12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

5. mál, tollskrá o. fl

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég kvaddi mér hljóðs til þess að óska þess, að menn felldu þá tillögu, sem hv, 1. þm. Reykv. (BBen) ber fram. Ég álit, að það veiti sízt af því fé, sem þarna er gert ráð fyrir, til þess að byggja tollbúðir, og er því mótfallinn því, að þar sé hengt aftan í nokkuð annað.

Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið, að það hefði fallið meira í minn hlut, en annarra að standa á móti fjárveitingu til hæfilegrar lögreglustöðvar og fangahúss. Hann sagði, að ástæðan til þess, að ekki hefði verið veitt meira fé til þessara bygginga á undanförnum árum, en raun er á, væri sjálfsagt sú, að menn hefðu talið nauðsynlegt, að annað sæti fyrir. Ég veit ekki til þess, að fjárveitingavald hér á Alþingi hafi á undanförnum árum verið í mínum höndum. En eitt veit ég. Það er enginn hörgull á mönnum, sem vilja þakka sér það, sem samþykkt var af framförum og var þá látið sitja fyrir byggingu lögreglustöðva og fangahúsa. Það er enginn hörgull á mönnum, sem vilja þakka sér, að þetta eða hitt var samþykkt og þá látið sitja fyrir því að verja fé til fangahúsa og lögreglustöðva.

En ég vil sem sagt, þó að ég dragi það ekki í efa, að það sé mikil þörf á því að bæta húsakynni löggæzlunnar, ekki vera meðmæltur því, að því máli, verði blandað inn í þetta mál.

Loks vil ég svo aðeins benda á, að dálítils ósamræmis gætir nú í þessu, því að sumpart er mælt með því að fella þessa prósentu niður, af því að það sé ekki eðlilegt að ætla hluta af ríkistekjunum í ákveðnu skyni, án þess að það komi inn á fjárlögin, en sumpart er því haldið fram, og það kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv., að það væri gott, að Alþingi ráðstafaði með þessu móti nokkru fé einmitt á þennan hátt, án þess að eiga undir högg hjá mér að sækja um það. Ég skil nú satt að segja ekki almennilega, hvað hv, 1. þm. Reykv. er að fara með þessu. Mér skilst, að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi, hvort sem ákvæðin eru í fjárlögum eða einstökum lagafrumvörpum. Og ef ég ætti að teljast einhver sérstakur þröskuldur fyrir slíkum málum, þá væri það kannske ekkert einkennilegt, þó að það kæmi fram allt að einu í sambandi við meðferð lagafrv. eins og fjárlaganna.