13.05.1958
Neðri deild: 94. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð út af brtt. minni hl. fjhn. og því, sem flm. og aðrir hafa um þær sagt.

Ég vil fyrst taka fram út af brtt, og ræðu hv. 3. þm. Reykv. (EOl), sem nú síðast lauk máli sínu, að ég held ekki, að það sé ástæða til að óttast í sambandi við þessa skattalagabreytingu svo mjög útlent fjármagn og áhrif þess hér á landi. Ég hygg, að ef útlendingar hugsuðu til að stofna hér til atvinnurekstrar í stærri stíl, þá mundu þeir aldrei ráðast í slíkt nema að undangengnum samningum við stjórnarvöldin um ýmsa hluti því viðkomandi, þannig að Íslendingar mundu alltaf hafa tök á því að tryggja sinn hag í þessum efnum sem öðrum. Að öðru leyti sé ég nú ekki ástæðu til að fara út í að ræða um það, sem hann lagði til, að svo stöddu.

En þá eru það brtt. hv. minni hl. á þskj. 502. Fyrsta brtt. er um það, að hlutafélög og önnur slík megi draga frá tekjum sínum 8% af innborguðu hlutafé eða stofnfé, hvort sem það er greitt út til hluthafanna eða ekki. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að hlutafé í hlutafélögum er eign hluthafanna, en ekki félagsins.

Ég verð því að segja, að það er tæpast eðlilegt, að félögin megi draga frá skattskyldum tekjum sínum arð af hlutafénu og leggja hann í sína eigin sjóði. Þetta hefur að vísu verið látið viðgangast undanfarið, en þá var nú líka prósentan, sem mátti draga frá, allmiklu lægri, en hér er lagt til. Ég vil nefna það til samanburðar, að samvinnufélög mega draga frá við skattframtal hæfilega vexti af stofnsjóðunum, en þó því aðeins, að vextirnir verði séreign félagsmannanna, en fari ekki í sameignarsjóði félagsins. Og ég býst ekki við, að samvinnufélögin óski neinnar breytingar á þessu. Mér finnst það eðlilegt, að þarna gildi það sama að því er hlutafélögin varðar.

Í 2. brtt. hv. minni hl. er lagt til, að allar tekjur skipverja á fiskiskipum verði skattfrjálsar, Ekki hafa þeir hv. flm. haft fyrir því að athuga, hvað þetta mundi lækka skatttekjur ríkisins, a.m.k. flytja þeir ekki fram neinar upplýsingar um það. Þetta er þó ekki smávægilegt atriði. Í þessum hópi eru margir mjög tekjuháir menn. Og það er líka önnur hlið á málinu. Ég held það sé óhætt að fullyrða, að mörgum öðrum þjóðfélagsþegnum, sem vinna að nauðsynjastörfum, væri gert rangt til, ef skattgreiðslur þeirra yrðu óbreyttar, en þetta væri samþykkt, að undanþiggja þannig fjölmenna stétt og þar á meðal marga tekjuháa menn algerlega tekjuskatti til ríkisins. Ég vil minna á það, eins og áður hefur verið tekið fram, að í stjórnarfrv., sem fyrir liggur, eru ákvæði, sem auka töluvert skattfrádrátt fiskimanna, sem þeir hafa notið að undanförnu, og um þetta hefur orðið samkomulag innan ríkisstj. og við aðra aðila. Ég tel því ekki, að það sé hægt að fallast á þetta. Þarna er vitanlega um yfirboð að ræða af hálfu stjórnarandstæðinga, eitt af því, sem menn eru nú vanir að sjá svona annað slagið.

Þá er einnig í sömu brtt., b-lið, till. um það, að menn megi draga frá tekjum við skattframtal gjafir til kirkna svo og félaga og stofnana, sem vinna að vísindum, menningar- og mannúðarmálum, eins og það er orðað í till. Frádrátturinn má nema allt að 15% af nettótekjum skattþegns.

Ríkið leggur árlega fram mikið fé úr sjóði sínum til þessara mála samkvæmt lögum og öðrum ákvörðunum Alþingis. En hér er lagt til, að einstaklingunum verði auk þess veitt heimild til að ráðstafa ríkisfé til slíkra hluta. Ekki sýnist mér ástæða til að samþykkja þetta.

Það hefur lengi tíðkazt, að menn færðu gjafir til kirkna og margs annars, sem þeir vilja styðja. Svo hefur verið hér á landi um margar aldir, T.d. eignuðust kirkjur ítök víða, sem þeim voru gefin, og miklar gjafir fengu þær einnig í öðru formi. Um þetta má lesa í ritum frá liðnum tímum, en ekki minnist ég þess að hafa heyrt, að menn hafi á fyrri tíð farið þess á leit við kónginn í Kaupmannahöfn og aðra stjórnendur Íslands þar í borg, meðan þeir fóru með málefni Íslendinga, að þeir legðu fram nokkurn hlut af andvirði gjafanna. Enn gefa landsmenn oft stórfé til kirkna og til líknar- og menningarmála á hverju ári. Fyrir allmörgum árum gaf athafnasamur útgerðarmaður í kaupstað hér eigi allfjarri, ef ég man rétt, byggðarlagi sínu heila höll, og ágóðanum af þeirri starfsemi, sem þar fer fram, mun varið til líknar- og menningarmála í kaupstaðnum. Ég get gjarnan líka sagt frá öðru alveg nýju dæmi, sem ég þekki. Í sveit á Norðurlandi var í fyrra hafin bygging nýrrar kirkju í stað gamallar timburkirkju, sem þar var fyrir, og vinnumaður á kirkjustaðnum gaf allt sementið, sem þurfti til kirkjubyggingarinnar. Svona mætti lengi halda áfram að nefna dæmi um höfðinglegar gjafir einstakra manna, þó að hér verði staðar numið. Dæmin um þetta eru óteljandi eins og vötnin á Tvídægru. Menn halda áfram að gefa fé til kirkna og heita á kirkjur og líknarstofnanir. Þær verða vel við. Og áheitaféð heldur áfram að streyma í sjóð Strandarkirkju og fleiri guðshúsa. Þannig mun verða áfram haldið, en við skulum ekki vera að blanda ríkissjóði inn í þetta. Ég held, að gjafirnar verði gefendunum sjálfum til meiri sálubótar, ef þeir veita þær eins og áður, án þess að hljóta til þess ríkisstyrk.

Þá má líka benda á það, að þó að engin breyting verði á skattalögunum, létta menn skattabyrði sína með því að veita gjafir. Við það lækkar eignarskatturinn og eignarútsvarið. Á síðasta þingi var lagður skattur á stóreignir. Kvartanir hafa heyrzt yfir honum. Ég býst nú reyndar við, að sumum, sem eiga að borga slíkan skatt, þyki nokkur upphefð í að vera í hópi þeirra manna, sem slíkan skatt greiða. En svo eru aðrir, sem vilja losna við hann og tala jafnvel um málshöfðun til þess að reyna að komast hjá skattgreiðslunni. Ef þessir menn hefðu nú verið forsjálir og verið búnir að gefa það, sem þeir áttu umfram 1 millj. kr., til kirkna eða einhverra góðra stofnana annarra, þá hefðu þeir losnað við skattinn og allar áhyggjur í því sambandi. Þannig geta menn grætt sjálfir peningalega á því að gefa, þó að ekki verði lögleiddur sérstakur ríkisstyrkur til þeirra framkvæmda.

3. brtt. minni hl. snertir skattgreiðslur hjóna. Er þar lagt til, að tekjum allra hjóna verði skipt til helminga og reiknaður skattur af hvorum helmingi fyrir sig. Ekkert er um það sagt frekar, en um aðrar brtt. minni hl., hvað þetta mundi valda mikilli skerðingu á tekjum ríkissjóðs, en hún hlyti að verða mjög mikil.

Sanngjörn niðurstaða samanborið við skattgreiðslur ókvæntra manna mundi heldur ekki fást með þessu. Í till. finnst mér hvorki gætt þeirrar sanngirni né hófsemi, sem þyrfti að vera.

Hv. 9. landsk. segir, að samkvæmt till., sem meiri hl. fjhn. flytur, verði hjón, þar sem konan vinnur heima, að bera fulla skattabyrði. Við þetta er það að athuga, að tekjur af vinnu konu að heimilisstörfum eru ekki taldar skattskyldar tekjur, en vinna húsfreyjunnar við húsmóðurstörf, einkum á barnmörgum heimilum, er vitanlega ákaflega mikils virði. Minni hl. leggur að vísu til, að það sé lækkaður lítið eitt persónufrádráttur hjóna, en sú lækkun er tiltölulega lítil.

Hv. þm. A-Húnv. segir um þetta, að það sé gerður réttindamunur á hjónum eftir því, hvar þau eru, og hann talaði nokkuð um húsfreyjurnar í sveitunum í því sambandi. Ég vil benda á það, sem segir um þessar till. viðkomandi hjónaskattinum í grg., sem fylgir nefndaráliti meiri hlutans. Sú grg. er frá n., sem undirbjó þessar till. Og þar er bent á það, að þegar um er að ræða vinnu giftrar konu á heimilinu að framleiðslustörfum eða öflun skattskyldra tekna á annan hátt, þar sem hún vinnur í félagi við bónda sinn, þá verði það í ýmsum tilfellum nokkuð erfitt mat á því, hvað eigi að telja henni mikinn hlut af heildartekjunum. Það liggur ekki eins ljóst fyrir og þegar um er að ræða vinnu konu fyrir launum utan heimilis. Ég held líka, að það væri rétt fyrir hv. þm. A-Húnv. og aðra að láta bíða nokkrar fullyrðingar um útkomuna af þessu, þangað til nokkur reynsla er fengin. Það er nú svo, að bændur eru yfirleitt ekki hátekjumenn, og við mættum gjarnan sjá, hvernig útkoman af þessu verður, hvað skattur þeirra lækkar hlutfallslega frá því, sem nú er, við þessa breytingu og þá samanborið við þær breytingar, sem verða hjá öðrum. En ég held, að þetta sé í fyrsta sinn, sem hafa komið fram till. í þessu máli, sem gera ráð fyrir því, að þær konur, sem vinna að öflun skattskyldra tekna á heimilum með mönnum sínum, njóti ívilnunar, en það er vitanlega sjálfsagt að hafa það þannig, þó að þeim, sem áður hafa verið með till. um þessi efni, hafi, að ég held, alltaf yfirsézt þar.

4. brtt. hv. minni hl. er um eignarskattinn. Ég hef áður gert grein fyrir því, að skattaákvæðin í frv. muni gefa svipaðar heildartekjur af eignarskatti og nú er, en þar á mundi mikið skorta, ef brtt. minni hl. verður samþykkt. Og ég vil vekja athygli á því, að þeir, sem hafa átt eignir sínar að mestu í fasteignum undanfarið, hafa sloppið langtum betur við skattgreiðslur heldur en aðrir, þeir sem hafa átt eignir sínar að mestu í öðrum verðmætum. Þetta stafar af því, hvað fasteignamatið var um langan tíma úrelt og í fullkomnu ósamræmi við mat á öðrum eignum til skatts.

Hv. þm. A-Húnv. flutti hér ræðu áðan og talaði aðallega um þetta atriði í frv., og hann las hér upp heilmikið af tölum, útreikningum um það, skildist mér, hvað eignarskattur hefði verið undanfarið og hvað hann yrði í einstökum tilfellum og í einstökum héruðum, eftir að búið væri að samþykkja frv. Ekki gat ég tekið niður allar þessar tölur, enda fannst mér það ekki þess virði að gera það. En þó tók ég eftir því, að svo að segja í upphafi þessa talnalesturs sagði hann, að nú væri eignarskattur af 40 þús. kr. eign eða hefði verið 75 kr. Þetta er vitleysa. Eignarskattur af 40 þús. kr. eign hefur um mörg undanfarin ár verið 112 kr. og 50 aurar, en ekki 75 kr. Og ég get bezt trúað því, að allur hans útreikningur og talnaupplestur sé byggður á sandi eins og þessi tala, og ég verð að segja það, að þeim þingmanni, sem fer á slíku hundavaði og ekki hirðir um að vanda málflutning sinn betur en þetta, honum ferst illa að brigzla öðrum mönnum um, að þeir fari með blekkingar í skattamálum, en hann leyfði sér að bera slíkt fram áðan án þess að færa þó nokkur rök fyrir þeim áburði. Og hvað sem hann segir um fasteignamat og eignarskatt, þá er vissa fyrir því, að það er langt frá því, að fasteignamatið nýja yfirleitt, sé nokkuð nærri gangverði á fasteignum, þannig að fasteignaeigendur njóta þar mikillar ívilnunar í eignarskatti, þó að stórum minna sé, en áður var. Það er því svo langt frá því, sem hugsazt getur, að með þessum nýju ákvæðum í frv. sé nokkuð gengið á rétt fasteignaeigenda í landinu.

Loks flytur hv. minni hl. till. um, að aftan við síðustu frvgr. komi ákvæði til bráðabirgða. Það ákvæði er um útgáfu fríhlutabréfa án nokkurrar skattgreiðslu. Ég verð að segja það, að mér finnst ekki auðvelt að átta sig á þessu máli í skjótri svipan, en hins vegar er hér eftir mjög takmarkaður tími til meðferðar á frv., þar sem til þess er ætlazt, að það hljóti fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Mér sýnist því ekki fært að samþykkja þetta. Ég held, að það þyrfti nánari athugunar við, heldur en nú er hægt að láta fram fara, áður en tekin væri ákvörðun um það, hvort slíkt ætti rétt á sér eða eitthvað í þá átt.

Mér sýnist það ljóst, að brtt. hv. minni hl. mundu hafa í för með sér mikla skerðingu á þeim skattatekjum, sem ríkissjóði eru ætlaðar í fjárlögum þessa árs, og það sýnir takmarkaða ábyrgðartilfinningu flutningsmanna, að ekki sé meira sagt.