25.02.1958
Neðri deild: 56. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki nema að litlu leyti blanda mér inn í þær almennu umræður, sem þegar hafa átt sér stað um þetta mál hér og sérstaklega komu nú fram í ýmsum almennum sjónarmiðum hv. 3. þm. Reykv., sem eru vissulega töluvert gagnstæð öðrum almennum sjónarmiðum, sem fram voru sett af hæstv. fjmrh. En það eru þó nokkur önnur almenn sjónarmið, sem ég vil víkja að á þessu stigi málsins. Hins vegar mun ég ekki nú að neinu ræða einstök atriði eða efni þessa frv. við 1. umr. og tel eðlilegra, að slíkar umræður fari fram eftir athugun málsins í nefnd. Reynsla mín er öll í þá átt, að það séu fá mál sem skattamál að því leyti, hversu mikla athugun þarf við að hafa, áður en gengið er annaðhvort frá breytingum á skattalögunum eða nýmæli í þeim efnum. Og hefur það æ komið fram, t.d. undir meðferð mála hér á þinginu og í nefndum, að eftir á hefur komið í ljós, að í raun og veru var ýmist gengið að einhverju leyti í aðrar áttir, en menn gerðu ráð fyrir eða a.m.k. með öðru móti, og þarf af þessum sökum að hafa sérstaka varúð við og hafa samráð við sérfræðinga og kunnáttumenn í þessum efnum, áður en Alþingi gengur endanlega frá breytingum eða nýmælum, eins og hér er um að ræða.

Ég vil hins vegar minnast á þann aðdraganda, sem hefur verið að þessu máli og ekki hefur komið fram í umræðunum hér, að það var samþykkt hér á þingi 1951 þáltill. sjálfstæðismanna um heildarendurskoðun á skattalöggjöfinni og tekjuskiptingu og verkaskiptingu ríkisins og bæjar- og sveitarfélaga. Þessi þál. var að vísu ekki löng, og vildi ég mega leyfa mér að vitna til hennar, með leyfi forseta, en hún var á þessa leið:

„Alþingi ályktar að beina þeirri áskorun til ríkisstj., að hún beiti sér fyrir heildarendurskoðun laga um skatta og útsvör, sem stefni að því, að lögfest verði heilsteypt kerfi skattamála, sem byggist á eðlilegri og samræmdri tekju- og verkaskiptingu ríkisins annars vegar og bæjar- og sveitarfélaga hins vegar. Sé jafnframt við það miðað að ofþyngja ekki einstaklingum, hjónum, félögum og atvinnurekstri í opinberum gjöldum, tryggt samræmi og jafnrétti við álagningu gjaldanna, sem mundi auðvelda eftirlit með því, að framtöl séu rétt. Lögð skal einnig áherzla á að gera skattalöggjöfina svo einfalda og auðvelda í framkvæmd sem frekast er unnt. Rannsókn og undirbúningi málsins sé hraðað svo, að ríkisstjórnin leggi frumvarp til laga um málið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Þetta var sem sagt samþykkt 1951, og nú er 1958, og við erum enn með þó aðeins eina grein af endurskoðun skattalöggjafarinnar, sem ályktað var fyrir sjö árum að láta fram fara heildarendurskoðun á.

Þegar ríkisstj. var mynduð að loknum alþingiskosningum 1953 undir forsæti sjálfstæðismanna, var það eitt af atriðunum, sem tekin voru upp í stjórnarsamninginn, að ganga frá heildarendurskoðun skattalöggjafarinnar. Þá hafði starfað mþn. og hélt áfram störfum við endurskoðun skattalöggjafarinnar. Ég vil telja það mjög miður, að lagzt skuli hafa niður starfsemi mþn., því að mér er ekki kunnugt um annað, en hún hafi á vissu stigi málsins lagzt niður, því að ég tel, að þá hafi ekki verið nema litlum þætti þeirrar endurskoðunar lokið, sem ályktað var 1951 að framkvæma. Og við endurskoðun slíkrar löggjafar er mjög nauðsynlegt að starfi á milli þinga sérstakar nefndir með þeirri aðstoð sérfræðinga, sem bezt er völ á, og hefði átt að halda því áfram.

Ég held ég fari rétt með, að það muni hafa verið komið alllangt á veg síðari hluta árs eða haustið 1955 varðandi till. innan mþn. um einmitt skattlagningu félaga, en þá hafi hins vegar upp úr slitnað af nokkuð sérstökum ástæðum, eins og ég geri ráð fyrir að menn reki minni til, m.a. vegna deilumála, sem þá voru uppi um skattlagningu á samvinnufélögin og Samband ísl. samvinnufélaga sérstaklega og rétt m.a. sveitarfélaga til útsvarsálagningar á þau, og veit ég ekki, hvort eftir þennan tíma hefur nokkuð verið unnið í mþn. að lausn þessara mála. Nú er mér ekki kunnugt um, að hve miklu leyti þær till., sem hér eru lagðar fram, eru að miklu eða litlu leyti í samræmi við niðurstöður, sem þá voru fengnar, en ég tel, að það sé mjög fróðlegt að athuga það og að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, eigi einmitt að hagnýta sér þá athugun og rannsókn málsins, sem þegar hafði farið fram í mþn., þegar hún gengur frá þessu máli.

Ég sagði áðan, að nú eftir 7 ár, frá því að þessi samþykkt var gerð á Alþingi um heildarendurskoðun skattalöggjafarinnar, væri lagt fram frv. um einn þáttinn, þ.e.a.s. sérstaklega um skattlagningu félaga, auk þess sem ýmis önnur einstök og sérstök ákvæði eru í þessu frv., svo sem hv. þingmönnum er ljóst, bæði varðandi eignarskatt, skattfrádrátt sjómanna og nýmæli einhver um skattlagningu hjóna, þó að það séu ekki nein grundvallaratriði, sem þar er um að ræða.

En þá er annar meginþáttur endurskoðunar um skattalöggjöfina eftir, og það er sá þáttur, sem snýr að bæjar- og sveitarfélögunum, og vil ég nota þetta tækifæri við 1. umr. málsins til þess að vekja athygli á því.

Bæjar- og sveitarfélögin hafa í vaxandi mæli á undanförnum árum, eins og nokkuð hefur verið vikið hér að, verið í örðugleikum varðandi tekjuöflun sína til þess að standa undir þeim margvíslegu útgjöldum, sem bæjar- og sveitarfélögin hafa haft, ekki aðeins útgjöldum, sem þau hafa sjálf ákveðið að ráðast í og óhjákvæmilega orðið sjálf að taka ákvarðanir um, heldur einnig útgjöldum, sem löggjafarvaldið hefur lagt á þessa aðila. Þess vegna hafa verið uppi raddir um það hér á þingi fyrr og síðar og margvíslegar áskoranir hafa borizt Alþ. frá þingum bæjar- og sveitarfélaganna, að það mætti ekki dragast að rétta hlut bæjar- og sveitarfélaganna, annaðhvort með þeim hætti, að þeim yrðu af löggjöfinni ákveðnir nýir og auknir tekjustofnar, miðað við það, sem verið hefur, eða þá að ríkið sjálft taki að einhverju leyti að sér þau útgjöld, sem það á undanförnum árum með löggjöf frá Alþingi hefur lagt á bæjar- og sveitarfélögin. Og ég minni á, að fyrir hv. Alþ. nú liggur frv. frá hv. 6. þm. Reykv., Gunnari Thoroddsen borgarstjóra, um hluta sveitarfélaga af söluskatti, og er það frv., sem nú er flutt í annað sinn og var flutt í fyrsta skipti á s.l. þingi, um það, að bæjar- og sveitarfélögin fái tiltekinn hluta af söluskatti til ríkissjóðs, meðan hann er á lagður eða svipaður skattur og hann hefur verið, og að þessi tiltekni hluti, sem bæjar- og sveitarfélögunum sé ætlaður af söluskattinum, renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna og síðan útdeilt á milli bæjar- og sveitarfélaganna eftir nánar tilteknum reglum. Þetta mál mun hafa verið rætt á ráðstefnum og fundum bæjarstjóra og Sambands ísl. sveitarfélaga og eiga rætur sínar að rekja til ályktana, sem þar hafa verið gerðar um þetta mál og byggzt hafa á nauðsyn sveitarfélaganna. Ég held, að hvað sem líður þeim breytingum, sem hér eru lagðar til á tekjuskattslöggjöfinni, þá verði ekki til lengdar umflúið að taka til alvarlegrar meðferðar aðstöðu bæjar- og sveitarfélaganna. Ég skal ekki fjölyrða um þetta eða hafa um þetta fleiri orð nú. Alþingi gefst aðstaða til að taka afstöðu til frv. þess, sem ég vék að áðan og flutt er af hv. 6. þm. Reykv. En þetta mál er miklu alvarlegra og meira virði en svo, að það verði afgreitt með einhverjum nánast að segja barnalegum og alvörulausum staðhæfingum um útsvarsálagningu sveitar- og bæjarfélaganna, eins og fram komu hér áðan hjá hæstv. fjmrh. Hann var hógvær í sinni ræðu fyrst í stað og talaði efnislega um þetta mál. Síðan breytti nokkuð um tón, og það var greinilegt, að þá var hæstv. ráðh. hættur að tala fyrir þingmennina, heldur var hann þá farinn að gefa tóninn fyrir Tímann, farinn að gefa tóninn varðandi það, sem ætti að koma í málgagni Framsfl. daginn eftir, og þá skipti alveg um, enda var þá hæstv. ráðh. genginn svo langt, að hann vildi leiða það af ummælum hv. 2. þm. Reykv. hér, að hann hefði í raun og veru gefið yfirlýsingu um, að það þýddi ekki að breyta skattalöggjöfinni, meðan Sjálfstfl. fengi að leika lausum hala í Reykjavík eða í stjórn bæjarmálefna í Reykjavík.

Ég held nú ekki, að hæstv. fjmrh. ætti að tala svona, meðan ekki er lengra liðið frá úrslitum bæjarstjórnarkosninga hér í Reykjavík, en raun ber vitni um, sem skýrt bera það með sér, að Reykvíkingar eru ekkert hræddir við að fela sjálfstæðismönnum meirihlutaaðstöðu og vaxandi áhrif og völd í stjórn sinna bæjarmálefna. Og það er algerlega úr lausu lofti gripið og strákslegur útúrsnúningur hjá hæstv. ráðh. að leyfa sér að draga þær niðurstöður og ályktanir af ummælum hv. 2. þm. Reykv., sem hann gerði. En varðandi hins vegar útsvörin í Reykjavík, þá vita Reykvíkingar það, enda var það margsinnis sannað í umræðum og blaðaskrifum fyrir bæjarstjórnarkosningarnar, að annars staðar á landinu eru útsvör í bæjar og sveitarfélögum, ekki lægri en hér í Reykjavík. Á þetta ekki aðeins við um það, að útsvörin séu lægri á einstaklingum eða fjölskyldum með tilsvarandi tekjur, hér heldur en annars staðar á landinu, heldur og einnig hitt, að um það, sem atvinnurekstrinum hefur verið örðugast, og það eru veltuútsvörin, þá er það einnig staðreynd, að þau eru bæði og hafa verið lægri hér í Reykjavík, en annars staðar, eða m.ö.o., að það hafa á undanförnum árum verið lögð lægri veltuútsvör prósentvís á hér í Reykjavík, en í öðrum bæjar- og sveitarfélögum. Um þetta liggja fyrir bæði ýtarlegar skýrslur og grg., sem ekki verða hraktar.

Loksins vil ég leiðrétta nokkuð það, sem hæstv. fjmrh. talaði hér um stóreignaskattinn og skaut inn í þetta mál, en snertir í sjálfu sér ekki málið sjálft, að sjálfstæðismenn hefðu haft forgöngu um að leggja á stóreignaskattinn 1950 með lögunum um gengisbreytingu o.fl. En í því efni verða menn að hafa í huga og minnast þess, að ég man ekki betur, en sá skattur kæmi þá í staðinn fyrir annan skatt, sem áður hafði verið ákvarðaður og ég held að hafi verið eignaraukaskatturinn í stjórnartíð fyrstu stjórnar Alþýðuflokksins á Íslandi, svo að forgangan að þessu leyti hafi ekki þá komið til, heldur tók þessi skattheimta við af annarri skattheimtu, sem lögfest hafði verið, en ekki var búið að framkvæma, og framkvæmd hennar féll niður. Stóreignaskatturinn á þeim tíma var þess vegna á margan hátt allt annars eðlis, en sá stóreignaskattur, sem lagður var á af núverandi hæstv. ríkisstj., bæði vegna þess, að í eðli sínu tekur hann við af skatti, sem ætlaður var á eignaraukningu, sem átt hafði sér stað á stríðsárunum og upp úr stríðsárunum, á þeim tíma, sem hvað mest umrót hafði verið í efnahagslífi landsmanna, og að öðru leyti var þessi skattur í sambandi við ýmsar aðrar veigamiklar ráðstafanir í atvinnulífinu og efnahagslífinu, sem fyrst og fremst miðuðu að því, eins og gengisbreytingin, að skjóta stoðum undir útflutningsframleiðslu og atvinnurekstur landsmanna. Engu slíku var til að jafna, þegar stóreignaskatturinn var á lagður í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. Að einu leyti enn má segja, að hann hafi þá tæplega heldur verið tímabær, vegna þess að, að verulegu leyti er enn ógreiddur sá stóreignaskattur, sem lagður var á með löggjöfinni 1950 og átti vist að greiðast þá eins og nú á næstu tíu árum.

Ég vil svo að lokum um þetta mál segja, að ég geri ráð fyrir því þegar á þessu stigi málsins, að ýmis ákvæði þess séu til bóta. Það er ástæða til þess að fagna því, að hér er gerð nokkur breyting á skattlagningu hjóna, og höfum við sjálfstæðismenn borið hvað eftir annað fram tillögur um það á undanförnum þingum í ýmsu formi og þó sérstaklega og nú upp á síðkastið um það, að tekin væri upp sérsköttun hjóna. Enda þótt það sé ekki gert með þessu frv., þá kemur fram í því eða grg, þess, að það mál sé í nánari athugun, og er að vænta, að ekki líði á löngu þangað til á þessu atriði fáist verulegar breytingar frá því, sem verið hefur.

En ég lýk svo máli mínu með því að árétta það, að mál eins og þetta er eðlilegast að ræða í einstökum atriðum, eftir að það hefur fengið þá sérstöku athugun, sem því ber að fá í nefnd, og sérstaklega segi ég þetta einnig vegna þess, að málið mun koma til nefndar, sem ég á sjálfur sæti í.