatti af því, sem skylt var að leggja í varasjóð, þ.e. 1% af veltu. Nú getur slíkt samvinnufélag gert sig algerlega skattfrjálst“. — Þetta er umsögn þessa sérfræðings í skattamálum um þetta, og um þetta þarf í raun og veru ekki að deila.

„2) Samvinnufélög verða nú eingöngu að svara skatti af hagnaði af utanfélagsmannaviðskiptum.“ — Og hann hefur stillt upp nokkrum dæmum, þessi aðili. Í fyrsta lagi, þar sem engin utanfélagsmannaviðskipti væru, og stillir því upp, að um sé að ræða samvinnufélag með 200 þús. kr. tekjur, velta 10 millj. kr. Skattar voru áður 5.758, en verða hér engir, ef félagið óskar sjálft eftir því að leggja ekkert af hagnaðinum í varasjóðinn. Og félag með 300 þús. kr. tekjur og veltu 20 millj. kr. var með skatta áður 15.841, en skv. þessu frv. þyrfti það ekki að borga neina skatta frekar, en það vildi sjálft, og félag með 500 þús. kr. tekjur og 25 millj. kr. veltu átti áður að greiða 20 þús. kr., en gæti eftir þessu frv. orðið algerlega skattfrjálst.

Eins hafa mikil áhrif á skattgreiðslur samvinnufélaganna ákvæðin hér um utanfélagsmannaviðskipti, en þar er gert ráð fyrir nokkrum dæmum hjá þessum sama aðila og ráðgert þá, að um 15% af veltunni sé utanfélagsmannaviðskipti. Og þá litur dæmið þannig út, að ef um væri að ræða tekjur upp á 50 þús. kr. og veitu 21/2 millj., þá voru skattar áður 1.533 kr., en yrðu nú eftir ákvæðum þessa frv. 1.250 kr. Og ef tekjurnar væru 100 þús. og veltan 5 millj. kr., voru skattar áður 3.086, en yrðu 2.500. Ef félag hefði tekjur upp á 200 þús. kr. og veltu 10 millj., þá urðu skattar áður 6.891, en yrðu nú 5.000. Félag með 300 þús. kr. tekjur og veltu 20 millj. kr. var skattað áður 18.634 kr., en nú 7.500, og félag með 504 þús. kr. tekjur t, d. og veltu upp á 25 millj. kr. átti áður að greiða í skatta 33.341 kr., en miðað við þessar breytingar 12.500.

Það er algerlega útilokað að ræða um þetta mál öðruvísi, en í sambandi við einmitt skattamál samvinnufélaganna. Það er svo annað, að menn kannske vilja hafa einhverja aðra aðferð á því að jafna metin á milli félaganna, hlutafélaga og samvinnufélaga, í sambandi við skattgreiðslur heldur en þá, sem lagt er til með oft nefndu frv., sem hér liggur fyrir, um breytingar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt. En það er ómögulegt að búast við því, að menn geti leitt það hjá sér að ræða um skattgreiðslur samvinnufélaganna í sambandi við þetta mál, þegar það er þess eðlis, að það setur samvinnufélögunum, eins og margsinnis hefur verið tekið fram, það í sjálfsvald, hvort þau í raun og veru greiða nokkra skatta eða ekki. Það er þess vegna ákaflega einkennilegt að bera fram á sama þinginu og svo að segja í sömu þingskjölum eða hverju á fætur öðru annars vegar tillögur um það í skattalagafrv. að hækka hlutfallsgjald samvinnufélaga í sambandi við skattgreiðslur úr 8% upp í 25%, en á hinn bóginn að ganga þannig frá málunum, að þessi skattlagning geti orðið nær engin, ef samvinnufélögin vilja hafa tiltekinn hátt á ráðstöfun síns arðs. Og það byggist auðvitað fyrst og fremst á því, að þeim kemur alveg að sama haldi í raun og veru, eins og þeirra uppbygging er, hvort þau úthluta arði í stofnsjóðinn eða varasjóðinn, því að eins og hv. 2. þm. Reykv. benti réttilega á, þá hagnýtast stofnsjóðirnir sem rekstrarfjármagn samvinnufélaganna. Það má þess vegna ætla, að samvinnufélög, sem engin utanfélagsmannaviðskipti hafa, mundu í framtíðinni algerlega hverfa af skattskránum einmitt vegna samþykktar þessa frv., ef þau óskuðu þess sjálf að vera ekki lengur á skattskrá.

Sannast að segja hefur þegar verið nægjanlega mikið misrétti í sambandi við skattamálin hér hjá okkur, þó að þessu eigi nú ekki við að bæta, og það er skoðun mín, að ég held, að þeir menn, sem að slíku ranglæti standa eins og hér er um að ræða, verði í raun og veru mjög skamma stund fegnir út af því og það muni sannast, að fólk tekur það ekki sem góða og gilda vöru, að borgararnir í þjóðfélaginu búi algerlega við gagnstæð réttindi eftir því, hvort þeir kjósa að haga sínum atvinnurekstri á grundvelli samvinnufélagsskapar eða einhvers konar annars félagsskapar, hlutafélaga eða einkarekstrar.

Hv. framsóknarmönnum, sem standa nú að þessu frv. ásamt öðrum stjórnarsinnum, hefur tekizt að ná samkomulagi um það, eftir því sem fram kemur um afgreiðslu málsins í allshn., við hina tvo stjórnarflokkana að afgreiða þetta mál núna með þeim afleiðingum, sem það getur haft. Hitt er hins vegar enn á huldu, hvað verður um skattafrv., sem einnig liggur fyrir þessu þingi, en það er spá mín, að slík ákvæði eins og hér er um að ræða muni ekki lengi í lögum standa og það muni sjálfsagt, ef það verður samþykkt nú, fyrr en varir koma að því, að slíkt ranglæti yrði aftur afnumið.