12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

5. mál, tollskrá o. fl

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. taldi, að það gætti einhvers ósamræmis í tillöguflutningi af minni hálfu og hv, 9. landsk. þm. (ÓB) og 5. þm. Reykv. (JóhH). Því fer fjarri, að svo sé. Mín till. stenzt fyllilega, þó að þeirra till.samþ., og þeir hafa út af fyrir sig ekkert á móti því, að það sé lögboðið, að þessar byggingar skuli reisa, þó að þeir vilji ekki, að sérstakur skattur sé lagður á eða álag með þeim hætti, sem í þessu frv. og núverandi lögum er ákveðið. Þetta er allt í fullu samræmi, eins og einnig hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) fyllilega sýndi fram á, og ég get tekið undir hans orð.

Ég vil ítreka það, að ég get ákaflega vel fallizt á það, að sá hluti af ríkistekjunum, sem lögboðinn sé í þessum efnum, verði 2% í stað eins, ef hæstv. fjmrh. telur, að 1% sé of lítið til þessara þrenns konar þarfa, og ef sú prósenttala er hæstv. ráðh. andvíg eftir hækkunina, þá er það vegna þess einfaldlega, að hann er á móti því, að í þessar framkvæmdir verði ráðizt, enda er það svo, — og ég nefndi einmitt það, að hæstv. ráðh. væri einn af þeim, sem hefði mest mætt á um andstöðu í þessum efnum, — að hér er einmitt um að ræða nokkurt dæmi þeirrar ágengni, sem hæstv. fjmrh. sagðist hafa orðið fyrir af okkur fyrrv. ráðh. Sjálfstfl. um fjárkröfur á hendur ríkissjóði. Það voru óskir til þess að ráða bót á neyðarástandi, þvílíku sem hér er um að ræða og öðru slíku, sem hæstv. ráðh. hældi sér á síðasta vori af, að hann hefði sýnt mikinn dug í að standa á móti, en ásakaði okkur fyrir óheyrilega frekju að fylgja slíkum kröfum eftir.

Ég vil og kemst ekki hjá að rifja þetta upp að gefnu tilefni frá hæstv. ráðh. nú, þó að ég hafi, síður en svo löngun til þess að ásaka hann. Ég veit, að hann á í vök að verjast, og ég hef ekki löngun til þess að gera hans ævi örðugri eða hans hlut minni, en þegar er orðið. Hann hefur séð fyrir því að gera hann svo lítinn, að það eru ekki gustuk að leggjast þar á, til að höggva út úr. En það verður hins vegar að koma fram, sem rétt er í þessum málum sem öðrum, að hæstv, ráðh. er því andvígur, að úr því neyðarástandi sé bætt, sem hann getur ekki vefengt að hér sé um að ræða.

Hins vegar sýndi það bæði mjög vel viðbrögð, vinnubrögð og viðhorf þessa hæstv. ráðh., að þó að hann væri mjög mótsnúinn því, að aðstaða til löggæzlu og fangageymslu væri viðunandi á Keflavikurflugveili, meðan yfirstjórn þeirra mála heyrði undir sjálfstæðismenn, þá gerbreyttist sú afstaða, eftir að þau mál komu undir framsóknarmann, þannig að þá var eina ráðið til þess að kría út fé til lögreglustöðvar í Reykjavík og umbóta í þeim málum hér, að fallast á að verða við óheyrilegum kröfum þessara tveggja ráðh., framsóknarráðherra, um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, sem áttu að verða þeim svo til lofs og dýrðar. Ég veit ekki, hvað þeim framkvæmdum hefur miðað áfram eða hvort hæstv. ráðh. hefur misst allan áhuga fyrir umbótum suður frá, eftir að framsfl, lét af yfirstjórn þeirra mála. Ef til vill er það, að blóðið renni til skyldunnar og bræðralagið í Hræðslubandalaginu hafi enzt til þess, að núverandi hæstv. utanrrh. hafi getað fengið eitthvað hliðstæðar fjárveitingar hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. utanrrh. og núverandi sendiherra í London, fékk á sínum tíma. Því miður verður að segja þá sögu eins og er og óbjagaða, þó að hæstv. ráðh. vilji láta hana líta öðruvísi út, að viðhorf þessa hæstv. ráðh. til nauðsynja, er vinna þurfi á ríkisins vegum, fer allt eftir því, hverjum hann telur að hægt sé að þakka umbæturnar á eftir. Ef hann telur, að málefnin séu í þeirra höndum, framsóknarmanna, sem hann geti þakkað sér og sínum flokki, að þeir hafi verið forustumenn um umbætur, þá er oft ótrúlega lítil sparsemi á ríkisfé í þeim tilgangi. Ef aftur á móti alveg sama þörf eða enn þá brýnni er í ráðuneytum þeirra manna, sem hæstv. fjmrh. hverju sinni er andvígur, þá verður viðhorf hans gersamlega ólíkt. Þá vill hann halda í féð sem allra mest og sér allar aðrar þarfir brýnni. Ég veit, að þó að hæstv. fjmrh. hafi breytzt að mörgu leyti, frá því að við vorum saman í ríkisstj., þá eimir eftir af þessu enn, enda sé ég, að hæstv. sjútvmrh. kinkar kolli því til staðfestingar. Og ég veit líka eftir öruggum heimildum frá honum sjálfum, að hæstv. sjútvmrh. fór ekki leynt með það í sumar, að svo ill sem áður hefði verið úthlutun atvinnubótafjár, meðan sjálfstæðismenn komu þar að, þá hefði hún þó orðið miklu verri, eftir að hæstv. félmrh. fékk hana til ráðstöfunar, af því að hann hefði látið hæstv. fjmrh., sem að vísu var þá ekki kallaður þeim veglega titli, taka sig alveg í vasann og úthluta þessu öllu til framsóknarmanna. Ég sé því, að það hefur ekki orðið snögg breyting á eðli hæstv. fjmrh. að þessu leyti, enda er það svo, að það er ekki von, að eðliskostirnir breytist að öllu, þó að vissar myndbreytingar eigi sér stað.

Þetta er nauðsynlegt að dregið sé fram hér og skýrt, vegna þess að það sýnir, að það er engin tilviljun, að hæstv. fjmrh. er algerlega andvígur því, að nú sé bætt úr þeirri ríku þörf, sem hans málgagn öðru hvoru hefur haldið fram að væri til umbóta í fangelsismálum. Það er vegna þess, að nú er þessi till. borin fram af sjálfstæðismanni. Þá má alls ekki verða við henni. Hins vegar skyldi mig alls ekki furða á því, þó að hæstv. fjmrh. tæki utan fjárlaga kannske hundruð þúsunda eða milljón krónur og þakkaði síðan dugnaði hæstv. forsrh. og sjálfs sín, að úr þörfinni hefði verið bætt. Það má bara enginn andstæðingur vera kenndur við umbæturnar. En þó að þannig sé haldið á, að fjárlögin séu gerð að skrípamynd og afskipti Alþ. af fjárlögum séu efnislega úr sögunni, þá er hæstv. fjmrh. þar aðeins í essinu sínu, enda sjáum við, að nú brosir hann og færist ánægjusvipur yfir allt hans annars deyfðarlega andlit. Það er þegar honum er hugsað til þess, hvernig hann hefur haldið þm. hér núna hátt á annan mánuð iðjulausum utan við gang málefnanna og sendir svo síðast á sunnudaginn fjvn., ekki aðeins stjórnarandstæðingum, heldur stjórnarliðinu þar, tilkynningu um, að nú sé búið að ákveða, að nú verði þeir að láta hendur standa fram úr ermum og koma málinu hingað inn á Álþingi sem allra fyrst, til þess að þeir geti allir rétt upp hendurnar eftir því, sem hann og hans félagsbræður gefa bendingar til.