06.05.1958
Efri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

131. mál, samvinnufélög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. V-Sk, spurði, hvernig þetta frv. kynni að snerta skattgreiðslur samvinnufélaga. Hv. þm. er nokkuð kunnugur skattamálum sem yfirskattanefndarformaður, og ég geri ráð fyrir, að hann hafi gert sér þetta ljóst. En fyrst hann spyr, skal ég gjarnan segja örfá orð um skattamál samvinnufélaga. Annars gefst tilefni til þess að ræða það, þegar frv. um breytingar á tekjuskattslögunum, sem liggur nú fyrir þinginu, kemur hingað. En verði þetta frv., sem hér er, samþykkt, sem alls ekki er skattamál, heldur fjallar um, hvort skylda skuli samvinnufélög til þess að leggja í varasjóði, — verði það samþykkt, þá búa samvinnufélögin við nákvæmlega sömu kjör að því er þetta snertir og öll önnur félög, þ. á m. hlutafélög. Hér er því um það eitt að ræða í sambandi við þetta mál, að það séu ekki frekari kvaðir á samvinnufélögunum um varasjóðsframlög, að því er varðar viðskipti þeirra við félagsmenn, en eru á öðrum félögum í landinu. Þeir, sem ekki vilja samþykkja þetta frv., vilja hafa í lögum sérstakar kvaðir á samvinnufélögunum umfram það, sem er á öðrum félögum.

Um skattamál samvinnufélaga er svo aftur það að segja, að ráði þau því sjálf, hversu mikið þau leggja í varasjóð af félagsmannaviðskiptum, þá eru þau varðandi skattauppgjör einnig nákvæmlega sett á sama hátt og hlutafélög. Hlutafélögin ráða því sjálf, hversu mikið þau leggja í varasjóð, og samvinnufélögin mundu þá gera það líka. Og þó að skattafrumvarp það, sem liggur fyrir Nd., sé ekki hér til umr., þá er ástæða til þess út af því, sem hv. þm. V-Sk. sagði, að benda á, að verði það frv. samþykkt, munu samvinnufélögin borga skatt eftir sama skattstiga og öll önnur félög. Þau munu þá einnig að því er varðar framlög til varasjóða af félagsmannaviðskiptum búa við sömu reglur og önnur félög. Þetta er aðalatriði málsins. Þeir, sem ekki vilja samþykkja þær reglur um skattálagningu, sem eru í frv., sem liggur fyrir Nd., og þeir, sem vilja ekki fallast á að afnema þá kvöð á samvinnufélögunum, sem hér er gert ráð fyrir að afnema, vilja alls ekki unna samvinnufélögunum jafnréttis. Þeir vilja halda í lögum eða hafa í lögum sérstakar kvaðir á samvinnufélögin, sem gerir þeim erfiðara að starfa, en öðrum félögum. Menn geta svo kallað þessa afstöðu hvað sem þeir vilja. En vitanlega dylst engum, að slík afstaða getur ekki mótazt af öðru en, kala til samvinnufélaganna, andstöðu við þau og jafnvel fjandskap, því að það getur ekki verið, að sú afstaða að vilja hafa sérstakar kvaðir á tilteknum félögum umfram önnur félög byggist á nokkurri jafnréttishugsun eða því, að menn vilji unna jafnréttis.

Þeir, sem mæla í móti því að létta þessari varasjóðskvöð af félagsmannaviðskiptum samvinnufélaga, eiga að færa rök fyrir því, hvers vegna þeir telji nauðsynlegt að hafa hana áfram í lögum. Og það væri fróðlegt að heyra þessi rök. Og það væri fróðlegt að heyra hv. þm. V-Sk. svara þessari spurningu t.d.: Telur hann þá ekki sjálfsagt, ef hann vill halda áfram þessari kvöð í lögum, að það sé þá líka lögfest, að hlutafélög borgi 1% af vöruumsetningu sinni í varasjóð? Og kannske hann vilji líka lögleiða það, að hlutafélög borgi allar tekjur af utanfélagsmannaviðskiptum í varasjóð, eins og raunar samvinnufélögunum er ætlað að búa við, jafnvel eftir að þessi breyting hefði verið gerð? Ég vildi því beina þessum spurningum til hans: Í fyrsta lagi: Hvaða rök sér hann fyrir því, að það verði að lögskylda samvinnufélögin áfram til þess að leggja 1% af félagsmannaviðskiptum í varasjóð? Í öðru lagi: Álítur hann þá ekki sjálfsagt, ef hann telur þetta nauðsynlegt, að festa það í lög, að hlutafélögum beri að gera hið sama?