19.05.1958
Neðri deild: 100. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Út af ræðu hv. frsm. meiri hl. vil ég taka það fram, að ég gerði engar athugasemdir við það út af fyrir sig, þótt það ætti að meta hlut húsfreyjunnar í þeim tilfellum, sem þar um ræðir, úr heildartekjum heimilisins. Það finnst mér, að eðlilegt geti verið að gert sé, t.d. að því er snertir konur í sveit. Þar telur bóndinn fram í einu lagi, og er gert ráð fyrir því, að svo verði það áfram eins og verið hefur og þess vegna sé þetta eðlileg leið til þess að ákveða hlut konunnar í sameiginlegum tekjum heimilisins. Ég hafði ekkert við það að athuga. Það, sem ég hef að athuga, er, að það skuli vera bornar verulegar brigður á það, að þetta mat geti staðizt eða fáist réttilega gert. Ég þekki nokkuð til um framkvæmd skattamála í sveitum, og ég hygg, að það megi alveg eins byggja á réttmæti slíks mat eins og yfirleitt er byggt á réttmæti framtalanna og þess vegna sé ekki nein ástæða til að vera að gera neinar sérstakar ráðstafanir í þessu tilfelli, frekar en gert er, þegar byggja á, á framtalinu yfirleitt. Það er að sjálfsögðu í langsamlega flestum tilfellum, sem þetta ákvæði tekur til húsmæðra, sem vinna í sveit. Það kunna að vera til einhverjar aðrar hliðstæður um sameiginlega tekjuöflun, sem er skattskyld, í öðrum tilfellum. En hér eru gerð alveg sérstök ákvæði, þegar konan vinnur utan heimilis. Þarna er eingöngu um að ræða sameiginlega vinnu hjónanna fyrir öflun skattskyldra tekna. En ég fyrir mitt leyti get alls ekki fallizt á það, að hlutur konunnar, sem vinnur með bónda sínum að sameiginlegum skattskyldum tekjum, sé í nokkurn máta rýrari, en hlutur t.d. þeirrar konu, sem vinnur utan heimilis, og löggjöfin eigi að gera þeirri konu hvað þetta snertir hærra undir höfði, en hinni, sem helgar heimilinu alla starfskrafta sína, bæði við uppeldi barnanna og sameiginleg störf við öflun tekna fyrir heimilið. En þetta virðist mér að sé gert með því að setja á hámark, sem dregur mjög niður þau hlunnindi, sem falla í skaut fyrst og fremst sveitaheimilanna, því að til þeirra tekur þetta fyrst og fremst.

Ég get því ekki fallizt á annað, en brtt. mín um niðurfellingu á þessu ákvæði sé bæði réttmæt og sanngjörn.