28.04.1958
Neðri deild: 84. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

131. mál, samvinnufélög

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður, enda hafa þær ræður, sem hér hafa verið fluttar, ekki gefið mikið tilefni til andsvara af minni hálfu umfram þau andsvör, sem þegar hafa komið fram frá öðrum.

Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. hafi misskilið mig, þegar hann virtist álíta, að ég hefði sagt, að ekki mætti leggja skatt á varasjóði. Ég ætla, að ég hafi ekki sagt það, eða a.m.k. var ekki ætlun mín að segja það, heldur sagði ég hitt, að það væri ekki tilgangur varasjóða að vera skattstofn, þeir væru ekki stofnaðir til þess að vera skattstofn.

Annars er í sjálfu sér ekki þýðingarmikið að deila um það, hvað hafi vakað fyrir löggjafanum, þegar ákvæðin voru sett um varasjóði samvinnufélaga. Ég hef haldið því fram, að það muni ekki hafa verið það að lögfesta þar skattstofn fyrir ríkissjóðinn, heldur allt annað, og get ekki fundið neinar líkur til þess, að svo hafi verið. Ákvæði um skatta eiga að sjálfsögðu að vera í skattalögum, og það er alveg þarflaust að hafa slík ákvæði í öðrum lögum, eins og t.d. samvinnulögunum, sem helzt má telja til félagsmála.