22.05.1958
Efri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það voru aðeins fáein orð út af því, sem hv. 6. þm. Reykv. tók fram. Ég held, að hann hafi allt of þröngt sjónarmið í þessu máli, og bara af því tilefni vil ég aðeins undirstrika, hvað mér sýnist aðalatriðið í þessu frv. Aðalatriðið í þessu frv, er ekki það, hvort félögin í landinu, ef tekin eru skattaframtöl þeirra, eins og þau hafa verið undanfarin ár, og borið saman, hvað þau eigi að greiða mikið í heild samkv. þessu frv. og eftir gamla laginu, eiga að greiða samtals meira eða minna. Aðalatriðið frá mínu sjónarmiði í þessu frv. er sú breyting á skattlagningaraðferðinni, sem hér er stungið upp á, og það er sú breyting, sem ég tel að hafi höfuðþýðingu fyrir atvinnureksturinn í framtíðinni.

Áður hefur þessu verið þannig háttað, eins og við vitum, að það hafa verið háir stighækkandi skattar á félögunum. Þetta hefur gert það að verkum, að félög, sem hafa með höndum meiri háttar atvinnurekstur og þess vegna verið nokkuð stór og þar af leiðandi að eðlilegum hætti þurft að hafa og verið réttmætt að hefðu í krónutölu hærri tekjuafgang, en önnur félög, sem hafa haft minni verkefni með höndum og hafa þá haft að krónutölu lægri tekjuafgang, — að þessi félög hafa borgað miklu meira af sínum tekjum í skatta til ríkis og bæja heldur en hin, þó að þau hafi í sjálfu sér alls ekki haft tiltölulega neitt hagstæðari útkomu.

Þetta hefur stighækkandi reglan gert að verkum. Og hún hefur gert annað að verkum. Þegar menn hafa séð þetta í hendi sér, hafa menn sótt á að deila atvinnurekstri niður í smáfélög, en það hefur verið mjög óheppilegt fyrir þróun atvinnulífsins. Menn hafa verið ákaflega ragir við að koma upp myndarlegum félögum, sem hefðu með höndum stór verkefni, af ótta við þessa stighækkandi skattstiga. Menn hafa séð, að þó að þessi félög hefðu tiltölulega lítinn afgang, þá var skatturinn samt gífurlega þungur, vegna þess að hann var miðaður við stighækkandi skatt á þann hagnað, sem fram kom. Sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir, er einmitt þetta, að hafa ekki stighækkandi skatt, heldur fasta prósentu, alveg án tillits til þess, hvort félagið hefur mikinn eða lítinn afgang, eða sagt með öðrum orðum, hvort félagið er lítið eða stórt. Þetta ætla ég að geti orðið stórfelldur léttir í framtíðinni fyrir atvinnureksturinn og haft mjög góð áhrif almennt í þá átt, að menn verði djarfari en áður hefur verið í því að stofna myndarleg félög, sem hefðu með höndum stór verkefni, jafnvel félög, sem nytu miklu almennari þátttöku, en áður hefur átt sér stað, og það til að sinna stórum verkefnum, en það hætti, sem verið hefur undanfarið, að menn geri ráðstafanir til þess að kljúfa atvinnureksturinn niður í smáfélög, en séu mjög hikandi við að stofna til meiri háttar samtaka.

Þetta er svo stórkostlegt atriði í mínum augum, miðað við þessa reynslu, að mér finnst, að allir ættu að sameinast um að innleiða þessa breytingu, hvað sem svo líður metingi um tekjur ríkis og tekjur sveitar- og bæjarfélaga. Þetta er að mínu viti aðalatriði málsins. Og ég er alveg sannfærður um, að þó að hægt sé að reikna þetta dæmi eins og það er reiknað í grg., að ríkissjóður mundi hafa álíka tekjur í heild og áður, miðað við þær skýrslur, sem fyrir liggja, þá hefur þetta þær breytingar í för með sér á atvinnurekstrinum í landinu, að til stórfellds ávinnings verður. Og verður það auðvitað líka, ef allt fer að líkum, til stórfellds ávinnings fyrir bæjar- og sveitarfélögin.

Ég tel því, að það sé alls ekki rétt að láta þetta mál bíða eða blandast inn í vandamálið um tekjuöflun sveitar- og bæjarfélaga. Þetta mál hefur ákaflega lengi tafizt einmitt af því, að það hefur ofizt inn í það vandamál, sem er mjög margþætt. En loks var tekin ákvörðun um að taka þennan mikilsverða þátt út úr og reyna að leysa hann til hagsbóta fyrir atvinnureksturinn á þessa lund. Ég vil þess vegna vona, að það verði sæmilegt samkomulag um að gera þessa breytingu, hvað sem öðrum vandamálum líður.