19.05.1958
Neðri deild: 100. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

164. mál, sala áfengis, tóbaks o. fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 508 með fyrirvara. Ég vil ekki synja hæstv. ríkisstj. um heimild til þess að koma upp þeim útsölum á flugvöllum, sem hér er um að ræða, og með þeim hætti, sem þar er gert ráð fyrir. En hins vegar vildi ég leggja áherzlu á það nú, við meðferð málsins, að þessi heimild, ef að lögum verður, verði ekki notuð, nema mjög traustlega sé um það búið, að ekki verði slys af. En eins og kunnugt er, þá er alltaf mikill vandi að gæta hátollavarnings, sem ekki hefur verið greiddur tollur af, og því þykir mér ástæða til þess að láta þessi varnaðarorð fylgja.

Í öðru lagi get ég raunar sagt það, að ég taldi mig ekki hafa aðstöðu til þess að meta það, hvort verða mundi verulegt gagn af því fyrir rekstur flugvallanna að veita þessa heimild, en þar sem frv. er fram komið, vildi ég þó ekki standa gegn því, að þessi heimild yrði veitt, og hef mælt með frv. ásamt öðrum nm., en skrifa undir nál. með þessum fyrirvara. Ég mun hins vegar greiða atkv. með brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 521.