12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

5. mál, tollskrá o. fl

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki of mikið sagt, að tollgæzla, t.d. hér í Reykjavík, er illframkvæmanleg, — ég segi: það er ekki of mikið sagt, að hún sé illframkvæmanleg við þann húsakost, sem hún hefur að búa. Ég fer ekki út í að lýsa, í hverju vandkvæðin eru fólgin, en það hefur stundum verið gert ýtarlega hér á hv. Alþ. En það er í stuttu máli þannig, að tollgæzlan hefur ekkert eigið húsnæði fyrir vörur og flytja þarf tollvörur stundum langar leiðir eftir götum bæjarins, áður en þær eru tollafgreiddar. Ástandið í þessum efnum er því mjög slæmt og alvarlegt.

Það hefur undanfarin ár oft komið til greina að veita fé til þess að byrja að eignast eitthvað til að bæta úr þessu, og loks varð samkomulag um það eftir margra ára þóf hér á hv. Alþ. að ætla 1% álag á þá tolla, sem greindir eru í þessu lagafrv., til þess að standa undir framkvæmdum í þessa átt. Ég held satt að segja, að enginn, sem kynnir sér þetta, geti dregið í efa, að endurbætur eru bráðnauðsynlegar, að ekki sé fastar kveðið að orði.

Nú leggur þessi hv. þm. til, að þetta verði fellt niður. Það mundi þá þýða, að annaðhvort yrði alveg hætt við að safna fé til þess að bæta úr þessu eða þá að bæta yrði tilsvarandi fjárhæð á fjárl. og glíma þá við það þar aftur, hvernig ætti að mæta því.

Ég vil alveg eindregið skora á hv. þdm. að fella þessa till. og halda sér við það, sem ákveðið hefur verið hér áður á hv. Alþ. og er tvímælalaust skynsamleg lausn á þessu máli, enda er mér kunnugt um, að sumar þjóðir, t.d. Svíar, hafa leyst einmitt þessi vandkvæði sín nákvæmlega á sama hátt og byrjað var á hér með lagasetningu þeirri, sem þessi hv. þm. vilja nú afnema. Ég vil því eindregið mæla í gegn till.