06.05.1958
Efri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

131. mál, samvinnufélög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. fannst, að ég hefði ekki svarað þeirri spurningu, sem hann bar fram. Það er auðvitað á algerum misskilningi byggt. Ég svaraði henni fullkomlega. En ég vil upplýsa það aftur, til þess að það verði algerlega ljóst, að ef þetta frv. verður samþ. og skattalagafrv., sem liggur fyrir Nd., þá búa samvinnufélögin, að því leyti sem varðar ríkisskattana, við sömu kjör og önnur félög. En á meðan það ákvæði er í l., sem þetta frv. fjallar um að afnema, þá eru samvinnufélögunum lagðar á herðar sérstakar kvaðir með ákvæðum um framlög í varasjóð,

Hv. þm. V-Sk. sagði, að samvinnufélögin væru einu félögin, þar sem varasjóður væri lagður til grundvallar skattálagningu, því að þau borguðu eftir núgildandi lögum skatt af 2/3 þess, sem lagt væri í varasjóðinn. Þetta er náttúrlega alveg á misskilningi byggt, því að þetta gildir um hlutafélögin líka. Ef þau leggja í varasjóð af frjálsum vilja, þá greiða þau af hluta þess skatt eins og samvinnufélögin. En hlutafélögin eru frjáls að því, hvort þau leggja nokkuð í varasjóð eða ekki, og það verður nákvæmlega sama aðstaða fyrir samvinnufélögin, eftir að þetta frv. er samþ., að þau eru frjáls að því, hvort þau leggja nokkuð í varasjóð eða ekki af félagsmannaviðskiptum. En aftur á móti verður á þeim sú sérstaka kvöð áfram, að þau verða að leggja allan hagnað af utanfélagsmannaviðskiptum inn í varasjóðinn og borga þar með skatt af 2/3 af þeim tekjum. Þannig verður sérstök kvöð áfram á samvinnufélögunum umfram nokkra aðra, umfram hlutafélögin, þó að þessu ákvæði verði breytt, sem þetta frv. fjallar um.

Hversu mikla skatta samvinnufélögin borga, áður en svona l. eru sett og eftir, fer vitanlega algerlega eftir því, hversu miklar tekjur samvinnufélögin hafa, alveg eins og það fer eftir því, hvort hlutafélögin hafa háar skattskyldar tekjur eða ekki, hve mikið þau borga. Ef hlutafélögin hafa háar skattskyldar tekjur, borga þau mikla skatta. Ef þau hafa litlar eða engar skattskyldar tekjur, borga þau litla eða enga skatta. Það, sem hv. þm. spurði um þetta, er algerlega út í hött. Ef hlutafélag væri rekið þannig t.d., að það greiddi viðskiptamönnum sínum svo mikið sem afslátt, að það hefði litlar eða engar tekjur, þá mundi það lítinn eða engan skatt borga að sjálfsögðu. Ef það hefur aftur á móti gróða, borgar það skatt. Alveg eins er með samvinnufélag. Ef það skilar félagsmönnum aftur í afslætti meginhlutanum af þeim tekjum, sem það hefur haft af viðskiptum við þá, hefur félagið litlar skattskyldar tekjur af þeim viðskiptum. En geri það ekki þetta, þá verður félagið vitanlega að borga skatt, nákvæmlega eins og hlutafélagið. Það er alveg hliðstætt. En þó er sú sérstaka kvöð á samvinnufélaginu áfram, að ef um ágóða af utanfélagsmannaviðskiptum er að ræða, þá verður að leggja hann allan í varasjóð. En hlutafélaginu er það frjálst, hvort það leggur ágóðann í varasjóð eða ekki. Hér er einvörðungu um það að ræða að taka þessa sérstöku kvöð af samvinnufélögunum að því er varðar félagsmannaviðskiptin, þannig að þau verði varðandi þau hliðstæð öðrum fyrirtækjum. Hvort þau borga mikinn eða lítinn skatt framvegis, fer eftir því, hvort þau hafa mikinn eða litinn tekjuafgang, alveg eins og um annan rekstur í landinu.

Málflutningur sjálfstæðismanna virðist helzt byggður á því, að þeir vilji láta lögbjóða, að samvinnufélög skuli hafa svo og svo miklar skattskyldar tekjur, þó að þau hafi máske raunverulega engar hreinar nettótekjur. En hvað ætli menn segðu um það, ef það yrði sett í l., að hlutafélögin ættu að borga 1% af umsetningu sinni í varasjóð, hvernig sem reksturinn gengi og borga svo skatt af 2/3 af því, jafnvel þó að þau hefðu engar hreinar tekjur? Slíkt getur vitanlega alls ekki staðizt, og þetta ákvæði, sem hér er verið að breyta, fær í raun og veru ekki staðizt.

Sannleikurinn er sá, að hv. þm. V-Sk. og aðrir þeir, sem hafa talað á móti þessu máli, geta alls ekki unnað samvinnufélögunum jafnréttis á við annan rekstur. En vitanlega er sannleikurinn sá, að þjóðinni ríður mjög á því að hafa einmitt öflugan samvinnurekstur. Sú eina reglulega samkeppni, sú heilbrigðasta samkeppni, sem á sér stað í landinu, er einmitt samkeppnin á milli samvinnufélaganna annars vegar og annarra fyrirtækja hins vegar. Það er sú samkeppni, sem þjóðinni kemur að mestum og beztum notum. En því aðeins getur þessi samkeppni orðið eðlileg, að hvorugum aðilanum sé íþyngt með sérstökum kvöðum af hálfu löggjafarvaldsins, eins og gert hefur verið með því ákvæði, sem hér er farið fram á að afnema, til þess að aðilarnir verði jafnt settir að þessu leyti. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði í málinu. En þegar til kemur, vilja ýmsir alls ekki unna samvinnufélögunum jafnréttis.

Ég vil svo benda á það aftur, að hv. þm. V-Sk. svaraði aldrei þeim spurningum sem ég beindi til hans. Hann svaraði aldrei þeirri spurningu minni t.d., hvort hann teldi ekki sjálfsagt til jafnréttis að lögleiða, að hlutafélög væru skyldug til þess að greiða 1% af viðskiptaveltu sinni í varasjóðina. Kannske hann vildi heldur lögleiða, að hlutafélögunum væri skylt að leggja allan gróða sinn af viðskiptum við utanfélagsmenn í varasjóð, eins og samvinnufélögunum verður skylt að gera jafnt eftir sem áður, þótt þetta frv. yrði að lögum? Ég get varla ætlað hv. þm. V-Sk., að hann sé á móti því að afnema skylduna til að leggja í varasjóð hjá samvinnufélögum, nema hann hafi þá í huga að lögleiða sams konar kvöð á önnur félög.