28.03.1958
Efri deild: 75. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

164. mál, sala áfengis, tóbaks o. fl.

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal viðurkenna, að ég átta mig ekki alveg fyrirvaralaust á þessu frv., enda mun því hafa verið útbýtt nú í dag, en ég get ekki neitað því, að mér þykja nokkrar líkur vera til þess, að vafasamt sé, að þessi brennivínsverzlun á Keflavíkurflugvelli verði svo úr garði gerð, að ekki komist þar neinir aðrir að, en erlendir farþegar. Og hvernig verður það með íslenzka farþega, sem kynnu að vera farþegar með þessum erlendu flugvélum? Komast þeir þá heldur ekki inn í króna, sem á að mynda þarna á vellinum?

Það getur vel verið, að þetta sé þýðingarmikið atriði, til þess að draga flugvélar að þessum flugvelli, eins og hæstv. ráðh. sagði. En sannast að segja, þá hélt ég, að Keflavíkurflugvöllur væri svo langt úr leið fyrir flugvélar, að þær færu ekki að fljúga hingað norður undir heimskautsbaug aðeins til þess, að farþegar geti fengið sér vin. Ég hélt, að það giltu önnur lögmál um það, hvar flugvélum væri hentast að lenda eða hafa viðkomustaði, heldur en þetta. Auk þess hygg ég, að áfengissala eigi sér stað í flugvélunum sjálfum, eða svo hefur mér virzt í þeim flugvélum, sem ég hef farið með á milli landa, og mér kemur þetta ókunnuglega fyrir sjónir, þótt ég hins vegar vilji ekki vera að rengja hæstv. ráðh. um, að þetta kunni að hafa þessa þýðingu, en merkilegt þykir mér það samt. En eitt stærsta atriðið í þessu máli sýnist mér þó vera það, sem hæstv. ráðh. að vísu vék að, hvernig það verði tryggt, að ekki hefjist þarna dulbúin viðskipti við aðra aðila, en þessa erlendu farþega, og það hefur oft verið svo, þótt vel hafi átt að búa um hlutina í fyrstu, að það hefur ekki reynzt eins öruggt, þegar til framkvæmdanna hefur komið, og getur á sama veg farið um þetta.

Mér sýnist, að aðaltilgangurinn sé aðeins sá að veita farþegum þjónustu. Þetta er ekki gert í tekjuöflunarskyni fyrir ríkissjóð, virðist mér, því að vínið á að vera tollfrjálst. Eða er þá nokkur hagnaður af því fyrir íslenzka ríkið að koma upp þessari nýtízku búð eða þessari nýtízku kró á Keflavíkurflugvelli annar, en sá að veita þessum erlendu farþegum þjónustu? Mér þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. gæti sannfært mig um það, að þetta eitt geti virkilega haft það í för með sér að draga erlendar flugvélar hingað til Íslands til viðkomu, að slík verzlun hafi þennan undramátt. Að vísu þekki ég ekki eins vel og sumir aðrir undramátt þessarar vöru. En að hann sé svona mikill, hélt ég alls ekki. En sérstaklega vildi ég leggja áherzlu á þetta við þá nefnd, sem fær þetta mál til athugunar. (PZ: Þú ert sjálfur í henni.) Ég í henni? Ég er alls ekki í þeirri nefnd, — eða á það að koma til landbn. eða hvað? Ef því verður vísað til menntmn., þá get ég náttúrlega athugað þetta þar, en ég vil víkja því til hv. n., sem kann að fá þetta frv. til athugunar, að hún gefi því fyllstu gætur, hvort hér sé verið að opna einhvers konar verzlun, sem jafnvel almenningur, og þótt ekki væri almenningur, heldur einhverjir Íslendingar geta runnið í, þegar þeim liggur á, og jafnframt vildi ég vekja athygli n. á því, hvort ákvæði frv. ná aðeins til erlendra manna, en ekki til innlendra, sem kynnu að vera farþegar í þessum sömu flugvélum.