12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

5. mál, tollskrá o. fl

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vefengja, að mikil þörf sé á því að byggja nýjar tollstöðvar í landinu og bæta aðstöðu tollgæzlunnar. En því fer fjarri, að tollgæzlan sé eina löggæzlan, sem býr við óviðunandi húsnæði. Það er ekki vafi á, að löggæzlan á einnig við mjög mikla erfiðleika að etja í þessum efnum.

Í tíð fyrrv. ríkisstj. var hafin athugun á því, að hve miklu leyti hægt væri að samræma tollgæzlu og venjulega löggæzlu umfram það, sem verið hefur undanfarin ár. Augljóst mál er, að úti um land hlýtur slíkt að vera til stóraukins hagræðis. Þar er oft ekki við að gera fullkominn tollþjón á tilteknum stað og ekki lögregluþjón, er eingöngu sinni þeim störfum. Hins vegar mundi maður, er bæði störfin hefði með höndum, vinna fyrir sínu brauði fyllilega og koma íbúunum og ríkisvaldinu að miklu meira gagni. Ég tel því, að framtíðin hljóti að leiða til nánara samstarfs þessara tveggja aðila löggæzlunnar, fyrst og fremst úti um land, en einnig að verulegu leyti í Reykjavík.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og benti á það, meðan ég var í ríkisstj., að ýmsir þeir gallar, sem nú eru á tollgæzlunni, stafi af því, að sömu mennirnir hafa um of verið bundnir við sams konar störf á sama stað. Þessu eru kostir fylgjandi, en einnig auðsæir gallar, sem ekki þarf að ræða um. Eins og til háttar í mannfæð hér á landi, er mjög erfitt að bæta úr þessu nema með því að sameina störfin annarri starfsgrein, þannig að hægt sé að víxla á mönnum meira, en hægt er að gera í þeim þrönga starfsmannahóp, sem hingað til hefur tilheyrt tollgæzlunni, án þess að ég þar með segi, að þeir séu allt of fáir, sem því starfi hafa gegnt. Ég tel því, að til þess muni leiða fyrr eða síðar á einn eða annan veg, að nánari samvinna verði tekin upp einnig hér í Reykjavík og í þéttbýlinu milli löggæzlu og tollgæzlu, en verið hefur nú um alllanga hríð. Þegar af þeirri ástæðu tel ég, að það sé hið mesta óráð að ráða til lykta og taka til ákvörðunar fyrirkomulag tollstöðvabygginga um allt land, án þess að íhugað sé samtímis, hvernig bættur verði húsakostur lögreglunnar og bætt úr þeim allsendis óviðunandi skilyrðum, sem löggæzlan á nú víðs vegar, við að stríða.

Í Reykjavík er ástandið slíkt sem við vitum, að fyrir löngu hefur verið sýnt fram á, að húsakostur lögreglunnar, núverandi lögreglustöð, væri nánast óhæfilegur og sérstaklega aðbúð fanga, þar með öllu ósæmileg. Á þessu hefur ekki tekizt að ráða bætur. Það er ekki vegna viljaskorts lögreglustjóra eða yfirmanns lögreglunnar né viljaskorts dómsmálastjórnarinnar, hvorki hæstv. dómsmrh. né fyrrverandi manna í þeirri stöðu, heldur vegna þess, að fjárveitingar hafa ekki fengizt til þess hér á Alþingi. Þar eiga hlut að allir þm., sem í mismunandi flokkum og flokkasamsteypum hafa aldrei fengizt til þess að veita nógsamlegt fé til þess að bæta úr þessu þrátt fyrir tilraunir af hálfu dómsmálastjórnarinnar. Það hefur komið í hlut hæstv. núv. fjmrh. að veita þar frekar andstöðu, en flestra annarra. Ég segi ekki, að það sé af sérstökum skilningsskorti hans á þessum efnum, heldur vegna þess að hann hefur talið, að aðrar þarfir yrðu þar að ganga á undan, En þetta leiðir til þess og hefur leitt, að lögreglan á við óhæfilegan aðbúnað að búa hér í bæ, bæði varðandi sín eigin starfsskilyrði og varðandi möguleika til að geyma fanga.

Og þá komum við að því atriði, sem ekki má heldur gleyma í þessu sambandi, að fangelsakosturinn í landinu er allsendis ófullnægjandi. Um það bil sem núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, var verið að framkvæma allrækilegar umbætur á aðalfangelsi landsins fyrir austan fjall. Af þeim sökum var húsið í mjög lélegu ástandi. Tækifærið var notað til þess af skjólstæðingum núverandi hæstv. ríkisstj. að útbásúna sem allra mest hið lélega ástand, sem fangelsismálin væru í, og því mjög hampað, að læsingar og annar aðbúnaður væri þar ekki nógu góður. Það má segja, að allt, sem um þetta var sagt, var út af fyrir sig rétt. Húsakosturinn var ekki góður og leit enn þá verr út, en ella vegna þess, að víðtæk aðgerð átti sér stað, einmitt þegar þessi furðulega úttekt átti sér stað, sem núverandi stjórnarblöð hömpuðu svo mjög á sínum tíma. En því meiri athygli hlaut það að vekja, að eftir að viðgerðunum var lokið, sem þegar voru ákveðnar, áður en hæstv. núv. ríkisstj, tók við, og þær viðbótarumbætur, sem gerðar voru að tilhlutan núv. hæstv. ríkisstj., þá var eitt það fyrsta, sem heyrðist frá fangelsinu, að fangar brutust þar út með ekki minni léttleik, en þeir höfðu gert áður. Þeir sýndust þar geta gengið út og inn alveg eins og þá lysti þrátt fyrir þær kostnaðarsömu og mjög umtöluðu umbætur, sem hæstv. ríkisstj. vildi þakka sér, en að verulegu leyti hafði verið stofnað til fyrir hennar daga.

Það er mjög athyglisvert fyrir hæstv. alþm. og hæstv. ríkisstj. að íhuga þetta, vegna þess að það sýnir og sannar þá staðreynd, sem vituð hefur verið, að Litla-Hraun er ekki byggt sem fangelsi í upphafi, hefur ætíð verið af vanefnum, og ef menn hugsa sér algerlega mannhelt fangelsi, þannig að erfitt verði þaðan að strjúka, þá er vitanlegt, að sú bygging mundi aldrei nægja. Hitt er svo annað mál, að á undanförnum áratugum hafa menn hallazt að því, að ekki gerði svo mikið til, þó að við hefðum ekki slíka algerlega mannhelda eða fangahelda geymslu. Við höfum hneigzt frekar að frjálsræði og því að ætla föngum að vinna og stunda venjuleg störf, heldur en að hafa þá innilokaða í stórum fangelsum, eins og sérstaklega tíðkast í því landi, sem hæstv. forseti þessarar d. og félmrh. nýlega voru í heimsókn í, og öðrum slíkum stöðum. Við höfum minni trú á þeim tiltektum yfirleitt, landsmenn, heldur en þeir veizluveitendur, sem hæstv. forseti nýlega sat að borði með. En þó að við teljum, að slíkt allsherjar fangelsi sé ekki allra meina bót, verður að játa, að fangelsiskosturinn nú er ófullnægjandi, og það er vegna þess, að menn hafa ekki treyst sér til að verja nógu fé í þessu skyni. Einnig þar á hæstv. núv. fjmrh. sinn hlut. Hann hefur talið, sumpart af skiljanlegum ástæðum, að aðrar þarfir væru meir aðkallandi, og þess vegna hygg ég, að það væri mjög gott, að Alþ. ráðstafaði þessum málum, án þess að þurfa að sækja undir högg hjá honum hverju sinni með því að ætla nokkurt fast fé til umbóta í þessum efnum.

Ég vil því leyfa mér að bera fram svo hljóðandi brtt. og mælast til þess, að veitt verði afbrigði fyrir henni, að inn í síðustu setningu síðustu málsgr. 1. gr. bætist á eftir orðunum „til byggingar tollstöðva“: lögreglustöðva og endurbóta á fangelsum, — þannig að því fé, sem þannig er ráðstafað, verði einnig varið í þessum mjög þarfa tilgangi, sem ég hef nú gert grein fyrir. Ef hæstv. fjmrh., sem ég veit að í hjarta sínu hefur skilning á þeirri nauðsyn, sem hér er um að ræða, telur, að sú prósenta, sem í lögunum er áskilin, sé ekki fullnægjandi, mundi ég fyrir mitt leyti geta verið því meðmæltur, að öðru prósenti væri bætt við til þess að bæta úr þessari þörf. En áður en ég ber fram till. um það, vildi ég heyra skoðun hæstv. ráðh. á þessu nauðsynjamáli og afhendi hæstv, forseta tillöguna.