13.05.1958
Neðri deild: 94. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. tók fram í sinni ræðu, hefur n. ekki orðið sammála um frv. Að vísu erum við í minni hl. n. sammála um eina aðalbreytingu frv., er snertir skattlagningu félaga. Við teljum tvímælalaust til bóta, að skattstiganum sé breytt þannig, að einn skattur sé tekinn, eins og frv. gerir ráð fyrir, 25% af framtöldum tekjum. Þetta teljum við til stórbóta, þrátt fyrir það þó að skatturinn hækki nokkuð á lægri tekjum og lágtekjufélögin, þess vegna beri nokkru þyngri skatt, en ella. Hins vegar er þess að gæta, að um leið og þetta er samþykkt, er afnuminn stríðsgróðaskatturinn, sem staðið hefur nú í mörg ár og hefur verið hindrun fyrir því, að nokkur stærri rekstur gæti þrifizt í landinu, vegna þess að eftir að félög komast upp í 200 þús. kr. tekjur, þá tekur ríkissjóður 90% af því, sem fram yfir er. En það er öllum ljóst, að atvinnurekstur getur ekki þrifizt hér á landi, ef ekkert atvinnufyrirtæki getur haft von um að fá — eða réttar sagt má hafa hærri en 200 þús. kr. tekjur, og af þeim tekjum á svo að taka skattgjöldin eftir skattstiganum. Ég veit það, að atvinnurekendur yfirleitt telja þessa breytingu spor í rétta átt, þó að þessi annmarki sé á því, að það þyngi nokkuð skattinn á lægri tekjum.

Ég vil nú segja, að það hefðu ekki verið sérstök útlát fyrir ríkissjóð, þó að ekki væri þyngt á lægri tekjum, um leið og þessu var breytt. Það er sýnilegt, að ríkissjóður er ekki að gefa mönnum neinar gjafir í sambandi við þessa breytingu, því að hann ætlar sér að hafa sömu tekjur af skattinum og áður var. Ég geri ráð fyrir, að ríkissjóður nái upp sínum hluta af stríðsgróðaskattinum með þessu. Hins vegar tapa bæjar- og sveitarfélögin sínum hluta af stríðsgróðaskattinum, með því að hinn gamli skattstigi fellur niður. En þá er þess að gæta, að bæjarfélögin geta, eftir að búið er að breyta skattstiganum, farið hærra upp í skattstiganum til þess að ná auknum tekjum.

Ég sagði við 1. umr. þessa máls, að þó að ég teldi þessa breytingu spor í rétta átt, þá leysti hún ekki úr því öngþveiti, sem nú er ríkjandi í sameiginlegri skattheimtu ríkis og bæjarfélaga. Vegna skorts á eðlilegum tekjustofnum er útsvarsálagning bæjarfélaganna — og á ég þar sérstaklega við veltuútsvarið — að sliga atvinnufyrirtækin. En ástæðan fyrir því er sú, að ríkissjóður hefur dregið til sín skattstofnana án þess að láta bæjarfélögunum í té leiðir til tekjuöflunar. En hins vegar hefur ríkissjóður í mörg ár — eða réttar sagt Alþingi — lagt á bæjarfélögin alls konar ný útgjöld og þyngt byrði þeirra frá ári til árs.

Hin sameiginlega skattheimta ríkis og bæja hefur færzt út í slíkar öfgar, að telja verður, að af því stafi stórhætta fyrir efnahagskerfi þjóðfélagsins. Félög og einstaklingar, sem einhvern atvinnurekstur hafa, verða að sæta slíkri ofsköttun, að fjárhagur þeirra er í bráðri hættu. Ég hef heyrt gætinn löggiltan endurskoðanda halda því fram, að 80–90% af félögum, sem standa í atvinnurekstri, séu með öfugan höfuðstól. Það vill segja, að höfuðstóllinn er horfinn og stöðugt gengið á varasjóðinn eða á hlutaféð eða stofnféð sjálft. Þetta veldur svo því, að atvinnureksturinn verður algerlega févana. Atvinnureksturinn verður raunverulega taprekstur, þó að félögin á pappírnum sýni góða afkomu, áður en skattar eru greiddir.

Hinn sorglegi árangur þessarar ofsköttunar verður svo auðvitað sá, að atvinnufyrirtækin geta ekki safnað sjóðum til rekstrarins, og fjárhagur þeirra veikist ár frá ári. Hið opinbera er með ofsköttuninni að draga til sín rekstrarfé atvinnuveganna, sem hið opinbera svo notar sem eyðslufé, í staðinn fyrir að fé, er safnaðist fyrir hjá félögunum, mundi haldast í sjóðum þeirra og notfærðist sem aukið rekstrarfé. En af þessu leiðir svo að sjálfsögðu, að atvinnurekendurnir verða að knýja á lánsstofnanirnar til þess að bæta í það skarð, sem skattarnir höggva meira og meira í fjárráð þeirra. Og í rauninni er útlánaþenslan, hin mikla útlánaþensla lánsstofnananna á undangengnum árum, í beinu samhengi við sköttunina.

Ef þetta mál er athugað ofan í kjölinn, mun koma í ljós, að efnahagskerfi þjóðarinnar stafar stórkostleg hætta af þessu ástandi, og það er einn þátturinn í hinni sívaxandi verðbólgu, sem við þurfum að berjast við.

Ef með hinum opinberu sköttum er hindrað, að hægt sé að byggja upp atvinnufyrirtæki þjóðarinnar á heilbrigðum fjárhagslegum grundvelli, verða hér viðloðandi sífelldir fjárhagserfiðleikar og misvægi í efnahagskerfi þjóðarinnar.

Að öllu þessu athuguðu tel ég, að hæstv. fjmrh. hafi brugðizt hlutverki sínu og ég vil segja skyldu sinni, er hann lætur undir höfuð leggjast jafnframt þessu frv., sem hér liggur fyrir, að leggja fram till. um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, til þess að þeim sé gert mögulegt að breyta núverandi útsvarsálagningu sinni og þá sérstaklega veltuútsvarsins. Meðan ekki er leyst úr þeim vanda, er þessi breyting á skattalögunum, þótt í rétta átt sé, því miður til lítils gagns.

Félög atvinnurekenda í landinu telja þessa ofsköttun slíka ógnun við allan sjálfstæðan atvinnurekstur í landinu, að þau hafa beitt sér fyrir því að fá hingað kunnan erlendan sérfræðing í skattamálum til þess að segja álit sitt á skattamálum félaga hér á landi, eins og skattamálin eru hér framkvæmd. Sérfræðingur þessi, Wästhagen að nafni, er prófessor við verzlunarháskólann í Stokkhólmi. Hann er einn þekktasti sérfræðingur Svía í skattamálum og í miklu áliti einnig utan síns heimalands. Þessi maður hefur starfað hér um skeið, og það er nýlega komin út stutt grg. frá honum um þessi mál. Þar sem hér er um álit mjög merks manns að ræða, sem rannsakað hefur málið af þekkingu og óhlutdrægni, er lærdómsríkt fyrir Alþingi að heyra álit hans á þessum málum, og því vil ég, með leyfi forseta, lesa þessa stuttu, en athyglisverðu og lærdómsríku grg. Hún segir :

„Útsvörin eru sérlega þung á fyrirtæki, sérstaklega veltuútsvörin. Við athugun kemur í

ljós, að samanlagður skattur ríkis og bæjar í ýmsum greinum í Reykjavík, nemur verulega hærri upphæð, en hreinar tekjur. Í vissum tilfellum nemur veltuútsvarið eitt mörgum sinnum meiri upphæð, en tekjurnar. Veltuútsvar ber að afnema og einnig eignaútsvör. Þar sem stríðsgróðaskatturinn mun sennilega hverfa, er vart hugsanlegt að hækka útsvörin að sama skapi. Það mundi vera æskilegt, að fyrirtækin fengju útsvörin á sig lækkuð um t.d. helming frá því, sem nú er. Þá lækkun ætti að vera hægt að vinna upp að talsverðu leyti með bættu eftirliti með framtölum. Tekjusköttum ætti að breyta og leggja þá á hlutfallslega. Í stað þess frjálsræðis, sem bæjarfélögin hafa til að leggja á útsvör eftir efnum og ástæðum, ættu að koma fastari lagareglur. Sú till., að tekjusköttum á félög verði breytt í 25% hlutfallslegan skatt, er tvímælalaust spor í rétta átt. Einnig ætti að reyna að afnema eignarskattinn, sem varla á rétt á sér gagnvart fyrirtækjum og félögum. Skatta ríkis og bæja þarf að samræma, þannig að sömu tekjur yrðu skattlagðar í báðum tilfellunum. Einnig virðist bezt, að álagning skatta ríkis og bæja eigi sér stað sameiginlega. Í því skyni, að fyrirtæki hafi möguleika á því að hafa nægilegt fjármagn til að endurnýja byggingar og vélar og hafa nægilegt vörumagn o.s.frv., verður að sjá um það, að nettótekjur séu reiknaðar eftir grundvallarreglum, sem komi í veg fyrir, að gervitekjur séu skattlagðar. Æskilegt er, að fyrirtæki fái að afskrifa byggingar og vélar á því verði, sem endurnýjun mundi kosta, og í því sambandi ætti að vera hægt að styðjast við vísitölu vegna verðhækkana. Óbreyttar vörubirgðir ætti einnig að meta á föstu verði burt séð frá verðhækkuninni. Sú regla, sem ríkt hefur, að meta birgðirnar á því verðlagi, sem er á hverjum tíma og er stöðugt hækkandi, gefur ekki fyrirtækinu möguleika til þess að viðhalda raunverulegum mætti fjármagnsins.“

Þetta er einmitt það, sem er að gerast hér í dag.

„Sú regla, sem gilt hefur á Íslandi sem og í Danmörku og Noregi, að fríhlutabréf skuli skattleggja sem tekjur, verður að álítast úrelt. Fríhlutabréfin eru út af fyrir sig ekkert verðmæti fyrir hluthafana, þeir fá aðeins staðfestingu á því, að þeir eigi það, sem þeir eiga í fyrirtækinu. Aðeins ef hluthafarnir hafa fengið meiri arð en áður, geta hin nýju hlutabréf orðið verðmætaaukning fyrir hluthafana. En þeir verða þá að greiða tekjuskatt af hinum hækkaða arði, sem úthlutað er, og skattlagning á hlutabréfin sjálf og einnig hinn hækkaða arð verður þar af leiðandi tvísköttun á sömu tekjur. Í Svíþjóð eru fríhlutabréf ekki skattlögð sem tekjur. Ef skattlagningin væri endurskoðuð hvað þetta snertir, mundu fyrirtækin fá betri möguleika til að samræma hlutaféð núverandi peningagildi, og það mundi þá einnig verða auðveldara að útvega nýtt fjármagn með útgáfu nýrra hlutabréfa.

Óski menn þess, að hlutafélög og sameignarfélög, kaupfélög og ríkis- og bæjarfyrirtæki heyi frjálsa samkeppni sín á milli, verður skattlagning allra þessara félagsforma að fara fram eftir sams konar reglum, svo að möguleikarnir til samkeppni raskist ekki vegna skattaákvæða. Skattaeftirlitið þarf að bæta, svo að hinar skattskyldu tekjur verði skattlagðar á raunhæfan hátt. Til athugunar kemur, hvort öll fyrirtæki á Íslandi eigi ekki að skattleggjast af einu og sama skattyfirvaldi með sérfróðum mönnum, og það mundi einnig hafa þann kost í för með sér fyrir skattþegnana, að niðurjöfnun skatta mundi ekki vera eins tilviljun háð eins og nú virðist vera. Einnig bæri að athuga, hvort ekki væri rétt að sameina skattlagninguna á sama hátt að því er varðar smærri atvinnurekendur.“

Og að lokum segir hann:

„Við alla skattlagningu á fyrirtæki verður að hlíta þeim grundvallarreglum, að fyrirtækin fái að halda nægilegu fjármagni til þess að auka framleiðni sína. Menn verða að gera sér ljóst, að framleiðniaukning er eina leiðin til þess að auka kaupmátt launa og bæta lífskjör þjóðarinnar.“

Þetta segir þessi erlendi og óhlutdrægi maður, eftir að hann hefur athugað skattamálin hér á landi, eins og þau eru nú. Þetta álit sýnir, hversu róttækar breytingar hann álítur að gera þurfi, til þess að skattamálin hafi ekki beinlínís skaðleg áhrif á efnahags- og atvinnukerfi þjóðfélagsins.

Í sambandi við veltuútsvörin vil ég geta þess, að hér fyrir þinginu liggja nú tvö frv. til þess að bæta úr því öngþveiti, sem veltuútsvörin hafa skapað. Annað frv. er um það, að bæjarfélögin fái hluta af söluskatti. Hitt er um það að leggja veituútsvar á atvinnurekendur, sem þeir mega taka til greina í verðreikningum sínum. Bæði þessi frv. eða hvort um sig getur bætt úr því ástandi, sem nú ríkir í þessum málum, ef þingið vill samþykkja þessar leiðir.

Ég skal þá fara nokkrum orðum um þær brtt., sem ég og hv. 9. landsk. (ÓB) höfum borið fram við frv. Ég skal geta þess, að hv. 9. landsk. mun sérstaklega gera grein fyrir brtt. um sérsköttun hjóna. Ég skal einnig geta þess, að till. í sambandi við uppfærslu á hlutafé hlutafélaga og annarra félaga er borin fram fyrir tilmæli félagasamtaka atvinnurekenda hér í Reykjavík.

Við berum fram brtt. við 3. gr. Þar segir svo, að félög þau, er ræðir um í 3. gr. a, megi draga frá tekjum sínum útborgaðan arð, þó ekki meira en 8% af innborguðu hlutafé eða stofnfé.

Í núgildandi lögum mega félögin draga 5% frá tekjum sínum til arðgreiðslu, en það eru ekki settar neinar kvaðir á þessa arðgreiðslu. Hana má draga frá skatti, hvort sem hún kemur til útborgunar eða er sett í sjóði félaganna. Við erum á móti því, að þessari grundvallarreglu sé breytt. Hér er verið að breyta 5% í 8%, sem er ekki nema eðlileg breyting, sökum þess að 8% er nú ekki lengur nema almennir vextir af fé, og þegar 5% voru sett inn í lögin, þá var einnig miðað við almenna vexti. Þess vegna finnst okkur, að það sé ekki rétt að setja þá kvöð, að félögin megi ekki draga frá þessi 8%, nema því aðeins að arðurinn sé útborgaður. Í fyrra tilfellinu greiðir að vísu hluthafinn skatt af þeirri arðgreiðslu, sem hann fær, en í síðara tilfellinu gengur arðurinn til þess að byggja upp fyrirtækið fjárhagslega og á því að okkar áliti fyllilega jafnmikinn rétt á sér eins og þó að arðurinn sé útborgaður og ríkissjóður geti vænzt að fá eitthvað lítils háttar af sköttum í sambandi við þá greiðslu.

Þá berum við fram brtt. við 5. gr. frv. um skatt af eignum. Samkvæmt 10. gr. l. nr. 33 frá 1955 er mælt svo fyrir, að endurskoða skuli gildandi lagaákvæði um eignarskatt og miðist endurskoðunin við, að skattar þessir hækki ekki almennt vegna hækkunarinnar. Hér er sagt, að skattarnir eigi ekki að hækka almennt, en þeir, sem sömdu frv., virðast hafa haldið sér við það sjónarmið, að ríkissjóður tæki ekki í heild hærri fjárhæð til sín, en áður. Ég vil nú segja, að ekki eigi að skilja þetta ákvæði þannig. Ef sagt er, að skatturinn hækki ekki almennt, þá þýðir það ekki það eitt, að tekjurnar, sem ríkissjóður hefur af skattinum, séu hinar sömu og áður. Það hlýtur öllum að vera ljóst, sem líta á þennan nýja skattstiga og bera hann saman við þann eldri, að skattstíginn er ekki þannig myndaður, að hann haldi almennt óbreyttum skatti. í skattstiganum er lítið eða ekkert tillit tekið til þeirrar gífurlegu hækkunar á fasteignum, sem orðið hefur við hið nýja fasteignamat, þar sem hið gamla fasteignamat er fimmfaldað. Ef þessi skattstigi verður samþykktur, þá er ekki neinn vafi á því, að þeir einstaklingar, sem eiga eignir sínar aðallega í fasteignum, verða að greiða miklu þyngri skatt, en áður var. Brtt. okkar kemst því miklu nær því að fullnægja ákvæðum laganna frá 1955, en sá skattstigi, sem í frv. er.

Þá höfum við einnig borið fram brtt. við 4. gr. í sambandi við skattgreiðslu sjómanna. Fyrir þinginu liggur frv. flutt af sjálfstæðismönnum, þar sem þeir leggja til, að sjómenn verði skattfrjálsir. Ákvæði í þessu frv. ganga of skammt, þótt þau séu nokkur bót fyrir sjómenn. En sú breyting lagfærir ekki það, sem mest fer aflaga. Það þarf að búa svo í haginn fyrir sjómanninn, að hann af fjárhagslegum ástæðum telji sér hag í því að vinna á skipunum.

Nú er fiskifloti Íslendinga gerður út að hluta með erlendum sjómönnum. Íslenzku sjómennirnir hafa gengið í land, vegna þess að þeir hafa fengið betur borgaða atvinnu annars staðar. Við höfum getað haldið úti flotanum með aðstoð erlendra sjómanna, vegna þess að þeir eru nægjusamari. En einmitt af þessari ástæðu er enn meiri og ríkari ástæða til þess að létta svo sköttum af atvinnutekjum sjómanna, að þeir sjái sér hag í því að stunda sjómennskuna. Auk þess er starf sjómannanna erfiðara og hættulegra, en starf nokkurra annarra stétta í þjóðfélaginu. Þeirra starf hefur því algera sérstöðu, og þess vegna er ekki óeðlilegt, að þeir njóti líka algerrar sérstöðu hvað skattamál snertir. Skattfrelsið er kannske eina leiðin, sem hægt er að fara nú til þess að gera hlut sjómannanna betri og um leið fá fleiri Íslendinga til þess að stunda sjómennskuna.

Við leggjum einnig við sömu gr. fram brtt. um skattfrelsi gjafafjár. Það tíðkast nú 1 mörgum löndum, að gjafir, sem renna til menningar- og mannúðarmála, séu skattfrjálsar að vissu marki. T.d. hefur í Bandaríkjunum verið um langt skeið undanþága í skattalögum til þess að mega leggja 20% af brúttótekjum til mannúðarmála, og er sú upphæð undanþegin skatti. Gjafir þessar renna að mestu leyti til málefna, sem ríkið sjálft í flestum tilfellum, verður eða þarf að sjá farborða. Það, sem gerist í þessu efni, er, að skattgreiðandinn gefur nokkurn hluta af sínum tekjum gegn því, að ríkið láti niður falla kvöð sína um skattlagningu á hinn helminginn. Þetta er eðlileg heimild, sem á að komast í lög og kemst í skattalög, þó að hún verði ekki samþykkt nú. Þetta er heimild, sem mörgu góðu, getur komið til leiðar.

Síðasta brtt, okkar við lögin er um uppfærslu hlutafjár. Eins og ég hef þegar getið um, þá er þessi till. borin fram eftir beinni málaleitun frá félagasamtökum atvinnurekenda. Nálega tveggja áratuga verðbólga hefur gert hlutafé flestra félaga, sem stofnuð voru fyrir 1940 eða jafnvel í stríðinu, mjög lítils virði. Hins vegar eiga mörg félög eignir, sem eðlilegt er að þeim verði heimilt að taka inn sem stofnfé til lagfæringar á verðbólgurýrnun hlutafjárins. Þetta mundi og leiðrétta höfuðstólsreikning félaganna, sem — eins og ég tók fram áðan — er þegar öfugur hjá fjölda félaga, er hafa orðið fyrir barðinu á opinberri skattheimtu. Í þessu sambandi er nauðsynlegt, að bréf, sem gefin eru út fyrir slíkri hækkun, séu skattfrjáls, þ.e.a.s. að ekki þurfi að greiða skatt af þeirri breytingu, sem þannig er gerð. Hins vegar er það að sjálfsögðu ófrávíkjanlegt skilyrði, að eignir standi á bak við uppfærslu hlutafjárins. Á annan hátt getur slík uppfærsla ekki gengið fyrir sig.

Í löndum, þar sem verðbólga hefur verið að verki í ríkara mæli en hér, hafa félög getað uppfært hlutafé sitt í samræmi við verðmæti véla og fasteigna, sem félögin eiga. Í löndum, þar sem gjaldeyririnn hefur hrunið og milljónin er orðin að engu, verður hin gamla hlutafjárskráning félaganna næsta hlægileg, þegar hlutafé á þann hátt er komið niður í nokkrar krónur. Þess vegna hefur verið nauðsynlegt að gera þessa breytingu. Þótt okkar gjaldeyrir hafi ekki hrunið jafnmikið og í sumum öðrum löndum, þar sem gjaldeyririnn hefur orðið svo að segja að engu, þá er mikil og rík ástæða fyrir því, að slík heimild sem þessi sé gefin fyrir félögin til þess að breyta hlutafé sínu og stofnfé í sambandi við núverandi eignir þeirra.