13.05.1958
Neðri deild: 94. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. 10, des. s.l. flutti ég ásamt hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) og hv. þm. Ísaf. (KJJ) frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, Daginn eftir að frv. var flutt fram hér í deildinni, var því vísað til fjhn. þessarar hv. deildar, en í marzmánuði s.l. kvaddi ég mér hljóðs hér utan dagskrár og bað um aðstoð hæstv. forseta til þess, að frv. okkar yrði afgr. frá fjhn. Þrátt fyrir það, þó að þetta frv. sé búið að vera í vörzlum fjhn. til umsagnar á sjötta mánuð, fær það ekki enn að sjá dagsins ljós. Nú er hér í dag á dagskrá frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, sem hæstv. ríkisstj. hefur fært fram, og sé ég, að minni hl, fjhn., þeir hv. 2. þm. Reykv. og hv. 9. landsk., hefur flutt brtt, við það frv. og fært þar fram það ákvæði, sem ég ásamt tveim öðrum hv. þm. flutti í mínu frv., að kaup skipverja, sem lögskráðir eru á íslenzk fiskiskip yfir lengri eða skemmri tíma á skattárinu, skuli vera undanþegið tekjuskatti.

Það er sem betur fer ákaflega óvenjulegt og verður að teljast vítavert, að maður skuli ekki fá frv. sín afgr. úr n. og það þrátt fyrir það þótt hæstv. forseti reyni að leggja áherzlu á, að n. sinni þeim skyldum sínum að afgr. þau frv, og till. frá sér, sem vísað er til þeirra til umsagnar.

Ég vil þakka hv. minni hl. fjhn. fyrir að hafa tekið þessar till., sem ég ásamt tveim öðrum hv. þm. flutti um breytingu á tekju- og eignarskattslöggjöfinni, inn í sínar brtt. við frv. hæstv. ríkisstj., því að það er vist einasta vonin til þess að fá þetta frv. okkar þremenninganna eða brtt. fram aftur hér í hv. deild.

Ég geri mér miklar vonir um, að þrátt fyrir það að þeir eru aðeins tveir, sem eru flm. að þessum brtt., þeir hv. 2. þm. Reykv. og hv. 9 landsk., muni fleiri hv. þm. en við sjálfstæðismenn styðja það, að sú stétt, sjómannastéttin, sem leggur á sig erfiðasta starf, sem ég vil segja að sé til í okkar þjóðfélagi, fái þá viðurkenningu, sem farið er fram á með frv. því, sem ég flutti hér í desember s.l. Ég held, að alþjóð viðurkenni það, að sjómannastéttin íslenzka hafi erfiðari vinnudag, meiri áhættu í sambandi við lífsstarf sitt, en nokkur önnur stétt, auk þess sem það er þjóðfélagsleg nauðsyn, að við reynum að hvetja unga menn til þess að leggja sjómennsku fyrir sig að lífsstarfi. Ég trúi því ekki fyrr en það reynist, að hv. stjórnarliðsmenn, sem kenna sig við Alþfl. og Sósfl., finni sig menn til þess að greiða atkv. gegn þessum sjálfsögðu till.