28.04.1958
Neðri deild: 84. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

131. mál, samvinnufélög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Efni frv., sem hér liggur fyrir, er að létta að nokkru leyti af samvinnufélögum skyldu til að leggja fé í varasjóði, en slík kvöð hvílir ekki á hlutafélögum eða öðrum fyrirtækjum. í nál. minni hl. allshn. er lítið rætt um efni frv., en hins vegar um skattamál samvinnufélaganna, og það er einmitt vegna þess, sem ég sé ástæðu til að segja nokkur orð, út af því, að hv. minni hl. hefur leitt umræður um skattamál inn í umræðurnar um þetta frv.

Hv. frsm. minni hl. virðist liggja svo mikið á að koma að sínum skoðunum um það efni, þ.e.a.s. skattamálin, að hann getur ekki beðið eftir því, að frumvarpið um breytingar á skattalögunum komi hér til umræðu, sem væntanlega verður eftir fáa daga. Ég vænti þess, úr því að þetta tilefni hefur gefizt, að mér leyfist þá einnig að ræða nokkuð um skattamál, út af því, sem fram hefur komið.

Frásögn minni hl. um skattamálin, þ.e.a.s. skattamál samvinnufélaga, í nál. þeirra á þskj. 437 er röng og villandi.

Í 1. gr. frv. segir, að arður af viðskiptum, er utanfélagsmenn kunna að hafa gert við félagið, að frádregnum opinberum gjöldum, sem á hann eru lögð, skuli lagður í varasjóð, nema honum sé varið á annan hátt til almenningsþarfa. Um þetta segir svo í nál. minni hl., með leyfi hæstv. forseta:

„Félögin fá með þessu sérstaka frádráttarheimild á sköttum frá tekjum, sem engir aðrir skattþegnar hafa.“

Víst ætti þeim háttvirtu þingmönnum, sem gefa út minnihlutaálitið, að vera það kunnugt, að á öðrum skattþegnum hvílir ekki skylda skv. landslögum til að leggja fé í varasjóði eins og á samvinnufélögunum. Aðrir skattþegnar hafa því enga þörf fyrir heimild til að draga opinber gjöld frá tekjum, áður en þær eru lagðar í varasjóði. Það er því erfitt að skilja, hvers vegna þessi setning, sem ég vitnaði til, er sett í nál., en hún getur vel orðið til þess að villa um fyrir mönnum. Eins og setningin er orðuð, gætu þeir, sem lesa hana eða heyra lesna, fengið þá hugmynd, að ætlunin sé að veita samvinnufélögunum sérstaka heimild til að draga greidda skatta frá tekjum, áður en þær eru skattlagðar, en engar till. liggja fyrir um slíkt.

Þá segir enn fremur í nál. minni hl., að verði frv. samþykkt, geti samvinnufélögin komið sér hjá allri skattgreiðslu til ríkissjóðs, nema af þeim óverulega hagnaði, sem stafar af viðskiptum utanfélagsmanna, eins og það er orðað. Þetta er ekki rétt. Samvinnufélögin borga skatt til bæjar- og sveitarfélaga einnig vegna félagsmannaviðskipta, samkvæmt ákvæðum í samvinnulögunum, og skattur þessi er ekki frádráttarhæfur við ákvörðun skattskyldra tekna. Félögin þurfa því að borga tekjuskatt til ríkissjóðs af þeim upphæðum, síðan aftur skatt af þeim tekjuskatti, þar sem hann er ekki frádráttarhæfur, o.s.frv. Hér er því rangt með farið í nál. Og hv. 5. þm. Reykv. endurtók þessi ósannindi í ræðu sinni hér áðan. Hann sagði, að frv. gæti haft þau áhrif, að samvinnufélögin verði algerlega skattfrjáls, þ.e.a.s. ef þau hafa engin utanfélagsmannaviðskipti. Og hann vitnaði í einhvern mann, sem hann kallaði sérfræðing í skattamálum, og sagði, að hann segði þetta, og hv. þm. var með einhver útreiknuð dæmi, sem hann sagði að væru eftir þennan sérfræðing. Það er dágóð sérfræði það. En það lítur út fyrir, að frsm. minni hl., hv. 2. þm. Reykv., sé þegar búinn að átta sig á því, að hann og félagi hans hafa farið rangt með í nál., því að í ræðu sinni áðan orðaði hann það þannig, að félögin gætu orðið því nær skattfrjáls. Þarna er hann byrjaður að draga í land, og er það vel, ef hann áttar sig á því, að hann hefur þarna ofmælt áður.

Samvinnufélögin munu vissulega halda áfram að borga skatta, þó að þetta frv. verði samþykkt, en mörg þeirra hafa á liðnum árum verið mestu skattgreiðendur í þeim bæjar- og sveitarfélögum, þar sem þau eiga heima. Öðru máli gegnir um sum önnur félög. Hér er til viðskiptafyrirtæki, sem mig minnir að nefnist Innflytjendasambandið. Það mun vera félagsskapur kaupmanna og þeirra fyrirtækja til að annast vörukaup. Þetta samband hefur starfað alllengi, og ég hef heyrt, að það hafi ekki greitt tekjuskatt né eignarskatt og ekki heldur útsvar. Hygg ég, að þær upplýsingar séu réttar. Af hverju stafar það, að þetta innkaupafélag kaupmanna hefur ekki borgað skatta, en Samband ísl. samvinnufélaga, sem annast innkaup fyrir kaupfélögin, borgar stórar fjárhæðir í skatta? Ástæða gæti verið til að athuga þetta mál og afla upplýsinga um það. Og það eru fleiri stór viðskiptafyrirtæki, sem ekki hafa greitt skatta til ríkisins. Svo mun vera um Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Það félag annast sölu á frystum fiski fyrir framleiðendur og mun einnig fást eitthvað við innkaup. En það hefur að sögn aldrei greitt tekjuskatt. Hvernig stendur á því? Til samanburðar má nefna skattgreiðandann Samband ísl. samvinnufélaga, sem einnig annast sölu á freðfiski, og einnig mætti gjarnan nefna hér til samanburðar sérstakt afurðasölufélag bænda á Suðurlandi, Sláturfélag Suðurlands, sem er samvinnufélag, Það mun á undanförnum árum hafa borgað mikinn tekjuskatt, ég hygg oft sem nemur hundruðum þúsunda á ári. Víst gæti þetta allt verið merkilegt rannsóknarefni.

Eins og áður segir, er það efni þessa frv. að létta nokkuð þá skyldukvöð um framlög í varasjóði, sem nú hvílir á samvinnufélögunum. En þó að frv. verði samþykkt, hvílir eftir sem áður sú lagaskylda á félögunum að leggja allan hreinan hagnað af utanfélagsmannaviðskiptum í varasjóði. Þetta telja samvinnumenn eðlilegt, vegna þess að það er ekki tilgangur félaganna að færa félagsmönnum gróða af verzlun, heldur að útvega þeim vörur til eigin nota með hagkvæmustum kjörum og koma framleiðsluvörum þeirra í sem bezt verð. Því er lagt til, að enn haldist í lögum fyrirmælin um, að hreinn hagnaður af utanfélagsmannaviðskiptum leggist í varasjóði samvinnufélaga, en engin slík kvöð hvílir á öðrum félögum eða fyrirtækjum. En hv. minni hl. allshn. þykir ekki fullnægjandi, að slík kvöð viðkomandi hagnaði af utanfélagsmannaviðskiptum hvíli á samvinnufélögunum einum allra fyrirtækja. Hann vill halda við skyldu félaganna til að leggja í varasjóð 1% af viðskiptaveltunni. En hvers vegna ber hv. minni hl. þá ekki fram till. um, að önnur fyrirtæki, t.d. hlutafélög, sem annast kaup og sölu á vörum, skuli einnig leggja í varasjóð 1% af sinni viðskiptaveltu? Væri óeðlilegt að gera ráð fyrir slíku af mönnum, sem alltaf eru með jafnréttið á vörunum? Eða er kannske að vænta till. frá hv. minni hl. um þetta? Vill hv. minni hl. t.d. setja lög um, að félög, önnur en samvinnufélög, sem selja landbúnaðar- eða sjávarafurðir, skuli leggja í varasjóði 1% af verði afurðanna? Ekki væri það ósennilegt, úr því að hann vill ekki fallast á, að létt verði af t.d. Sláturfélagi Suðurlands þeirri lagaskyldu að leggja 1% af söluverði landbúnaðarafurða frá félagsmönnum í varasjóð. Hefur hv. minni hl. ef til vill nú í smiðum frv. um þetta efni? Það er ástæða til að spyrjast fyrir um ýmislegt vegna hinnar einkennilegu afstöðu hv. minni hl. allshn.

Minni hl. heldur því fram, að samvinnufélögin muni sjálf geta ráðið miklu um það, hvað skattskyldar tekjur þeirra eru miklar, einkum ef þetta frv. verður samþykkt.

Önnur fyrirtæki geta að sjálfsögðu einnig haft áhrif á upphæð skattskyldra tekna hjá sér, t.d. hlutafélög. Þau geta takmarkað hagnað sinn með því að setja lágt verð á þá þjónustu, er þau veita. Þau geta miðað álagningu á vörur, er þau selja, við það, að tekjuafgangur verði lítill, og þau geta líka veitt viðskiptamönnum sínum afslátt á vöruverði, en við það lækka skattskyldar tekjur hjá félögunum. Það er opin leið fyrir þessi fyrirtæki að gera það.

Það er ekki nýtt að heyra einstaka menn –og þá marga — tala um forréttindi samvinnufélaga. Sá söngur hefur oft verið kyrjaður fyrr, en hér í dag. Meðal forsöngvara í þeim kór hafa oftast verið þeir menn, sem hafa verzlun og ýmiss konar viðskiptastarfsemi með höndum, og margir þeirra hafa stofnað og rekið hlutafélög til að annast þann rekstur. En ef þeir sjálfir tryðu því, að samvinnufélögin nytu óeðlilegra réttinda, samanborið við t.d. hlutafélög, hvers vegna hafa þessir menn þá ekki yfirgefið hlutafélagaformið í sínum atvinnurekstri, en stofnað samvinnufélög í staðinn til þess að geta notið þeirra réttinda, er landslög ákveða þeim félögum? Þetta hefðu þeir getað, því að öllum er frjálst að beita sér fyrir stofnun samvinnufélaga, og mönnum er líka frjálst að ganga í samvinnufélög, sem fyrir eru. En þetta hafa þessir menn ekki gert. Skýringin á því mun vera sú, að þrátt fyrir þann áróður, sem þeir halda uppi, að of vel sé búið að samvinnufélögum, samanborið við aðra, hafa þeir talið sér sjálfum hagkvæmara að hafa sinn rekstur í öðru formi, og þetta mun vera rétt athugað hjá þeim, sem vilja hagnast á verzlun og ýmiss konar fjármálastarfsemi.

Með þátttöku í kaupfélögunum geta menn aflað sér nauðsynja til eigin nota með hagkvæmara móti yfirleitt, en með öðrum hætti, og samvinnufélagsskapur um sölu á eigin framleiðsluvörum er einnig gagnlegur samkv. margra ára reynslu margra framleiðenda. En vilji menn græða á verzlun, þá stofna þeir ekki kaupfélög, því að samvinnufélög veita einstaklingum ekki svigrúm til fjáröflunar með þeim hætti.