19.05.1958
Neðri deild: 100. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég á hér eina brtt. við brtt. frá meiri hl. fjhn., en hann flytur á þskj. 489 breytingar, sem snerta sérsköttun hjóna. Þessar breytingar fela í sér nokkra rýmkun á því, að hjón fái að telja fram hvort í sínu lagi, frá því, sem er í núgildandi lögum um þetta efni. Í brtt. minni hl. fjhn. er hins vegar lagt til að rýmka þetta allmiklu meira, en í till. meiri hl. fjhn. felst. Og þó að segja mætti máske, eins og fram kom hjá hv. þm. A-Húnv., að þær till. ættu nokkurn rétt á sér og þess vegna væri rétt að samþykkja þær, þá sýnist mér, að viðhorfið sé þannig nú, að það þurfi ekki að gera ráð fyrir því, að það verði gert, og flyt ég því brtt. við brtt. meiri hl. fjhn. um þetta efni. Þessar till. mínar lúta að því, að mér þykir gert upp á milli um frádrátt hjá hjónum eftir því, að hvaða störfum húsmóðirin vinnur. Þannig er það um sveitakonur, að það á að vera heimilt, eftir að farið hefur fram sérstakt mat á gildi starfa sveitakonunnar á heimilinu, að draga frá sömu upphæð og leyft er í öðrum tilfellum, en hins vegar settar þær hömlur á þennan frádrátt, að hann getur orðið allmiklu minni hjá sveitakonum heldur en konum, sem vinna að öðrum störfum, og það felst í því, sem stendur hér í öðrum lið, sem fjallar um störf sveitakvennanna og hvernig hagað skuli skattlagningu í sambandi við það. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Aldrei kemur þó hærri hlutur til greina sem frádráttarstofn en nemur tvöföldum persónufrádrætti konunnar.“ Í þessu tilfelli, þegar um er að ræða sveitakonu, má þó frádrátturinn aldrei nema meiru en sem svarar 12 þús. kr. — eða 13 þús. kr., ef samþykktar yrðu breytingar meiri hl. fjhn., sem lúta að því að hækka þennan persónufrádrátt.

Þetta get ég ekki fallizt á, og þess vegna hef ég flutt hér um það brtt. að leggja til, að ákvæðin um þessar hömlur gagnvart sveitakonunni og hennar störfum verði felld niður. Till. mín raskar að engu leyti öðru efni brtt. meiri hl., og geta þær að öllu staðizt, þó að hún verði samþykkt. En með tilliti til þeirrar skoðunar minnar, að störf sveitakvenna beri ekki að meta í minna gildi, en annarra húsmæðra í þessu landi, þá get ég ekki fellt mig við, að það sé sanngirni fyrir því að gera hennar hlut lægri, en annarra húsmæðra, með slíkum takmörkunum sem í þessum ákvæðum felast. Ég vildi þess vegna vænta þess, að hv. d. geti verið mér sammála um, að rétt sé að fella þessar takmarkanir niður úr brtt. um þetta efni.