22.05.1958
Efri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur nú legið lengi fyrir hv. Nd., og ég geri fastlega ráð fyrir því og raunar veit, að efni þess er hv. þdm. hér mætavel kunnugt, því að meiri háttar atriði, sem í því eru fólgin, hafa verið talsvert mikið rædd almennt. Ég vil segja frá þeim með örfáum orðum samt sem áður.

Það er fyrst, að settar eru nýjar reglur um skattlagningu félaga, sem gera ráð fyrir því, að stighækkandi skattur á félögum sé afnuminn, en þess í stað komi eitt skattgjald. Þetta er aðalatriðið að því er varðar hið nýja fyrirkomulag um skattlagningu félaga.

Þá er í frv. gert ráð fyrir því, að nýjar reglur verði settar í lög um skattframtöl og skattgjald þeirra hjóna, sem vinna bæði að öflun skattskyldra tekna, og eru um þetta allýtarlegar reglur í frv.

Þá eru í þessu máli ný ákvæði um eignarskatt, sem eiga að vera til þess, að eignarskattsbyrðin í heild aukist ekki við hið nýja fasteignamat, og er það í samræmi við lagaákvæði, sem um þetta efni var lögfest, þegar lögin um nýja fasteignamatið voru samþykkt.

Þá er í málinu gert ráð fyrir því að auka eða hækka þann sérstaka frádrátt, sem fiskimönnum er heimilaður í skattalögunum. Er það ákvæði í frv. í samræmi við samkomulag, sem varð um það atriði við stéttarfélög sjómanna.

Loks eru í frv. ákvæði um frekari lækkun á skatti á lágtekjum, en áður hefur verið lögfest. Þessi eru höfuðatriði málsins.

Ég vil svo taka fram, að þetta frv. hefur tafizt nokkuð mikið í hv. Nd., m.a. út af því, að beðið var eftir því, að fram kæmi uppástunga um fyrirkomulag á skattgjaldi þeirra hjóna, sem vinna bæði að öflun skattskyldra tekna. Vegna þessa dráttar hafa skattanefndir víðs vegar um landið og skattstjórar orðið að bíða með sín lokastörf og ekki getað lagt síðustu hönd á skattaálagninguna. Er þessi bið orðin ákaflega löng nú þegar. Hér við bætist, að mjög líður nú vonandi að þinglokum. Af þessum ástæðum vildi ég leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta og hv. d., að máli þessu verði hraðað í gegnum þessa hv. d., þannig að þetta frv. gæti fengið afgreiðslu og skattanefndir farið að vinna að því fullum hraða að ljúka störfum sínum.