22.05.1958
Efri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Kjartansson:

Hv. þm. S-Þ. taldi hér upp nokkrar húsmæður, konur, sem honum fannst eiga fullan rétt á ívilnun í skatti, því að þær geta haft aðstöðu til að vinna utan heimilanna og afla þar af leiðandi tekna. En hann gat ekki um húsmóðurina, eins og hann vildi ekki meta neitt hennar starf, — þá húsmóður, sem verður að vinna á heimilinu. Hann sagði þó í lokin, að það mætti reikna henni einhvers kanar vinnukonukaup og bæta því þá við tekjur bóndans. Ég hélt nú satt að segja, að það væri greiðandi eitthvað fyrir það, að konan vinnur þessi störf á heimilunum, þjóðfélagslega séð. Ég hélt það þyrfti ekki endilega að segja við húsmóðurina: Jú, þú getur fengið einhverja ívilnun með því að bæta vinnukonukaupi ofan á hinar sameiginlegu tekjur hjónanna. — Ég hélt, að starf húsmóðurinnar væri meira metið en kemur fram í ræðu þessa hv. þm.

Ég skora eindregið á hv. n. að athuga rækilega þennan hjónaskatt og láta eitt og sama yfir alla ganga, ekki vera að refsa þeim húsmæðrum, sem vinna nytsamasta starf í þjóðfélaginu.