19.05.1958
Neðri deild: 100. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við fyrri hluta þessarar umr. sýndi ég fram á það með glöggum tölum, hvernig 5. gr. þessa frv. er algerlega í ósamræmi við lög og loforð, sem gefin hafa verið varðandi eignarskattinn, og þau lög, sem með þessari gr. eru þverbrotin, eru lög um samræmingu á mati fasteigna frá 1955. Og ég gat þess einnig, hvað þessi lagagrein er algerlega í ósamræmi við þær yfirlýsingar, sem hæstv. fjmrh. og þm. V-Húnv. höfðu gefið. Nú vildi hv. þm. V-Húnv. fara að verja þetta við þessa umr. og hafði ekkert annað sér til varnar heldur en eina tölu, sem hann tilfærði og er rangt tilfærð hjá honum og það, sem hann um það sagði, þess vegna ósannindi ein. Ég bar hér saman lögin, eins og þau eru, lögin frá 1954, og þetta frv., og skv. þeim lögum er eignarskattur af 40 þús. kr. eign 75 kr. Það, sem hv. þm. V-Húnv. er aftur að hengja sinn hatt á, er það, að það hefur verið ákveðið núna síðustu árin að innheimta þennan skatt með 50% álagi, og eftir því stjórnarfari, sem nú er og verið hefur, þá mundi það eins geta orðið ákveðið að innheimta þennan skatt eins og er skv. þessu frv. með 50% álagi. En jafnvel þó að þetta 50% álag sé tekið með og því hætt við 75 kr., eins og hv. þm. V-Húnv. vildi gera, og þessi skattur væri 112 kr. og 50 aurar, þá segir það litið á móti þeim gífurlegu hækkunum, sem eru skv. þessu frv., því að ef þarna er um fasteign að ræða og hún væri í Reykjavík, þá væri af þessari eign skv. frv. 1.170 kr. eignarskattur. Það sýnir, að hér er algerlega þverbrotið allt, sem um var samið og lofað var og lýst hefur verið yfir í sambandi við þetta mál.

Nú veit ég ekkert um það að eðlilegum hætti, hverjir það hafa verið, sem hafa haft það með höndum með hæstv. fjmrh. að semja þetta frv. En ég er sannfærður um það, að ef mínir samstarfsmenn í landsnefnd fasteignamatsins, Hannes Pálsson og Páll Zóphóníasson, hefðu um það fjallað, þá hefðu þeir ekki skilað því á þennan hátt, því að þeir eru það heiðvirðir menn, að þeir mundu ekki láta svona eftir sig sjást.

Ég hef nú, af því að ég er búinn að sjá, að það er ekki hægt að fá leiðréttingu á þessu með breytingu á skalanum, af því að komið er undir þinglok, leyft mér að flytja brtt. við þessa grein á þskj. 519, og fer hún fram á það, að í þetta sinn sé eignarskatturinn reiknaður þannig út, að fasteignir séu teknar með gamla matinu eins og það var frá 1942, og er það í samræmi við það, sem við í samgmn. höfum lagt til og hefur verið samþykkt hér í hv. d. varðandi vegaskattinn, að láta gilda í þetta sinn sömu reglur og áður hafa um það gilt. Og mig langar mjög til að sjá, hverjir þeir eru af hv. þdm., sem vilja þverbrjóta þau lög, sem áður hafa verið í gildi varðandi þetta mál, og hverjir vilja halda þau.

Þá sagði hv. þm. V-Húnv. við fyrri hluta þessarar umr. snertandi hjónaskattinn, að ég hefði haldið því fram, að það væri farið eftir því, hvar hjón væru búsett. Það er alveg rangt. Ég minntist ekkert á það, að það væri farið eftir því í frv., en mótmælti því, að giftum konum væri gert nokkuð hærra undir höfði, þeim sem vinna úti, heldur en þeim, sem vinna alltaf á sínu heimili, og tók þar t.d. aðstöðu giftra kvenna í sveitum landsins. Hér er þess vegna alveg eins og í hinu tilfellinu um blekkingu eina að ræða hjá hv. þm. V-Húnv. Og ég er sannfærður um, að það verður yfirleitt ekki vel séð að gera þeim giftu konum lægra undir höfði í skattgreiðslu, sem vinna að staðaldri alltaf á sínu heimili við stjórn síns heimilis, við uppeldi sinna barna, heldur en hinum, sem vinna úti. Ég vænti því, að hv. þdm. vilji samþykkja þá brtt., sem um þetta er frá minni hluta hv. fjhn.