12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

5. mál, tollskrá o. fl

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Eins og kom fram við 2. umr. þessa frv. í gær, höfum við hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) fyrirvara um frv., og gerði ég grein fyrir honum við 2. umr. Það er ákvæði niðurlags 1. gr. frv., sem við viljum breyta. Við höfum orðið nokkuð síðbúnir með brtt. við frv., þannig að ég verð að leggja hana fram skriflega, og vil ég leyfa mér að bera fram þá ósk við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða um það, að brtt. okkar megi koma fyrir. En brtt. er á þann veg að breyta B-lið 1. gr.; 2. mgr., þannig, að hann orðist svo:

„Á árinu 1958 skal leggja í sérstakan sjóð 1% af vörumagnstolli og verðtolli samkv. tollskrá“ o.s.frv.

Efnisbreytingin er fólgin í því, að í stað þess að innheimta 1% álag á verðtoll, vörumagnstoll o.s.frv., verði það 1% af núgildandi tollum, sem verður lagt í þennan sjóð.

Við teljum óheppilegt, að þannig sé verið að hækka tiltekna tekjustofna í ákveðnum tilgangi. Það torveldar almenningi yfirlit yfir skattamálin og fjármálin. Hins vegar drögum við ekki í efa, að nauðsynlegt sé að ráðstafa fé til þess að byggja nýjar tollbúðir, en teljum þá eðlilegt, að fjár til þess verði aflað með því móti að verja 1% af þeim tollum, sem nú eru innheimtir, eða tollum skv. gildandi töxtum í þessu skyni.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.