16.05.1958
Efri deild: 98. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

131. mál, samvinnufélög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef allmikið kynnzt samvinnufélagsskap og get þess vegna varla stillt mig um að leggja hér aðeins orð í belg.

Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, hefur verið mikið deilt um samvinnufélög, allt frá því að fyrsta félagið var stofnað, og menn hafa skipzt þar í flokka, samkeppnismenn og samvinnumenn, og samkeppnismenn hafa lagt sig fram um að misskilja samvinnufélagsskapinn og láta aðra misskilja hann. Það er alltaf mikill munur á afstöðu þeirra manna, sem vilja skilja, og hinna, sem vilja misskilja.

Þó að ég tali svona, þá er langt frá því, að ég væni hv. 11. landsk. þm., þann ágæta vin minn, um það, að hann vilji misskilja samvinnufélagsskapinn. En þó er það svo, að það er ljóst af því, sem hann sagði, að hann misskilur, og það, sem í nál. stendur frá hans hendi, er af misskilningi sprottið að ýmsu leyti. Þetta stafar af því, að þeim, sem hafa viljað misskilja samvinnufélagsskapinn, og þeirra á meðal hafa verið þeir, sem ritað hafa um samvinnufélagsskap í blöð Sjálfstfl., hefur tekizt að villa um fyrir þessum hv. ágæta alþm.

Það var svo í upphafi, í sambandi við fyrsta kaupfélagið, meðan það var aðeins eitt til í landinu, að þá var deilt um álögumál, og fóru fram mikil málaferli í Þingeyjarsýslu út af útsvarsskyldu kaupfélagsins. Að málsóknum á hendur kaupfélaginu og álögum stóð höfuðandstæðingur samvinnufélagsskaparins, kaupmaðurinn á staðnum, sem var oddviti, svo að þetta mátti telja mjög eðlilegt. Og það var ekki fyrr, en löngu seinna, að lög voru sett um gjaldskyldu kaupfélaga. Í þeim l., samvinnulögunum, voru höfð ákvæði, sem tekin voru beint upp úr reglum samvinnufélaganna. Þar með var ákvæði um ótakmarkaða samábyrgð, því þegar kaupfélögin voru fyrst að fara af stað, þá þurftu þau að byggja sig sem sterklegast upp, til þess að geta haft nauðsynlega tiltrú. Samábyrgðin var eitt þeirra atriða, sem þá voru höfð til þess að skapa tiltrúna. Nú er búið að nema úr l. þessa ótakmörkuðu samábyrgð, vegna þess að þegar kaupfélögunum óx fiskur um hrygg og þau höfðu sannað tilverurétt sinn og traustleika, þá voru þessi ákvæði óþörf og þau voru numin úr lögum.

Annað ákvæðið var skyldan til að leggja í varasjóð, til þess ekki aðeins að fá höfuðstól milli handa fyrir félagsskapinn, heldur til þess að hafa þar bakhjarl og tryggingarfé í viðskiptum og skapa tiltrúna. Þetta ákvæði er enn í l., og það er þetta ákvæði um skylduna til að leggja í varasjóð, sem nú er verið að leggja til með frv. því, sem hér liggur fyrir, að verði afnumið. Það var viðurkennt af hv. 11. landsk, þm., að kaupfélögin væru orðin svo fjárhagslega sterk, að ekki væri ástæða þess vegna til þess að skylda þau ein allra félaga í landinu með landslögum til þess að byggja upp hjá sér varasjóð. Þar af leiðandi mun hann út frá því sjónarmiði, sem þetta frv. er flutt, sem sé sjónarmiðinu um það að nema úr lögum þetta ákvæði, sem var sett af félögunum sjálfum og tekið inn í landslög fyrir tilstilli þeirra til þess að efla traust þeirra, meðan þau voru ung og höfðu ekki unnið sér þá tiltrú, sem þau hafa nú, þá mun mega slá því föstu, að hann gengur inn á það sjónarmið og lítur svo á, að þess vegna megi ákvæðið hverfa úr lögum. En hann lítur svo á, að þetta ákvæði hafi haft það sem aðaltilgang að vera skattstofn félaganna, og ég sé það í nál., að þetta er sameiginlegt álit þeirra, sem að minni hl. standa. Ég skil það líka á umr. þeim, sem hafa farið fram í blöðum, að þeir, sem ég kalla andstæðinga samvinnufélaganna, leggja áherzlu á þetta. En það er misskilningur.

Í nál. minni hl. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt gildandi lögum eiga samvinnufélög að greiða 8% í tekjuskatt af skattskyldum tekjum. Skattskyldar eru þær tekjur félaganna, sem lagðar eru í varasjóð. Af þessu leiðir, að félögin hljóta að leggja allt kapp á það að greiða sem allra minnst fé árlega í varasjóði. Er það eðlileg sjálfsbjargarviðleitni á tímum hinnar hörðu skattheimtu. Að vísu er gert ráð fyrir því í öðru stjórnarfrv.“ o.s.frv. „að hækkaður sé skattur.“

Þeir slá þessu föstu, minnihlutamennirnir, að þær tekjur félaganna, sem lagðar eru í varasjóð, séu skattskyldar. En hvað segja tekjuskattslögin um þetta? Þetta er ekki nema brot af sannleikanum, því að þau segja einmitt, lögin, 8. gr.: „Ef nokkuð af ársarði þessara félaga,“ þ.e. samvinnufélaga, „er lagt í varasjóð, er sú upphæð undanþegin tekjuskatti og skal koma til frádráttar við ákvörðun skattskyldra tekna.“ Því eru bara takmörk sett það er aðeins sú upphæð, sem er eins og hér segir, sem eigi nemur fjárhæð, sem er meiri, en 1/3 af ársarði.

Þetta er þess vegna nokkuð öfugt fram sett hjá minni hl. og sýnir, að hugsun sú, sem að baki stendur, er byggð á miklum misskilningi. Sem sagt, samvinnufélögin hafa skattfrjálst það, sem þau leggja í varasjóð, nema það fari yfir þriðjung ársarðsins. Og samvinnufélögin eru ekki ein um þetta, heldur einnig félög, sem stunda útgerð, og loks önnur félög, en þá er það 1/5 hluti af ársarði, sem þau hafa skattfrjálsan, ef þau leggja hann í varasjóð.

Þetta sýnir það m.a., að það er rangt ályktað, að varasjóðstillag félaganna sé sett sem skattstofn. Frá þessu sjónarmiði er ekkert athugavert við það fyrir félag að leggja fé í varasjóð. En það er athugavert fyrir félag, sem telur sig ekki þurfa að byggja sig upp lengur á sama hátt og gömlu félögin þurftu á sínum tíma, að vera skyldað til þess, hvernig sem árar, að leggja 1% af umsetningu sinni í varasjóð, alveg eins hvort sem árar vel eða illa. Það er mjög athugavert. Og frá sjónarmiði þeirra, sem skilja samvinnufélögin og eru þeim vinveittir, getur það heldur ekki talizt athugavert, þó að úthlutað sé arði til félagsmanna. Fyrst og fremst er það svo, að verzlun er — eða a.m.k. frá mínu sjónarmiði — ekki hið sama hjá kaupmanni eða hlutafélagi, sem verzlar, og kaupfélaginu. Hlutafélagið og kaupmaðurinn verzla til þess að hafa hagnað handa sér, en samvinnufélag kaupir vörur og selur vörur fyrir félagsmenn sína, til þess að þeir hafi sem bezt tækifæri til að kaupa vörur með hagfelldum kjörum og koma sinni framleiðslu í verð. Ef einn maður kaupir sér vörur, kallar enginn það verzlun, og ef einn maður selur sína vöru, við skulum segja beint til neytandans, þá kallar í sjálfu sér enginn það verzlun, og dettur engum í hug, að hann verði sérstaklega skattskyldur af þeim viðskiptum. En það er satt að segja ekki allur munur á því, hvort tveir eða þrír eða fjórir eða hversu margir sem eru leggja saman til þess að ná hagfelldum kaupum fyrir sig og selja sína vöru eða hvort það er einn maður.

Hins vegar hefur kaupmaðurinn og hlutafélagið önnur sjónarmið og er að safna sér ávinningi með verzluninni, og þeirra viðskipti, þeirra verzlun svarar til þess, þegar kaupfélög verzla við utanfélagsmenn, enda er líka glöggur greinarmunur gerður á þessu hjá kaupfélögunum í því, að hagnaður af verzlun við utanfélagsmenn er algerlega skattskyldur á sama hátt og slíkur arður er hjá hlutafélagi og kaupmanni.

Það er að vísu vitnað í það, sé ég er, og hv. 11. landsk. minntist á það líka, að frá arðinum af skiptum við utanfélagsmenn, sem félögin mega alls ekki taka á nokkurn hátt í rekstur sinn til eyðslu, en verða að leggja í varasjóð eða láta ganga til almenningsþarfa, t.d. til menningarframkvæmda fyrir hérað sitt eða eitthvað því um líkt, megi draga, áður en lagt er í varasjóðinn, útsvar og skatt, og það er rétt. En það má aðeins draga útsvar og skatt frá þessum upphæðum, áður en þær eru lagðar í varasjóðinn, en það má ekki draga þær frá skattskyldum tekjum, þær upphæðir eru ekki skattfrjálsar. Það er langt frá því. Og kaupfélög, sem oft hefur sézt í blöðum sjálfstæðismanna að séu skattfrjáls, eru víða hæstu gjaldendur, bæði til sveitar og ríkis, í umhverfi sínu, og það er vegna þess, að þau gjalda t.d. þetta sem snertir utanfélagsmannaviðskiptin og greiða að öðru leyti af tekjum sínum, mega ekki frekar en önnur fyrirtæki draga útsvar og skatt frá og verða þess vegna alltaf undir skatti og útsvari með þær upphæðir frá ári til árs. Það er því langt frá því, þó að þetta ákvæði, sem hér er verið að tala um í frv. því, sem fyrir liggur, verði að lögum, að kaupfélög losni undan sköttum. Það er aðeins það, sem þau losna við, að vera ein skuldbundin með landslögum til þess allra samtaka í landinu að leggja ákveðið gjald í varasjóð, hvernig sem árar.

Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að kaupfélögin hafi engra sérstakra skattfríðinda notið í þess orðs venjulegu merkingu. Ég tel, að þau hafi jafnan goldið a.m.k. eftir því, sem eðlilegt er, og oft meira, miðað við þann skipulagsmun, sem er á þeim og hinum venjulegu samkeppnisfyrirtækjum.

Ég tel, að fyrir staði þá, sem kaupfélög starfa á, sé það ómetanlegt gagn, hvernig þau byggja upp fyrir framtíðina með sínum óskiptilegu sjóðum, og þó að kaupfélögunum verði leyft að vera laus við það að vera lögbundin til að leggja árlega í varasjóð, þá draga þau sjálfsagt ekkert af sér eftirleiðis við slíka uppbyggingu. Sá reginmunur er á þeim og hinum venjulegu fyrirtækjum öðrum fyrir staðina, sem þau starfa á, að við félagsslit eru allir hinir svokölluðu óskiptilegu sjóðir, allar þær eignir, sem eru ekki séreignir, arfur til héraðsins og til ráðstöfunar á vegum héraðsvalds, en hver einstaklingur og hvert hlutafélag tekur sínar eignir á einhvern hátt með sér, og þær verða ekki almenningseign. Enn fremur ber á það að líta líka, að kaupfélögin eru almenningsfélög, eru opin fyrir alla. Það er reginmunur.

Ég vona, að þegar hv. 11. landsk. athugar þessi mál betur, en hann hefur gert í gegnum þau sjóngler blaðakostsins, sem hann hefur haft, þá sjái hann, að hér er ekki sérstaklega skattamál á ferðinni, heldur réttlætismál, og eins veit ég líka, að hinn hv. þm., sem að minnihlutanál. stendur, á nóga sanngirni til hjá sér til þess að skipta um skoðun í þessu efni.

Það er nefnilega þannig, þetta mál, að enginn getur verið á móti þessu frv. nema sá, sem telur samvinnufélagsskapinn svo ótraustan öllum öðrum félagsskap fremur, að skylda þurfi hann einan með landslögum til þess að leggja í varasjóð hjá sér.

Þannig er málið, þegar það er krufið og þegar á það er litið með fullum skilningi, eins og við samvinnumenn höfum skilyrði til að líta á þetta.