28.03.1958
Efri deild: 75. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

164. mál, sala áfengis, tóbaks o. fl.

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Um alllangt skeið hefur flugmálastjórnin annazt rekstur almenns flugs á Keflavíkurflugvelli. Hefur starfsemin aðallega verið fólgin í því, að erlendar flugvélar hafa haft þar viðkomu á ferðum sínum á milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Eins og kunnugt er, fer millilandaflug íslenzkra flugfélaga fram um Reykjavíkurflugvöll, og innanlandsflugið fer einnig fram um Reykjavíkurflugvöll. Íslenzkar flugvélar koma ekki við á Keflavíkurflugvelli, nema alveg sérstaklega standi á í Reykjavík, að þar sé ekki hægt að lenda vegna veðurskilyrða eða flugvélar geti ekki tekið þann benzínforða með sér, þegar þær fara frá Reykjavíkurflugvelli, sem nauðsynlegur er til millilandaflugsins, og þurfi því að koma við á Keflavíkurflugvelli til að taka þar benzín.

Keflavíkurflugvöllur má því heita svo til algerlega eingöngu rekinn sem millilendingarflugvöllur fyrir erlendar flugvélar á ferðum þeirra yfir Atlantshaf.

Íslenzka flugmálastjórnin hefur orðið að byggja upp mjög víðtæka og kostnaðarsama flugþjónustu á Keflavikurflugvelli til þess að geta leyst af höndum þá þjónustu, sem óhjákvæmileg er, til þess að hægt sé að starfrækja flugið þar þannig, að forsvaranlegt geti talizt. Er þetta mjög kostnaðarsamur rekstur, eins og hv. þm. er kunnugt, bæði af fjárlögum og eins úr ríkisreikningunum. Hins vegar hefur umferðin um Keflavikurflugvöll verið mjög mikil, þannig að umferðin hefur fullkomlega staðið undir rekstrarkostnaðinum þar og að jafnaði gefið verulegan tekjuafgang á hverju ári, sem notaður hefur verið til þess að byggja upp innlenda flugvelli hingað og þangað um landið.

Mönnum var það ljóst þegar fyrir allmörgum árum, að Keflavíkurflugvöllur mundi eiga þess að vænta í framtíðinni, að aðrir flugvellir, sem kæmu til greina sem millilendingarflugvellir á ferðunum yfir Atlantshafið, gætu orðið honum allskeinuhættir í samkeppninni um það að ná til sín lendingum. Það eru mörg ár síðan flugmálastjóri ritaði ríkisstj. Íslands bréf, þar sem hann benti á, að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir á Keflavíkurflugvelli til þess að bæta þar aðstöðuna þannig, að við yrðum ekki undir í samkeppninni við erlenda flugvelli. Bent var á ýmislegt, sem gera þyrfti, og hefur verið unnið að því, svo sem frekast hefur verið hægt, um mörg ár að bæta þarna alla aðstöðu og allan aðbúnað, til þess að hægt væri að bjóða sem allra fullkomnasta þjónustu,

Eitt af því, sem flugmálastjórinn benti á, á sínum tíma og ekkert hefur verið gert í til þessa er, að þeir erlendir flugvellir, sem við okkur keppa um þessa þjónustu, hafa gert ráðstafanir til þess að setja upp sérstakar verzlanir á flugvöllunum, sem hefðu á boðstólum vörur með lágum eða litlum tollum, sett yrði upp eins konar fríhöfn, þar sem áhafnir flugvélanna og þeir farþegar, sem eingöngu hafa þar viðdvöl, á meðan flugvél er afgreidd, gætu fengið vörur keyptar með lágu verði og litlum tollum.

Það er sérstaklega Shannonflugvöllur í Írlandi, sem fyrir allmörgum árum síðan gerði ráðstafanir til að koma upp slíkri tollfrjálsri verzlun. Á flugvellinum þar er á boðstólum hvers konar varningur, sem flugfarþegar og áhafnir flugvéla, sem eingöngu eru í gegnumflugi, geta fengið keypt ótollað.

Á Shannonflugvelli er til sölu áfengi og tóbak með mjög lágu verði, sömuleiðis úr, parfume, vefnaðarvara, fatnaður og annað þess háttar.

Ég hef sjálfur átt þess kost einu sinni, þegar ég átti leið þarna um, að dveljast í þessari verzlun um nokkurn tíma og sjá það, sem þar fór fram. Farþegarnir flykktust þarna inn ásamt áhöfnunum og gerðu mikla verzlun, og það var auðséð, að það var almennur áhugi, bæði hjá farþegum, sem voru þarna á ferð, og eins hjá áhöfnum flugvéla, sem þarna dvöldust.

Þetta hefur leitt til þess, að flugvélar leita mjög lendingar á Shannonflugvelli og að sama skapi hefur dregið úr lendingum flugvéla á Keflavíkurflugvelli á ferðum þeirra fram og til baka yfir Atlantshafið.

Áhafnir flugvélanna, sérstaklega kapteinar þeirra, ráða miklu um það, þegar ferð flugvélarinnar vestur eða austur um Atlantshaf er ákveðin, hvort viðkoma er höfð á Keflavíkurflugvelli eða Shannonflugvelli, og ég heyrði það á viðtölum, sem ég átti við áhafnir á flugvélum, sem staddar voru á Shannonflugvelli, þegar ég var þar, að áhafnir flugvélanna beita sér mjög fyrir því, að vélarnar lendi frekar á Shannon, en í Reykjavík, bæði vegna þess að áhafnirnar hafa sjálfar áhuga fyrir því að gera þarna góða verzlun og þær vita, að farþegarnir kjósa frekar að lenda á flugvelli, þar sem þeir geta notið slíkra hlunninda, heldur en lenda á velli, sem ekki hefur upp á neitt slíkt að bjóða.

Reikningar flugmálastjórnarinnar sýna greinilega, að á seinni tímum hefur lendingum mjög fækkað á Keflavíkurflugvelli og tekjur flugvallarins því farið stórlækkandi, þannig að nú eru horfur á því, að flugvöllurinn muni ekki gera meira en svo að geta staðið undir rekstri sínum og lítið eða ekkert verða afgangs, sem hægt er að nota til byggingar flugvalla úti um land, eins og verið hefur áður, og má búast við því, ef svo heldur áfram sem nú horfir, að jafnvel geti orðið um rekstrarhalla að ræða þarna vegna fækkandi lendinga. Ég hef því að undanförnu látið athuga möguleikana á því að búa áhöfnum og farþegum flugvéla, sem leið eiga um Keflavíkurflugvöll, þá aðstöðu á flugvellinum, meðan þeir dveljast þar, sem líkist sem mest því, sem er á öðrum flugvöllum, sérstaklega Shannonflugvelli, og mér er kunnugt um að þetta fólk sækist mjög eftir.

Það, sem hægt er að gera á þessu stigi málsins, er að reyna að koma þarna upp verzlun, sem hefur á boðstólum áfengi og tóbak, sem selt er með sambærilegum hætti og gert er á þeim erlendu flugvöllum, sem við keppum við á þessum sviðum.

Lengra virðist ekki tiltækilegt að ganga í bili. En athugun og reynsla á hinum erlendu flugvöllum hefur sýnt, að það er einmitt þetta tvennt, áfengið og tóbakið, sem fyrst og fremst dregur hinar erlendu flugvélar að flugvöllunum og gerir þá eftirsóknarverða, þannig að ef við gætum komið svipaðri starfsemi upp hér hjá okkur, þá gætum við gert okkur vonir um að standa betur að vígi í samkeppninni við þá flugvelli, sem við keppum við, heldur en við gerum nú.

Ég hef ekki viljað fara af stað með þetta frv., fyrr en ég var búinn að tryggja, að hægt væri að skapa þannig aðstöðu á Keflavíkurflugvelli, að algerlega væri hægt að loka þá farþega og þær flugáhafnir, sem leið eiga um Keflavíkurflugvöll, af í sjálfri flugvallarbyggingunni frá öðrum, er þar dveljast, þannig að útilokað væri, að þeir gætu haft samband við landsmenn. Ég vildi ekki fara af stað með málið, fyrr en ég hafði það algerlega tryggt, að engin hætta væri á því, að þetta gæti verið misnotað, þannig að hægt væri að koma víni eða tóbaki inn í landið til landsmanna úr þessari fríverzlun, sem talað er um að reyna að koma þarna á stofn. Hefur nú verið þannig frá málinu gengið, að það er hægt að loka algerlega af þann hluta flugstöðvarinnar, sem þessir erlendu farþegar hafast við i, á meðan þeir dveljast hér, og hægt er að tryggja, að misnotkun á þessum hlutum, á ekki að geta átt sér stað.

Ég hef í höndum ýmsar grg. og upplýsingar í sambandi við þetta mál og fyrirkomulag í sambandi við þessa hluti á erlendum flugvöllum ásamt bréfum og áskorunum frá flugmálastjóra og flugráði. Ég mun að sjálfsögðu láta þeirri nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, í té allar þessar upplýsingar, ef hún óskar eftir, en að svo stöddu máli sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um frv., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og allshn.