13.05.1958
Neðri deild: 94. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir um breytingu á skattalögunum, er vandasamt mál og viðkvæmt og talsvert flókið og tæpast þess að vænta, að hv. þm., sem eru utan n. eða hafa ekki sérstaklega sett síg inn í það, geti fylgzt með öllum hliðum þess.

Við 1. umr, þessa máls talaði ég nokkuð um skattamálin almennt og mínar skoðanir á þessu frv. og þeim málum og skal ekkert ítreka af því, sem ég sagði þá, en halda mig við það sjálfsagða sjónarmið, sem ætlazt er til við 2. umr., að tala um einstök atriði. Og það, sem ég ætla mér einkum að gera að umtalsefni hér, er 5. gr. þessa frv., sem fjallar um eignarskatt. Í athugasemd við frv. frá hæstv. fjmrh. segir svo um þessa grein:

„Í 10. gr. l. nr. 33 14. maí 1955, um samræmingu á mati fasteigna, segir m.a., að þegar hið nýja fasteignamat samkvæmt lögunum taki gildi, skuli endurskoða gildandi lagaákvæði um eignarskatt og miðist sú endurskoðun við það, að skatturinn hækki ekki almennt vegna hækkunar á fasteignamatinu.“

Þetta er rétt uppfært. En svo segir:

„Þessi endurskoðun hefur nú farið fram, og mun eignarskattsstigi sá, er greinir í 1. tölul. þessarar gr., gefa mjög svipaðan heildarskatt frá einstaklingum og gildandi eignarskattsstigi, þó sennilega heldur lægri.“

Þegar hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þessu frv. í byrjun við 1. umr., þá segir hann á þessa leið um 5. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Loks vil ég minna á, að í frv. eru ný ákvæði um eignarskatt. Þegar ákveðið var að gera nýtt fasteignamat, þá var um leið sett í þau lög, að breyta skyldi sköttunum þannig, að skattbyrðin í heild ykist ekki við það, að fasteignamatinu hefur verið breytt. Og í samræmi við þetta er hér till. um eignarskattinn, þar sem skattstiganum er breytt þannig, að gert er ráð fyrir því, að hann nemi í heild til ríkisins jafnmiklu og áður þrátt fyrir hækkun fasteignamatsins, skattbyrðin í heild sé ekki aukin vegna þeirra breytinga. Verður þá nýja fasteignamatið aðeins til þess að auka samræmi í því, hvernig eignarskatturinn kemur niður, frá því, sem áður hefur verið.“

Í framsöguræðu sinni hér áðan sagði hv. þm. V-Húnv.:

„Eignarskatturinn samkvæmt frv. er við það miðaður, að skatturinn í heild verði ekki hærri vegna hækkunar matsins.“

Nú er það svo, að þeir hv. þm., sem ekki þekkja mikið aðferðir þessara tveggja manna, gætu freistazt til þess að halda, að hér væri rétt með farið. En við, sem þekkjum þá betur og vitum, hve mikla tilhneigingu og ríka þeir hafa til að fara með blekkingar og færa fram röng atriði, getum vissulega ekki treyst því og allra sízt í skattamálum, að með það, sem frá þeim kemur, sé rétt farið. Ég fór því í það að gera nokkra athugun á því, hvernig þetta kæmi út, og er þó með lítilli fyrirhöfn ekki mögulegt að rannsaka það til hlítar. En um sum atriði er þó fljótlegt að segja til um, hvernig útkoman verður, og ég skal nú fara hér með nokkrar tölur. Þó að kannske hv. þm. gangi illa að fylgjast með því, þá eru þær svo eftirtektarverðar, að það er vissulega ástæða til að nefna þær. Og minn samanburður miðast við fasteignir eingöngu, ef þær væru skattlagðar alveg sérstaklega og maður miðaði við skuldlausa fasteign.

Ef við hefðum fasteign, sem var 20 þús. kr., áður en breytingin á fasteignamatinu fór fram, þá var reiknaður skattur á hana skv. 14. gr. laga nr. 46 frá 14. apríl 1954 25 kr. Ef þessi fasteign væri í Reykjavík, þá yrði hún sett upp í 100 þús. kr., og samkv. þessu frv. yrði eignarskattur á hana 345 kr. Það er nú hvorki meira né minna. Ef þessi sama fasteign væri jörð, t.d. í Árnessýslu, þar sem fasteignamatið er hækkað um 220%, þá er hún nú metin á 64 þús., og eignarskattur á hana þar yrði 153 kr. Ef fasteignin væri í Húnavatns- eða Skagafarðarsýslu, þar sem fasteignamatið var hækkað um 130%, þá mundi hún vera 46 þús. kr. nú og eignarskattur á hana 93 kr., m.ö.o.: hann færi á þessa eign í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu úr 25 kr. upp í 93.

Ef við tökum eign, sem var metin á 30 þús. kr. áður, þá hefði eignarskattur á hana verið skv. lögunum 45 kr. Væri hún í Reykjavík, þá væri matið á henni nú 150 þús. kr. og eignarskatturinn á hana 720 kr., úr 45 kr. í 720 kr. Væri þessi sama fasteign í Árnessýslu, þá væri hún nú metin á 96 þús. kr. og eignarskattur á hana 321 kr. í staðinn fyrir 45. Væri hún í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslu, þá væri hún nú metin á 69 þús. og eignarskattur á hana 175 kr. í staðinn fyrir 45.

Þess skal getið, að í þessum tölum er eignarskattsstiginn í heild skv. frv. þó heldur lægri en skv. gildandi lögum. En þegar þar kemur yfir, þá fer það að breytast, þá er eignarskattsstiginn hækkaður, ekki einasta það, að hann sé hækkaður alveg að fullu í samræmi við hækkun fasteignamatsins, heldur er farið þar umfram. Og skal ég nú lesa hér nokkrar tölur þessu til staðfestingar.

Ef við höfum eign, sem var 40 þús. eftir gamla matinu, þá var eignarskattur á hana 75 kr. Væri hún í Reykjavík, þá væri hún nú metin á 200 þús. kr. og eignarskattur á hana skv. þessu frv. 1170 kr. Væri hún í Árnessýslu, þá væri hún nú metin á 128 þús. kr. og eignarskattur á hana þar 560 kr. í staðinn fyrir 75. Væri hún í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslu, þá væri hún nú metin á 92 þús. kr. og eignarskattur á hana 297 kr.

Ef við hefðum fasteign, sem áður var 50 þús. kr., þá hefði eignarskattur á hana verið skv. gömlu lögunum 115 kr. Væri hún í Reykjavík, þá væri hún nú metin á 250 þús. kr. og eignarskatturinn 1.695 kr. í staðinn fyrir 115. Eignarskatturinn á þessa eign er sem sagt töluvert meira, en tifaldaður skv. þessu frv. frá eldri lögum. Væri þessi eign í Árnessýslu, þá væri hún nú metin á 160 þús. kr. og eignarskattur á hana 810 kr. í staðinn fyrir 115. Væri hún í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslu, þá væri hún nú metin á 115 þús. kr. og eignarskattur á hana skv. frv, 457.50 kr.

Ef við tökum fasteign, sem áður var 60 þús. kr., þá hefði á hana verið eignarskattur 165 kr. Ef hún væri í Reykjavík, þá væri hún nú metin á 300 þús. kr. og eignarskattur á hana 2.290 kr. Væri hún í Árnessýslu, þá væri hún metin á 192 þús. kr. og eignarskattur á hana 1.098 kr. Væri hún í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslu, þá væri hún nú metin á 138 þús. kr. og eignarskattur á hana 630 kr. í staðinn fyrir 165.

Ef við tökum svo fasteignir, sem hefðu samtals verið 100 þús. kr. eftir gömlu mati, — það eru tiltölulega fáar fasteignir, sem voru svo hátt metnar eftir gamla fasteignamatinu, en það geta þá verið fleiri fasteignir saman, — þá er eignarskattur á 100 þús. kr. 390 kr. Ef þessi fasteign væri í Reykjavík, þá væri hún nú metin á 1/2 millj. eða 600 þús. kr. og eignarskattur á hana samkvæmt þessu frv. 4.320 kr. í staðinn fyrir 390 kr. Ef hún væri í Árnessýslu, væri hún nú metin á 340 þús. kr. og eignarskatturinn á hana 2.640 kr. Væri hún í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslu, þá mundu þessar eignir vera 230 þús. kr. og eignarskatturinn 1.485 kr. í staðinn fyrir 390.

Nú skal ég ítreka það, sem ég tók fram í upphafi, að þetta er miðað við fasteignir út af fyrir sig og gert ráð fyrir því, að eignarskatturinn breytist frá því, sem áður var í lögum, og samkvæmt þessu frv. En með því er náttúrlega ekki nema hálfsögð sagan, vegna þess að flestir menn, sem komast í eignarskatt og eiga fasteignir, eiga einhverjar aðrar eignir, og hækkun fasteignamatsins verður þess vegna til þess að koma ofan á aðrar eignir og færa eignina alla í hærri skattstiga, en ella hefði verið.

Í öðru lagi er svo það, sem ekki er hægt að reikna út almennt og alls ekki nema fyrir hverja einstaka fasteign, að samkv. nýja fasteignamatinu hækkar grunnverð á flestum jörðum í landinu talsvert, áður en hækkunarprósentunni er bætt við, vegna umbóta, húsabygginga og jarðabóta, sem á jörðunum hafa verið gerðar. Allt þetta miðar þess vegna að því, að samkv. þessu frv. eru ákv. 10. gr. l. frá 1955, um samræmingu á fasteignamatinu, ekki einasta gersamlega svikin, heldur miklu meira en það, og þetta ætlar svo hæstv. fjmrh. og hv. fjhn. að fóðra með því að setja það inn í l., að af eignum undir 30 þús. kr. skuli ekki borga neinn eignarskatt. Og það er náttúrlega töluverður hluti af eignum, sem eru undir 30 þús. kr. og eru skv. þessu frv. gerðar skattfrjálsar. En samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef hér gefið og eru náttúrlega mjög takmarkaðar, þó að þær séu sannanlegar með frv. og lögum, svo langt sem þær ná, kemur í ljós, að hér er um að ræða gífurlega hækkun á eignarskatti yfirleitt hjá öllum þeim skattgreiðendum, sem eiga skattskyldar eignir yfir 30 þús. kr.

brtt., sem hér hefur verið flutt af hv. minni hl. fjhn., mundi gera á þessu nokkra bót frá því, sem í frv. er. En ég er ekki viss um, að allir hv. þm., sem annars vilja hafa á þessu löglegan hátt og standa við það, sem í l. stóð varðandi þessi efni, felli sig við t.d. það, að allar eignir, sem eru undir 100 þús. kr., séu skattfrjálsar. Ég skal ekki segja um það. Ég náttúrlega mundi greiða þeirri till. atkv. heldur, en hafa þessi gífurlegu svik og blekkingar, sem hér er haft í frammi varðandi þetta mál og kemur fram í þessu frv., sem er einhver sú grófasta blekking, sem ég hef nokkurn tíma orðið var við, og eru þó mörg dæmin ljót.

Nú skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð, en vildi segja rétt örfá orð að lokum um þá deilu, sem verið hefur og er um skattskyldu hjóna. Ég sé það strax í hendi minni, að þær brtt., sem fluttar eru hér af hv. meiri hl. fjhn., gera mikla bót í þessu efni frá því, sem verið hefur. En ég felli mig engan veginn við, að það sé gerður réttindamunur á þeim giftu konum, sem vinna utan heimilis, og hinum, sem vinna alla daga heima á sínu heimili og að sínu barnauppeldi og sínu búi. Ég felli mig engan veginn við það t.d., að sveitakonurnar, sem ég hygg að vinni erfiðara verk almennt, en nokkur önnur stétt í þessu þjóðfélagi, séu gerðar að þessu leyti réttminni en konur, sem vinna á skrifstofum í kauptúnum og kaupstöðum okkar lands. Það virðist nú vera nokkurn veginn nóg það ranglæti, sem sveitakonunum er sýnt með hinum frábæra og furðulega verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða, þar sem gert er ráð fyrir því, að sú vinna, sem þær inna af hendi á heimilunum, sé ekki greidd neitt og þær eiga að vinna fyrir ekki neitt að sínu búi, fyrir utan það, sem í mjög mörgum tilfellum mun svo, að það er nokkurn veginn víst, að bóndinn sjálfur, þó að það sé til þess ætlazt, að hann eigi að hafa tekjur á við verkamenn, þá mun vera svo að því búið, að það er nokkuð viða, sem það ekki tekst. Ég held þess vegna, að það væri í þessu máli langeinfaldast og eðlilegast að samþykkja þá brtt., sem minni hl. hv. fjhn, hefur lagt hér fram, og gera það að aðalreglu, að skattskyldum tekjum hjóna sé skipt undir öllum kringumstæðum í tvo hluta og þær skattlagðar til tekjuskatts hvort í sínu lagi. Annars er það eins og ég tók fram hér við 1. umr., að þetta mál væri út úr heiminum sem deilumál, ef það væri farið inn á þá leið, sem réttlátust væri, að afnema stighækkun á skattlagningu tekna einstaklinga, eins og ætti að vera, en er mjög fjarri því að vera samkv. lögum og samkv, því frv., sem hér liggur fyrir.