13.05.1958
Neðri deild: 94. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég á hér á þskj. 490 nokkrar brtt., sem ég vildi gera grein fyrir. Ég er sammála meðnm, mínum í meiri hl. um það frv., sem hér liggur fyrir, og þær brtt., sem meiri hl. flytur, að undanteknum þrem fyrstu gr. í þessu frv. Að vísu minntist ég nokkuð á þann ágreining minn við 1. umr. þessa máls, en skal nú gera stutta grein fyrir þeirri afstöðu minni.

Það er í fyrsta lagi það, sem ég finn að þessum þremur gr. og þeim breytingum, sem þar með eru gerðar, þegar sú tekjuskattslöggjöf, sem hingað til hefur gilt um hlutafélög á Íslandi, er afnumin og í staðinn settur einn allsherjarskattur, 25%, að þá eru raunverulega afnumdar með þessu allar þær hömlur, sem hingað til hafa verið á venjulegum stórrekstri í einstakra manna eign á Íslandi. Hingað til hefur það verið svo, að sökum löggjafarinnar um tekjuskatt og eignarskatt hefur ekki verið hægt að mynda hér t.d. hlutafélög eða atvinnurekstur, sem ætti svo að skipti jafnvel tugum millj., það hefur ekki verið annar möguleiki til, ef menn hafa ætlað að koma þess háttar atvinnurekstri upp, eins og t.d. sementsverksmiðjunni, áburðarverksmiðjunni eða öðru slíku, heldur en hafa þetta ríkiseign raunverulega. Með þessari breytingu, sem nú er gerð á skattalögunum, eru þessar hömlur teknar burt.

Ég reyndi að vekja dálitla athygli á því við 1. umr. þessa máls, hvað þarna væri raunverulega að gerast og hvílík breyting yrði með þessu móti á allri aðstöðu um þessa hluti hér á Íslandi. Þetta tiltölulega þrönga form, sem bæði með hlutafélagalögunum, en þó sérstaklega með skattalögunum var skorið fyrir fjármagn eða auðmagn í stórum stíl, stafaði frá þeim tíma, þegar við vorum fyrst og fremst bændaþjóðfélag. Það var varúð gamals bændaþjóðfélags gagnvart miklu fjármagni á einstakra manna höndum, sem setti mark sitt á þá gömlu skattalöggjöf. Og það var líka bitur reynsla fátækrar nýlenduþjóðar, sem vildi gjalda varhuga við því valdi, sem felst í auð, þegar hann safnast á fáar hendur, sem þarna var að verki. Og ég álít, að það eigi ekki svona fyrirvaralaust að nema þessar hömlur burt. Ég álit, að það eigi að athuga þessa hluti betur, en þarna er gert. Ég álít, að það eigi ekki að vera ótakmarkað, hve mikið fjármagn geti fengið að starfa hér skv. svona lögum. Við skulum bara hugsa okkur, að það væri að öðru leyti svo í haginn búið hér, að menn, sem eignuðust hér mjög mikið auðmagn, jafnvel svo að skipti tugum eða jafnvel hundruðum millj. kr., settu það í stór fyrirtæki hér, þá vitum við, hvers konar þýðingu slíkt mundi hafa í okkar þjóðarbúi hvað snertir það efnahagslega og pólitíska vald, sem safnaðist raunverulega saman í höndum slíkra félaga. Það er sem stendur ekkert annað, en skattalöggjöfin, sem hindrar þetta. Og ég er hræddur við það að gefa auðmagni einstakra manna, þótt í hlutafélagsformi sé, lausan tauminn í þessu efni, og álit þess vegna, að heppilegast hefði verið þarna að setja eitthvert hámark, ef hefði átt að fara inn á þetta. Ég hef minnzt á það, hvort nokkrir möguleikar væru um samkomulag um slíkt. Þeir möguleikar eru ekki til. Þess vegna álít ég hvað snertir þetta atriði, að það væri heppilegra, að þetta mál biði, þessar gr. yrðu felldar nú og það yrði undirbúið betur síðar.

Það er sem sé í fyrsta lagi óttinn við innlent fjármagn safnað saman á fáar hendur, sem með þessu móti gæti fengið að njóta sín í stórrekstri á þann hátt að ná meiri tökum á íslenzku efnahagslífi, en ég álit heppilegt. Hingað til hefur öll þróunin orðið sú, að þetta hefur orðið að vera fyrst og fremst ríkisrekstur eða opinber rekstur, ef menn hafa viljað koma slíkum stórrekstri á, en einkarekstur hefur ekki verið mögulegt að reka þannig. Nú er verið að skapa möguleika fyrir það, og það hefði ég viljað láta athuga betur, áður en það hefði verið gert.

Í öðru lagi: Með þessari breytingu á skattalöggjöfinni eru brott numdar þær hömlur, sem áður voru á því, að útlent fjármagn gæti komizt inn í íslenzkt atvinnulíf. Það eru raunverulega engar sérstakar hömlur í hlutafélagalögunum, sem gera það ómögulegt fyrir útlent fjármagn að vera starfrækt hér. Þær einu hömlur, sem þar eru, eru búsetan hér á Íslandi, og hana er mögulegt fyrir útlendinga að fá strax, ef viðkomandi stjórnarvöld veita viðkomandi útlendingum dvalarleyfi, og þar með getur útlent auðmagn, — ég tala nú ekki um, ef ríkisstj. er frekar vinsamleg því heldur en hitt, — þá getur það fengið að starfa hér, þannig að það eru engar sérstakar hömlur í hlutafélagalögunum, sem hindra þetta.

Hingað til hefur útlent auðmagn ekki starfað í hlutafélögum á Íslandi vegna skattalöggjafarinnar. Íslenzk skattalöggjöf hefur verið alræmd um allan heim, ef svo má segja, svo að ef nokkur útlendur auðmaður hefur hugsað til þess að leggja sitt fé í fyrirtæki hér á Íslandi, þá hefur hann hætt við það, þegar hann hefur heyrt um, hvernig skattalöggjöfin væri. Og þetta hefur um leið þýtt, að það er minna um útlent auðmagn í hutafélögum og atvinnurekstri á Íslandi heldur en t.d. í nokkrum Norðurlandanna, og þess vegna er það gefið, að það er einmitt skattalöggjöfin, sem hefur fyrst af öllu valdið því, að útlent auðmagn hefur ekki sótzt eftir að ná hér tökum eða eignast aðstöðu í okkar atvinnulífi.

Skattalöggjöfin hefur verið hindrunin, hefur verið hömlurnar á þessari innrás útlends auðmagns í okkar þjóðlíf, — einu raunverulegu hindranirnar, sem þarna eru, því þó að menn kannske vildu segja, að ýmiss konar gjaldeyrislöggjöf væri það, þá skulum við athuga það, að það getur alltaf verið allt í lagi fyrir útlent auðmagn, ef það vill setjast hér að, að eiga sína peninga í íslenzku fé, ef það getur náð hér íslenzkum verðmætum og haft hér rekstur á Íslandi og notað sína peninga til þess að auka hann. Það er ekki endilega gefið, að útlent auðmagn mundi vera svo „interesserað“ í því að fá yfirfærslur eða annað slíkt.

Ég álít, að áður en við afnemum þær hömlur, sem hingað til hafa verið á því, að kapítalistískt skipulag yfirleitt ryddi sér til rúms á Íslandi, fyrir því valdi, sem auðmagn getur öðlazt í okkar þjóðfélagi, þá hefðum við átt að athuga okkar gang betur, og ég er þess vegna á móti því að gefa því þetta tækifæri og hef þess vegna lagt til líka frá því sjónarmiði, að þessar gr. væru nú felldar, þannig að ef menn vildu taka þetta upp aftur, þá væri hægt að athuga það betur. En ég veit ekki, hvort allir þeir þm., sem að þessu standa, og þar með þm. stjórnarflokkanna, hafa gert sér þetta fyllilega ljóst. Ég vakti athygli á þessu við 1. umr., og ég geri það aftur nú, af því að ég held, að menn hafi ekki gert sér nægilega grein fyrir, hvaða breytingar þetta frv. hefur í för með sér.

Þá álít ég í þriðja lagi, að það hefði verið eðlilegt, um leið og þessari löggjöf um skatt hlutafélaga er breytt, að það hefði verið komið einhverju meira skipulagi og einhverju meira samræmi á löggjöfina um hlutafélög og sérstaklega um hlutaféð. Og við vitum, að vegna þeirrar öru verðrýrnunar á gildi peninga, sem átt hefur sér stað hér á Íslandi á síðasta mannsaldri, er þetta hlutafé, sem er í hlutafélögunum, oft og tíðum nafnið tómt. Hins vegar er það alls ekki eðlilegt eða heilbrigt, að hlutafélög geti haft svona og svona mikinn rekstur, gert svo og svo mikil kaup og annað slíkt, án þess að þarna standi á bak við eitthvert fjármagn. Með þessu móti er raunverulega verið að gefa alls konar svindli undir fótinn. Og með því að gera það mögulegt, að hlutafélög, hve lítið hlutafé sem þau svo hafa, geti fengið af þeim gróða, sem þau hafa, 75% til sín sjálfs og greiði aðeins 25% í skatt til ríkisins, — og svo er spursmálið um, hvað útsvarið verður, — þá er raunverulega verið að skapa þann möguleika, að af miklum gróða, sem hlutafélag hefur, sem hefur mjög lítið hlutafé, jafnvel gróða, sem væri kannske 100% miðað við hlutafé, þá væri hægt að láta sama gilda um slíkt og þó að það væri hlutafélag, sem hefði eðlilegan gróða miðað við vexti af sínu hlutafé. Þetta álít ég óeðlilegt, og ég veit, að t.d. ég held í Danmörku, þar sem farið hefur verið inn á svipaða leið og hér með 25 prósentin, hefur verið höfð sú regla, hefur a.m.k. verið í gildi fram að þessu, að þetta megi ekki fara fram úr ákveðinni hlutfallstölu miðað við hlutaféð, þannig að þegar menn græða kannske fram yfir 20% t.d. af hlutafénu, ef gróðinn er orðinn 20% af hlutafénu eða meiri, þá verði öðruvísi skattar af því. Þetta væri eðlilegt. Sannleikurinn er sá, að það er alveg ótækt að gefa mönnum heimild til þess að geta haft kannske eitthvert smáhlutafé, geta tekið svo e.t.v. jafnmikinn gróða og hlutaféð er og búið svo við svona kjör hvað skattana snertir.

Við verðum að muna það, að hlutafélögin á Íslandi eru ekki neitt svipuð hlutafélögum í öðrum löndum, og áður en þeim væru gefin samsvarandi réttindi og þau hafa í öðrum löndum, þarf að breyta þessum hlutum.

Ég álít, að það hefði þurft að breyta þarna fleiru. Ég álít, að það hefði þurft að breyta því, að hlutafélög hefðu átt t.d. að birta sína reikninga og það væri skilyrði fyrir því, að þau fengju svona réttindi, — meginið af stórum hlutafélögum erlendis birtir sína reikninga í opinberum blöðum eða skýrslum. — Það yrði að koma einhverju lagi á þetta form fyrir rekstur, sem hlutafélögin eru, áður en þeim væru veitt svona sérréttindi eins og þarna er. Það hefur ekki verið gert með þessu. Það verður látinn vera alveg sami glundroðinn og áður var. Þetta álít ég mjög óheppilegt. Og meðfram af þeirri ástæðu álít ég, að það ætti ekki að samþ. þessar þrjár fyrstu gr. nú.

Svo er í síðasta lagi það, að ég álít, að það hefði þurft að koma á allt öðruvísi reglum og ákvörðunum eða jafnvel samkomulagi við atvinnurekendur og þá aðila, sem þessi hlutafélög eiga, um skattframtal, áður en farið væri inn á svona reglur eins og hér eru. Það er vitanlegt, að mikið af þeirri auðsöfnun, sem fram hefur farið á Íslandi á undanförnum árum og jafnvel áratugum, hefur verið beint fyrir skattsvik, vegna þess, hve þröngan stakk skattalöggjöfin hefur skorið allri auðsöfnun. Og þess vegna hefur þessi þröngi stakkur og þau skattsvik, sem hann hefur raunverulega leitt af sér, leitt til þess, að skattaframtölin er tiltölulega lítið að marka, og það er alveg vitað, að það er heilmikil list, sem iðkuð er um það að telja þannig fram, að raunverulega svo og svo mikið af hlutafélögum skammtar sér skattinn sjálft.

Ef við viljum komast út úr þessu ófremdarástandi, sem allir hljóta náttúrlega að viðurkenna að sé ófremdarástand, þá verður að verða breyting þarna á frá beggja hálfu. Það er ekki nóg, að ríkið breyti þannig til, að það segi: Nú ætla ég að hætta að vera svona óskaplegt í sköttunum, að ég taki bókstaflega allt af ykkur og jafnvel meira til heldur en það, sem þið græðið, og ég ætla bara að taka 25%. — Ef ríkið segir slíkt, þá verður ríkið að segja um leið: En þá verðið þið nú að hætta því að vera alltaf að telja vitlaust fram, þið verðið sem sé að fara að taka upp heiðarleg skattaframtöl, og ríkið ætlar sér þá um leið að taka upp allt öðruvísi kerfi viðvíkjandi eftirliti með slíku og láta það varða allt öðru, en verið hefur.

Það vilja kannske sumir meina, að af því að það sé nú einu sinni komið kapítalistískt skipulag á Íslandi, þá hljóti þar með að fylgja skattsvik og allt slíkt. Það er ekki gefið. Það er að vísu svo í mörgum auðvaldsþjóðfélögum, en það er engan veginn í þeim öllum. Það er í mörgum gömlum og grónum auðvaldsþjóðfélögum þannig, að skattaframtöl eru tiltölulega rétt. Við skulum bara taka eitt fremsta auðvaldsþjóðfélag núna eins og Bandaríkin. Það er nokkurn veginn vitað, að meginið af þeim stóru auðfélögum þar telur rétt fram, og það er hægt að fletta upp í hagskýrslum og fjárhagsskýrslum Bandaríkjanna til þess að reikna það bókstaflega nákvæmlega út, hve mikill gróði allra auðhringa og auðfélaga í Bandaríkjunum sé, og bera það t.d. saman við vinnulaunin. Þetta eru hlutir, sem liggja þar alveg opinberlega fyrir.

Ef við eigum að fara að breyta okkar skattalöggjöf í þá átt, sem hér er lagt til, þá þurfum við að láta breyta þessu um leið, þannig að hún hætti, þessi sterka tilhneiging, sem verið hefur — að sumu leyti af máske eðlilegum ástæðum — hjá þeim, sem hafa sinn atvinnurekstur í hlutafélagsformi, að telja rangt fram. Og ríkið, þegar það breytir svona til, þá þarf það bókstaflega að setja sér það sem mark að vera að skapa eiginlega nýtt siðferðisástand í þessum efnum, gera okkar þjóðlíf heilbrigðara hvað þetta snertir. Ef gamla svindlið á allt saman að ganga áfram, þá er engin þörf á að vera að breyta þessu. Þess vegna álít ég, að það hefði verið eðlilegt, þegar svona breyting væri gerð, að mönnum yrði bókstaflega sagt, þeim sem að hlutafélögunum og slíkum félögum standa: Ja, nú er meiningin að gera breytingu á skattalöggjöfinni, sem gengur m.a. út frá því, að héðan í frá verði talið rétt fram og það verði tekið allt öðruvísi á þessum hlutum. — Og það hefði átt að þýða viðvíkjandi t.d. þessum þremur greinum, að þær hefðu í fyrsta lagi átt að öðlast gildi á næsta ári, með skattaframtali fyrir árið í ár. Nú hins vegar er meira að segja búið að telja fram að mestu leyti, vafalaust eftir gömlu reglunni, svo þokkaleg sem hún kann að vera, þannig að þetta kemur bara sem verðlaun þar ofan á, þessar breytingar, sem þarna eru gerðar, og mundu þess vegna síður en svo vera til þess að ýta undir einhvern heilbrigðari „móral“ í þessum efnum. Ég held þess vegna, að það hefði verið nauðsynlegt, að þessum ákvörðunum hefði verið frestað núna, hins vegar fengju menn að víta, að það væri meiningin undir næsta þing að gera þarna breytingar á. Ég hef þess vegna gert það að till. minni á þskj. 490, að fyrstu þrjár greinarnar verði felldar í burtu. Það er ekki vegna þess, að ég sé ekki til viðtals fyrir mitt leyti um breytingu á þessu kerfi. Mér er það alveg ljóst, að það þarf að verða. En ég vil gera þá breytingu þannig, að það séu reistar vissar skorður við því, hve stór og voldug og áhrifarík í þjóðfélaginu hlutafélög, sem einstaklingar eiga, geti orðið. Ég vil, að það séu reistar skorður við því, hve útlent auðmagn geti náð miklum tökum í íslenzku þjóðlífi í formi hlutafélaga. Og ég vil, að það séu reistar skorður við því, hve mikill gróði geti verið af ákveðnu hlutafé, sem njóti svona skattfríðinda eins og hérna er talað um. Og ég vil, að samtímis því sem breytingar yrðu gerðar eitthvað í þessa átt, sem hérna er talað um, þá sé sjálfum skattaframtölunum og sjálfum grundvellinum að skattaframtölunum og aðferðunum við það og afstöðu manna til þessa breytt. Það er ekki kostur á neinu af þessu nú í sambandi við það að afgreiða þetta frv. með þessum þrem greinum í því núna. Þess vegna er það mín till. við þessa umr., að þær séu felldar, en frv. að öðru leyti samþykkt. Ég skal geta þess, að ef nokkur von væri um, að hægt væri að ná nokkru samkomulagi um breytingar þarna á, þá mundi ég, ef mínar till. næðu ekki fram að ganga við þessa umræðu, vera reiðubúinn til þess að vera með í að athuga það undir þriðju, ef þá gæti orðið samkomulag um að breyta í staðinn nokkuð þessum þrem fyrstu greinum. En eins og stendur, þá er ég á móti því að samþykkja þær við þær aðstæður, sem eru enn sem komið er.