22.05.1958
Efri deild: 104. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

130. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi nú fyrst og fremst að gefnu tilefni leyfa mér að skora á hv. þm. V-Sk. að hugsa þessi mál ýtarlegar og betur, en hann auðheyrilega hefur gert. Það er á engan hátt verið að refsa þeirri konu, sem vinnur heimastörfin, þó að heimili hennar fái ekki sérstakan frádrátt vegna hennar starfa, vegna þess að hennar störf eru alls ekki reiknuð heimilinu til skattskyldra tekna, hennar störf eru skattfrjáls, og á þann hátt fær heimili hennar ívilnun. Og ef hann veltir fyrir sér dæmunum, þeim sem hann tók áðan, annars vegar um hjónin, sem fara með börn sín á dagheimilið, til þess að konan geti unnið úti þá blasir þetta við. Í stað þess að fara á dagheimilið með fimm börnin, þá vinnur síðarnefnda konan að gæzlu þeirra og umönnun heima, og þar af leiðandi aflar hún þannig tekna með vinnu sinni, vinnu, sem hin hjónin þurftu að kaupa og kemur til frádráttar þeim tekjum, sem konan aflaði þar, meðan hún hafði börn sín á dagheimilinu.

Ég vil skora á hv. n. að gera rækilegan samanburð á aðstöðu þessara tveggja hjóna, og ég efast ekki um það, að hún gerir það og kemst að þeirri niðurstöðu, að það er rétt gert upp á milli hjónanna, eftir því sem till. eru í frv.